Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 17:28:07 (5124)

1998-03-24 17:28:07# 122. lþ. 93.16 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[17:28]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Undanfarin ár þessa áratugar hefur átt sér stað mikil hagræðing í íslenskum landbúnaði. Verð á landbúnaðarvöru hefur lækkað gríðarlega og má segja að það sé orðið sambærilegt við það sem er í nágrannalöndum okkar. Stuðningur okkar Íslendinga við landbúnað er líka orðinn sambærilegur við aðrar þjóðir og engin þjóð hefur minnkað opinberan stuðning við landbúnað jafnmikið og við höfum gert á þessum áratug hér á landi.

Ég get þess einnig að ákvæðum GATT-samningsins er beitt hér á landi með sama hætti og þeim er beitt meðal annarra þjóða. En það er fagnaðarefni, herra forseti, að þegar drög að mjólkurhluta búvörusamnings komu fram var stefnan tekin á að semja til langs tíma. Samningurinn var gerður í desember 1997. Hann á að gilda til ársloka 2005. Til svo langs tíma hefur ekki verið samið fyrr. Verður því ekki annað sagt en að samningurinn tryggi starfsfrið og öryggi í greininni. Bændur ættu því að geta horft fram á nokkuð eðlilegt rekstrarumhverfi og aukið hagkvæmni og hagræðingu í framleiðslu sinni. Því er ég ánægður með meginatriði þessa samnings og þar með lagafrv. sem hér er lagt fram af hæstv. landbrh. og ríkisstjórninni til staðfestingar á samningnum, og hæstv. landbrh. hefur gert hér grein fyrir.

Í 14. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Öll viðskipti með greiðslumark skulu fara um einn markað sem Framleiðsluráð landbúnaðarins eða annar aðili annast samkvæmt ákvörðun ráðherra.

Aðilaskipti með greiðslumark taka ekki gildi fyrr en staðfesting Framleiðsluráðs landbúnaðarins liggur fyrir.``

[17:30]

Það er þetta atriði, herra forseti, sem ég hef efasemdir um og fyrirvara. Það er ákvæði samningsins um að öll viðskipti með greiðslumark í mjólk skuli fara um einn markað. Starfsreglur þessa kvótamarkaðar skulu settar af landbrh. með reglugerð og fá umsagnir og staðfestingu Framleiðsluráðs. Þetta ákvæði orkar að mínum dómi tvímælis og ég hygg það vera slæman galla á annars skýrum og greinargóðum búvörusamningi. Mér er ekki alveg ljóst hvernig það gat ratað inn í samninginn því að það felur í sér að frjáls viðskipti með greiðslumark verði afnumin. Einn tilboðsmarkaður lokar á bein tengsl milli kaupenda og seljenda greiðslumarks og lokar þar með einnig á flutning á greiðslumarki beint milli ættliða, t.d. þegar yngri kynslóð á bæ flytur sig annað og eldri kynslóðin, væntanlega foreldrar unga bóndans, vilja afhenda honum hluta af greiðslumarkinu eða það allt á því verði sem þau koma sér sjálf saman um. Einu sjáanlegu breytingarnar sem ákvæðið um einn tilboðsmarkað felur í sér eru þessar: Að loka á bein samskipti og viðskipti kaupenda og seljenda greiðslumarks. Einn kvótamarkaður kemur ekki í veg fyrir að búnaðarsambönd og kaupfélög og mjólkursamlög, jafnvel sveitarfélög, og vafalaust fleiri geti haft sömu áhrif og áður á kvótaverðið. En í dag virkar þetta kerfi ágætlega, herra forseti. Það verður meiri og meiri hagræðing en með þessu ákvæði um einn tilboðsmarkað fæ ég ekki annað séð en stefnt sé í gagnstæða átt. Vissulega er rétt að aðalfundur Landssambands kúabænda samþykkti tilboðsmarkaðinn en þess þarf þó að geta að það var gert með naumum meiri hluta og langt er í frá að eining eða sátt ríki hjá kúabændum um þessi ákvæði. Kúabændur samþykktu svo í almennri atkvæðagreiðslu þennan samning fyrir sitt leyti. En hvers vegna gerðu þeir það? Vegna þess að þeir höfðu ekki aðra valkosti. Annaðhvort var að samþykkja samninginn allan, sem ég árétta að er ágætur og hinn prýðilegasti gerningur, eða þá að hafna honum öllum. Miðað við það hversu margir kúabændur hafa lýst áhyggjum sínum af lögfestingu tilboðsmarkaðarins tel ég að hv. landbn. þurfi að skoða þetta rækilega í meðferð málsins í nefndinni.

Ég tel líka að allmargir mjólkurframleiðendur vænti þess af hinu háa Alþingi að það geri skynsamlega breytingu á samningnum að þessu leyti. Það væri einnig mikilvægt þegar á þessu stigi, herra forseti, við 1. umr. um frv. að hæstv. landbrh. skýrði betur hvernig tilboðsmarkaðurinn er hugsaður. Hvernig á hann að vera, hversu oft á að bjóða kvóta upp, hversu oft að ákvarða eða gefa út verð? Ýmsir aðilar gætu séð um að taka við slíkum upplýsingum um kvóta. Frjáls viðskipti þurfa að eiga sér stað áfram því að þau hafa ásamt öðru haft mikið að segja fyrir hagræðingu í þessari grein landbúnaðar á Íslandi.