Afbrigði

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 14:12:22 (5144)

1998-03-25 14:12:22# 122. lþ. 94.93 fundur 282#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[14:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við kjósum að greiða ekki atkvæði með því að þetta frv. um lög á kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna verði tekið fyrir með afbrigðum. Með því mótmælum við þeirri lagasetningargleði sem hæstv. ríkisstjórn hefur endurtekið orðið uppvís að. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem hæstv. ríkisstjórn leggur fram frv. til að taka samningsréttinn af mönnum og binda enda á lögmætar aðgerðir í kjaradeilu með lagasetningu á Alþingi.

Eins er ljóst að í þessu frv. eru mjög umdeild atriði sem mikil andstaða er við. Frv., eins og það er lagt fram, boðar í 2. gr. íhlutun í tugi kjarasamninga hvað varðar ákvæði um fjölda í áhöfn og skiptahlut, þó að hæstv. sjútvrh. hafi að vísu hér áðan boðað breytingar sem eru til bóta á þessu atriði. Eftir stendur að til stendur að afnema samningsrétt og verkfallsrétt sjómanna í tvö ár. Með vísan til þessa greiðum við ekki atkvæði.