Búfjárhald

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 19:08:26 (5136)

1998-03-24 19:08:26# 122. lþ. 93.18 fundur 415. mál: #A búfjárhald# (varsla stórgripa) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[19:08]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð í tengslum við umræður um þetta frv. og það mál sem hér er til umfjöllunar og byrja á því að taka heils hugar undir það með flm. frv. að það sé nauðsynlegt að taka skipulega á þeim málum sem hér er verið að fjalla um með tilliti til þeirra alvarlegu slysa og umferðaróhappa sem hafa orðið og tengjast lausagöngu búfjár eins og hv. framsögumaður gerði grein fyrir. Ég tek einnig eindregið undir þau viðhorf sem hann gerði rækilega grein fyrir að hér er fyrst og fremst verið að tala um stórgripi og hættuna sem af lausagöngu þeirra stafar, nautgripa og hrossa, fremur en sauðfjár, enda um miklu stærra mál að ræða og viðameira ef ætti einnig að fjalla um sauðféð. Ég velti því þó fyrir mér hvort ekki þurfi að skoða málin í víðara samhengi heldur en frv. gerir ráð fyrir. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég sé ekki, eins og ég sagði áðan, fyllilega sammála þeim anda sem í frv. felst að á þessum málum þurfi að taka.

Það er einnig rétt sem fram kom hjá hv. framsögumanni frv. að búnaðarþing sem fjallaði um þetta mál --- ég er með fyrir framan mig umsögn búnaðarþingsins um þetta þingmál --- tekur einnig undir þá meginskoðun að að taka þurfi á lausagöngu stórgripa en bendir m.a. á vegalögin og mér finnst framkvæmd vegalaganna vera eitt af því sem þarf að skoða. Það er 56. gr. vegalaganna sem kveður á um að lausaganga búfjár sé bönnuð á vegsvæðum stofnvega og tengivega þar sem girt er beggja megin. En ágreiningur hefur verið á milli landeigenda og Vegagerðarinnar um framkvæmd þessara mála, m.a. um það hver skuli bera kostnað af uppsetningu girðinganna og viðhaldi þeirra. Framkvæmdin verður að vera sú sem lögin gera ráð fyrir.

Tryggingamálin þarf einnig að skoða eins og hv. þm. gerði grein fyrir í sinni framsögu og ég ætla ekki að orðlengja um það frekar.

Mér virðist ljóst að þessi atriði, sem hér er m.a. fjallað um, heyri undir fleiri en eitt ráðuneyti, þ.e. auk landbrn. a.m.k. einnig samgrn. vegna vegalaganna og svo má sjálfsagt líka segja dómsmrn. þar sem hér er það spurning um samstarf við lögregluyfirvöld hvernig taka skuli á málum. Ég hef fullan hug á því að beita mér fyrir því að fulltrúar þessara þriggja ráðuneyta fjalli um málið og þá hugsanlega hvaða lagabreytingar þurfi að gera frekar til þess að geta fylgt þessu eftir. Einnig má benda á þá skyldu eða ábyrgð sveitarstjórna í þessu sambandi sem hv. framsögumaður gerði einnig grein fyrir.

Mig langar svo, hæstv. forseti, aðeins í lokin að ítreka það sem kom reyndar fram í umræðum um 15. dagskrármál þessa fundar þar sem fjallað var einnig um breytingu á lögum um búfjárhald, að ég hef ákveðið að láta fram fara heildarendurskoðun á þeim lögum og þá hljóta þessi ákvæði, ákvæði um lausagöngu búfjár einnig, að koma þar til skoðunar.

Þetta segi ég allt saman til þess að lýsa fyrst og fremst stuðningi mínum við efni frv. og velta því upp hvort ekki þurfi að skoða fleiri þætti og hvort fleiri aðilar þurfi að koma að því heldur en hér er gert ráð fyrir. Ég vil að sjálfsögðu alls ekki draga úr því að landbn. skoði þetta mál ítarlega og ef mönnum finnst að með því sem hér er lagt til með þessu frv. sé hægt að gera bót á án þess að fleira komi til þá verður það þingsins og löggjafans í heild að taka um það endanlega ákvörðun. Ég minni á það einnig að heildarendurskoðun á þessum lögum er að fara af stað og þar hlýtur að verða tekið m.a. á þessum þætti verði það ekki gert á fullnægjandi hátt á þessu þingi