Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 17:07:47 (5123)

1998-03-24 17:07:47# 122. lþ. 93.16 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[17:07]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hér er vafalítið á ferðinni mikilvægasta þingmál á sviði landbúnaðar sem verður væntanlega afgreitt á þessu vori. Það fjallar um, eins og hæstv. ráðherra lýsti, endurnýjun á búvörusamningi fyrir mjólkurframleiðslu, en fyrri búvörusamningur var gerður árið 1992. Þá voru gerðar miklar kerfisbreytingar í landbúnaði. Tekið var upp nýtt kerfi opinberrar aðstoðar og fyrirkomulags við verðlagningu og aðra þætti. Með þeim samningi voru útflutningsbætur felldar niður og þá voru felldar niður niðurgreiðslur. Þess í stað voru teknar upp beingreiðslur til bænda. Þá var m.a. sett á greiðslumark og heimiluð sala á því á milli býla. Einnig átti að ná fram hagræðingu með þeim samningi.

Ýmislegt hefur breyst frá því að þessi samningur var gerður og má segja að margt hafi gengið eftir hvað varðar markmiðið með fyrri búvörusamningi. Þó hefur hagræðingunni síst miðað áfram en ýmsir aðrir þættir horft til bóta hvað það varðar að stuðningur hefur minnkað. Aðrir þættir hafa hins vegar þróast miður vel.

Frv. byggir á samningi ríkisvaldsins við Bændasamtökin. Upprunaleg gerð þess samnings var unnin í svokallaðri sjö manna nefnd, en það er margvíslegur fróðleikur sem er í frv., skýrsla sjö manna nefndar, samningurinn sjálfur auk sjálfs frv. og greinargerðar með því. Reyndar er rangnefni að kalla þetta sjö manna nefnd vegna þess að fulltrúi Alþýðusambandsins gekk úr nefndinni og hún starfaði áfram sem sex manna nefnd en niðurstaðan lá fyrir bæði í nál. og síðan samningi.

Helstu breytingar sem eru gerðar varðandi búvörusamninginn miðast vitaskuld við tiltekin markmið. Þau markmið voru að skapa rekstrarumhverfi fyrir framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða, bæta afkomumöguleika í mjólkurframleiðslu og nýta skilyrði til framleiðslu mjólkur fyrir markað innan lands og aðra markaði sem hagkvæmir þykja. Það er augljóst á þessu að markmiðin eru nokkuð háleit eins og oft vill nú verða þegar menn reyna fyrir sér í löggjöf með þessum hætti.

Leiðirnar sem farnar eru og endurspeglast í frv., þær breytingar sem gerðar eru, eru í reynd ekki mjög miklar miðað við fyrri búvörusamning. Við ákvörðun verðs til bænda er nú miðað við hagkvæma bústærð, ekki meðalbú. Þetta mun auka svigrúm við verðlagningu til bænda. Það er áfram inni í þessu verðtilfærsla í nokkuð miklum mæli. Það kemur fram bæði í 4. og 8. gr. frv., verulegar upphæðir sem þar eru færðar á milli. Því kerfi er viðhaldið. Það er óbreytt fyrirkomulag beingreiðslna, þ.e. er 47% af lágmarksverði. Hins vegar felst ein aðalbreytingin í búvörusamningnum í breytingum varðandi verðlagsákvarðanir.

Nú er það svo, herra forseti, að verðákvörðun í landbúnaði er miðstýrð ákvörðun, tekin í nefndum. Í svokallaðri sex manna nefnd er ákveðið verð til bænda. Hins vegar er ákvörðun um verð á heildsölustigi ákveðin í svokallaðri fimm manna nefnd. Ein meginbreytingin í frv. er að nú er ein nefnd, skipuð fimm til sex manns, sem tekur ákvörðun um verð til bænda og verð á heildsölustigi. Hins vegar er nýmæli í þessu að árið 2001 verður þessi verðlagning gefin frjáls. Nefndarskipunin sjálf hefur breyst nokkuð eins og hæstv. ráðherra lýsti. Það koma fagaðilar að ákvörðunum hverju sinni. Enn er gert ráð fyrir fulltrúa Alþýðusambandsins og BSRB inn í þessar nefndir. Vitaskuld mætti hugsa sér öðruvísi samsetningu á þessum nefndum ef menn vilja á annað borð hafa þær. Það má tilgreina Neytendasamtökin en oft hefur komið til umræðu hvort þau ættu ekki að eiga aðild að þessum nefndum. Ef ég man rétt þá var um það rætt til skamms tíma en menn hafa ekki endurvakið þá hugmynd.

Hægt er að segja tvennt varðandi verðákvörðunina, þ.e. að færa þetta undir eina nefnd sé í sjálfu sér til bóta og samsetning nefndarinnar einnig. Hins vegar held ég að ákvörðun eða stefnumótun um að árið 2001 verði tekið upp meira frjálsræði sé of rúmur tími. Það hefði átt að setja sér stífari mörk við að innleiða frjálsari viðskiptahætti í verslun með landbúnaðarafurðir, hvort sem er á heildsölustigi eða verðlagningu til bænda.

Samt er ekki hægt að segja að þetta frv. leiði okkur aftur á bak í skipulagningu á sölu og framleiðslu á mjólkurafurðum. Það væri ósanngjörn framsetning. Hins vegar eru endurbæturnar mjög litlar. Þetta eru hænuskref sem við höfum verið að taka í breytingum á landbúnaði hérlendis, í sjálfu sér hægari breytingar að nokkru leyti en gert er í nágrannalöndunum. Það er vitaskuld mesta áhyggjuefnið vegna þeirra þriggja staðreynda sem ég hef reynt að draga nokkuð skýrt fram í sambandi við umræðu um landbúnað.

Í fyrsta lagi er hérlendis einn mesti stuðningur við landbúnað sem þekkist í heiminum, opinber stuðningur sem kemur fram bæði í beinum fjárhagsstuðningi og markaðsvernd. Þar erum við með einna mestan stuðning sem þekkist.

[17:15]

Í öðru lagi er það einnig staðreynd að matvæli hér á landi eru 30% dýrari en að meðaltali í Evrópusambandinu. Það kostar sem sagt 30% meira að kaupa inn í matinn fyrir venjulegan neytanda en að meðaltali í Evrópusambandinu. Þessar tvær staðreyndir eru ekki til hagsbóta fyrir okkur, að vera með einn mesta stuðning í heiminum og hátt matarverð.

Þriðja staðreyndin er óhugnanlegust. Hún er sú að bændur eru fátækasta og tekjulægsta stétt landsins. Þegar þessar þrjár staðreyndir eru skoðaðar spyr maður vitaskuld: Er ekki eitthvað í uppbyggingu kerfisins sem leiðir til slíkra staðreynda því þær eru óumdeildar? Ég held að enginn komi hér upp og segi að bændur séu tekjuháir eða séu ekki tekjulægsta stétt landsins. Ég held að það sé enginn sem geti komið og sagt með neinum rökum að hér sé ekki einn mesti stuðningur við landbúnað í heiminum. Það er þannig. Það eru aðeins nokkur lönd fyrir ofan. Það er heldur ekki hægt og fullyrða að matvæli séu hér á sambærilegu verði og í Evrópusambandinu. Það er ekki svo.

Þótt bændur beri ekki mikið úr býtum og staða sauðfjárbænda sé reyndar enn þá daprari en mjólkurframleiðenda, þá sjáum við að fjölmargir í milliliðastarfsemi í tengslum við landbúnað virðast hafa það býsna gott og hafa tryggt sér ágæta afkomu undanfarna áratugi. Þetta þekkja menn sem hafa skoðað ársreikninga sem þar liggja á bak við, að þar hefur átt sér stað mikil eiginfjármyndun um margra áratuga skeið og einhvers staðar kemur hún.

Varðandi stöðu kúabænda er mjög athyglisvert, herra forseti, að skoða það sem kemur fram í skýrslu sjö manna nefndar á bls. 35 í frv., þ.e. afkomu kúabænda frá 1992--1996. Þar kemur fram að eiginfjárhlutfall kúabúa árið 1992 var um 50%, fór síðan í 58%, svo í 49%, 42% og er núna um 40%. Það er að segja eiginfjárhlutfall kúabúa hefur lækkað. Þetta segir ekkert annað en að á þessum fjórum árum hafa kúabændur orðið fátækari miðað við það sem áður var. Þetta staðfestir það sem ég hef verið að reyna að draga fram, að tekjur eru ónógar í landbúnaði. Það er ekki rétt gefið í þessum leik.

Það eru miklir fjármunir sem hér er um að ræða. Greiðslur úr ríkissjóði eru 3 milljarðar vegna mjólkurframleiðslu, aðallega beingreiðslur. Þetta kemur fram í frv. til fjárlaga eða í fjárlögum sem voru afgreidd fyrir árið 1998. Fyrir sauðfjárframleiðslu eru þetta 2,3 milljarðar, samtals á 6. milljarð. Þetta eru að vísu lægri tölur en voru fyrir nokkrum árum en þetta er samt verulegt fé.

Ef útgjöld landbrn. eru skoðuð og rekstrarkostnaður ráðuneytisins er dreginn frá er þetta á 9. milljarð sem útgjöld eru á fjárlögum til landbrn. Langmest af því er tengt framleiðslu annaðhvort sauðfjárafurða eða mjólkur. Til samanburðar --- af því að þingmenn, ekki síst þeir sem áhuga hafa á landbúnaðarmálum, þekkja vel til samgöngumála --- þá eyðum við u.þ.b. 7 milljörðum á ári í samgöngumál. Hér erum við því að ræða miklar tölur.

Við sjáum að eitt aðalefnið í frv., fyrirkomulagið um greiðslumark, þ.e. ákvörðun um heildargreiðslumark er um 100 millj. lítra. Mér sýnist af frv. að dæma að viðskipti með greiðslumark hafi ekki orðið mjög mikil og ekki hafi nema að hluta til náðst fram sú hugsun sem menn vildu, að verslun með greiðslumark mundi leiða til hagkvæmni. Hún hefur gert það að nokkru leyti en ekki nægjanlega. Þannig er hægt að sjá að meðalbú hefur farið úr 70 þúsund lítrum í 80 þúsund lítra. Þetta er ekki mikil breyting á nokkuð mörgum árum. Við sjáum einnig að hér er samt lagt upp með, og það er e.t.v. eitt það alvarlegasta við frv., að takmarkanir og hömlur eru lagðar á verslun með greiðslumark. Í 14. gr. frv. er gert ráð fyrir að öll viðskipti með greiðslumark skuli fara um einn markað sem Framleiðsluráð landbúnaðarins eða annar aðili annast samkvæmt ákvörðun ráðherra. Þetta er nokkuð sérkennilegt, þó að allt þetta byggist að vísu á þeim samningi sem gerður var. Þetta er svipuð hugsun og menn þekkja í sambandi við sjávarútveginn þar sem nýverið hefur verið nokkur umræða um ákvörðun fiskverðs, kvótaþing og annað þess háttar. Þetta er svipuð hugsun, og ég spyr: Af hverju mega þessi viðskipti ekki fara fram eins og þau hafa gert? Hvaða vandkvæði eru við þau viðskipti sem kalla á að settur sé upp miðstýrður aðili sem á að sjá um þetta? Ég veit vitaskuld að viss rök eru færð fyrir því en þau eru ekki öll sannfærandi og ég er ekki alveg viss um að allir bændur kjósi þetta fyrirkomulag við verslun með greiðslumark.

Ef menn vilja hins vegar láta þetta fara um einn markað í stað þess að heimila frjáls viðskipti sem eru í gangi, þá er vitaskuld hægt að nýta sér þá markaði sem fyrir eru á þessu sviði. Það að láta viðskipti fara í gegnum markað er ekki ný hugmynd og síst af öllu í landbúnaði. Það eru starfræktir markaðir sem gætu hæglega yfirtekið þetta og eru miklu betur til þess fallnir en Framleiðsluráð landbúnaðarins eða annar aðili einfaldlega vegna þess að þetta er þegar til. Ég nefni t.d. Verðbréfaþing Íslands, sem hefur alla þá tækni- og tölvukunnáttu sem þarf til þessa. Ég nefni t.d. uppboðsmarkað landbúnaðarafurða, sem er starfræktur á Selfossi og tengdur mjög fullkomnu tölvuneti hringinn í kringum landið sem er fiskmarkaðsnetið. Þetta ættu menn vitaskuld að hugleiða ef menn vilja viðhafa þetta fyrirkomulag. Af hverju ekki að nýta sér þá tækni sem er til staðar í stað þess að byggja hana upp annars staðar.

Þetta eru atriði sem verður að skoða mjög vandlega í nefnd. En samt verður að vekja athygli á því að framleiðni í íslenskum landbúnaði er mjög ábótavant. Það er kannski eitt af því sem valdið hefur mestum vonbrigðum með núgildandi búvörusamning, þ.e. hve illa hefur tekist til með að auka framleiðni í greininni. Það er sömuleiðis áhyggjuefni að ekki hafi tekist að ná betri sátt milli landbúnaðarins og annarra í þjóðlífinu. Ég tel að nú sé einmitt ákveðið tækifæri til að ná betri sáttum í samskiptum sem tengjast þeirri umræðu sem hefur verið í gangi um þjóðlendur, um umhverfismál, þéttbýlið, dreifbýlið og samskipti, bæði á hálendi og annars staðar. Ég tel að bændur og landbrh. ættu að hafa forustu um að nýta einmitt þetta tækifæri. Þetta er nýtt svið, og hægt að koma þar fram sem sá sem tryggir sameiginlega aðkomu bæði þéttbýlis og dreifbýlis. En í stað þess hefur ríkisstjórnin kosið að spyrna við fótum og lifa í einangruðu kerfi fortíðarinnar hvað þennan þátt varðar. Ég lít hins vegar svo á, herra forseti, að þarna sé tækifæri sem menn hefðu vitaskuld átt að nýta.

Þegar ég nefni stuðning sem miðað er við erlendis, þá vil ég bara geta einnar tölu, að stuðningur Evrópusambandsins við landbúnað er 1% af landsframleiðslu. Hér er hann 2%. Hann er sem sagt tvöfalt meiri hér. Ef maður ber saman ýmsa aðra þætti í tengslum við landbúnað, þá sjáum við að okkar stefna er lakari en stefna Evrópusambandsins. Þetta eru því þættir sem menn ættu að líta betur til.

Vitaskuld er það svo að þegar eftirspurn breytist og minnkar, þá minnkar framboð og framleiðni lækkar og framleiðsla og tekjur á mann lækka nema störfum fækki. Þetta þekkjum við. Þetta hefur verið að gerast um áratuga skeið í íslenskum landbúnaði. Mikilvægast er vitaskuld að gera hann lífvænlegan fyrir þá sem eftir eru. Það er óhugguleg tilhugsun að fjórðungur býla muni fara í eyði þegar núverandi ábúandi hættir. Það sem vantar hjá okkur er að menn geti farið í nýja búskaparhætti eða hætt með meiri reisn og sjálfsvirðingu en nú er.

Ég er mjög á móti því, herra forseti, að fækkun starfa í landbúnaði skuli vera nær öll vegna aldurs. Þetta er það sem ég kalla stefnu mannsins með ljáinn. Mér finnst hún óviðfelldin. Ég vil gefa mönnum tækifæri á að fara í aðrar atvinnugreinar af styrkleika eða ef menn kjósa að draga sig út úr hefðbundnum landbúnaðarstörfum, að þeir geti gert það með sjálfsvirðingu og reisn. En til þess, herra forseti, að það sé hægt, þá þurfa menn að brjótast út úr þessu sérhæfða kerfi landbúnaðarins. Menn hafa læst sig inni í lokuðu hagkerfi, bæði í lánamálum, í sérlögum, og menn ætla nú eina ferðina enn að loka sig inni í sérkerfi í sambandi við menntamálin. Vitaskuld er þetta ekki góð aðferðafræði og þetta er það sem er kannski mest gagnrýnivert. Losa þarf um einangrun landbúnaðarins. Auðvitað eiga samkeppnislög að gilda í meginatriðum hvað viðskipti varðar eins og þau gilda um allan atvinnurekstur hér á landi nema um landbúnað. Hraða þarf þeirri þróun vegna þess að hún er til hagsbóta fyrir bændur og neytendur.

Við sáum hvernig það tækifæri sem GATT-samningurinn gaf okkur var misnotað. Þar var öllu skellt í lás með mjög háum tollum og ekki neinu hleypt inn, sem hefði verið möguleiki, og eflt hefði íslenskan landbúnað. Hæstv. landbrh. og ríkisstjórninin eru frosin inn í kerfi fortíðarinnar. Við höfum séð stjórnkerfið, nefndafargan, marga tugi nefnda sem kosta sitt. Við sjáum að ekki er stuðlað að stærri búum og hagkvæmni og við sjáum að öll þessi ríkisforsjá gagnvart landbúnaði heldur áfram. Við höfum ekki náð tökum á ofbeit og gróðurvernd. Við höfum ekki náð sátt milli þéttbýlis og dreifbýlis, og landbúnaðurinn hefur ekki náð sátt við þéttbýlið hvað þessa þætti varðar. Og það gengur ekki, herra forseti, að ósætti ríki í landinu hvað þetta varðar.

Herra forseti. Það er hægt að hafa fleiri orð um þennan samning. Ég tel að hann breyti ekki neinu í meginatriðum. Hann viðheldur áfram gölluðu kerfi. Það hefði verið hægt að stíga skref sem hefðu verið meira til framfara. Endurbætur í íslensku landbúnaðarkerfi eru einfaldlega allt of hægfara en það kemur í sjálfu sér ekki neinum á óvart því það hefur verið stefna þeirra tveggja flokka sem mynda núv. ríkisstjórn.