Afbrigði

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 14:10:55 (5143)

1998-03-25 14:10:55# 122. lþ. 94.93 fundur 282#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), ÁE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[14:10]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hér kemur til atkvæða tillaga um að veitt verði afbrigði við málsmeðferð á frv. um kjaramál sjómanna. Þetta tengist atkvæðagreiðslu um afbrigði fyrir þremur öðrum þingmálum kenndum við þríhöfðanefnd ríkisstjórnarinnar. Þingflokkur jafnaðarmanna styður að þríhöfðamálin komi hér nú þegar til umræðu. En við styðjum ekki að frv. um kjaramál verði veitt afbrigði. Það frv. felur í sér lögfestingu á kjarasamningi og bann við verkföllum. Þingflokkur jafnaðarmanna er andvígur fjölmörgum ákvæðum þess frv. Frv. sjálft er mjög gagnrýnisvert.

Yfirlýsing hæstv. sjútvrh. Þorsteins Pálssonar er til bóta en 2. gr. frv. er forkastanlegt og alvarlegt inngrip í kjaramál viðsemjenda. Í ljósi þess að þessi fjögur mál koma saman að miklu leyti til umræðu greiðum við því ekki atkvæði að frv. um kjaramál fái flýtimeðferð en munum styðja að hin þingmálin þrjú komi til umræðu.