Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 14:59:44 (5162)

1998-03-25 14:59:44# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, SighB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[14:59]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er alkunna að staðið hafa mjög hörð átök milli sjómanna og útvegsmanna í bráðum á fimmta ár. Átökin eru ekki hefðbundin kjaramálaátök á milli viðsemjenda í vinnudeilu heldur eru þetta átök sem má að verulegu leyti rekja til þess lagaumhverfis sem Alþingi hefur búið sjómönnum og útgerðarmönnum, þ.e. þar sem útgerðarmenn geta stundað viðskipti bæði með aflakvóta og með fisk við sjálfa sig að verulegu leyti á kostnað sjómanna þó að það sé bannað bæði í kjarasamningum og í lögum.

[15:00]

Þessi átök hafa því ekki verið hefðbundin átök um kaup og kjör heldur í raun réttri átök um lagaumhverfið sem sjómannastéttin býr við. Krafa sjómannastéttarinnar hefur ekki síður beinst að Alþingi og þeim lögum sem Alþingi hefur sett en að viðsemjendum sínum, útgerðarmönnum. Og vegna þess að Alþingi hefur ekki brugðist við með þeim hætti að sjómönnum séu tryggð umsamin kjör þá hefur sjómönnum ekki tekist í fimm ár að fá kjarasamningum framfylgt á eðlilegan hátt eins og allar aðrar starfsstéttir í landinu hafa gert.

Kjarasasmningar sjómanna hafa nú verið lausir í á fjór\-tánda mánuð. Eins og hér hefur komið fram hafa áður verið gerðar tilraunir til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að hrinda möguleikum sjómanna til að ná fram eðlilegum kjarasamningum við útgerðarmenn með lagasetningu frá Alþingi. Það var gert síðast þann 9. febrúar sl. þegar hæstv. sjútvrh. lagði fram á Alþingi frv. sem til þess var gert að banna verkfall sjómanna aðeins örfáum dögum eftir að það verkfall hafði skollið á. Það kom fram hjá hæstv. forsrh. að ríkisstjórnin ætlaðist til þess að það frv. yrði keyrt í gegnum Alþingi á tveimur dögum og yrði þá að lögum aðeins tveimur dögum eftir að það yrði kynnt á Alþingi, og gæti þannig hnekkt verkfalli sjómanna sem hefði staðið í nokkra daga.

Stjórnarandstaðan kom í veg fyrir að þær ráðagerðir næðu fram að ganga og gaf mönnum þannig ráðrúm til að bregðast við fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar, sem sjómennirnir gerðu með því að fresta verkfalli sínu eins og kunnugt er gegn því að ríkisstjórnin féllist á að skipa nefnd sem fengi það hlutverk fyrst og fremst að koma í veg fyrir að viðskipti með sjávarafla milli tengdra aðila og viðskipti með aflaheimildir hafi áhrif á skiptakjör sjómanna. Með öðrum orðum með því að hnekkja fljótræðislegri ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar þann 9. febrúar sl. um að banna verkfall sjómanna með lögum, þá tókst að skapa svigrúm til þess með frumkvæði sjómanna sjálfra, að hægt væri að takast á við það lagaumhverfi sem verið hefur vandamálið í samskiptum aðila, sjómanna og útvegsmanna, í bráðum fimm ár.

Sú niðurstaða fékkst að ráðuneytisstjóranefnd, sem hæstv. sjútvrh. skipaði, skilaði af sér þremur frumvörpum þann 4. mars sl., þ.e. þeim frumvörpum sem hér er verið að ræða, frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, frv. til laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, og frv. til laga um Kvótaþing.

Sjómenn tóku þeim tillögum mjög vel þegar þær lágu fyrir. Ríkisstjórnin fékk því einstakt tækifæri til að greiða fyrir lausn í þessari löngu deilu sjómanna og útvegsmanna með því að leggja frumvörpin fram á þinginu þannig að eftir stæði aðeins í deilum aðila hefðbundin deila um kjarasamninga milli launaþega og atvinnuveitenda en að önnur mál sem voru erfiðust og hafa verið erfiðust í deilunni væru leyst með lagabreytingu frá Alþingi, þ.e. það lagaumhverfi sem útvegsmenn og sjómenn búa við í sínum samskiptum.

Ríkisstjórnin fékk þannig einstakt tækifæri til að setja kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna á allt annað stig en hún hefur verið sl. fimm ár, á stig hefðbundinna kjaraátaka og kjaradeilna milli launþega og atvinnuveitenda sem auðvitað mundu leysast eins og allar slíkar hefðbundnar kjaradeilur hafa leyst hjá öðrum stéttum í frjálsum samningum.

Ríkisstjórnin notaði hins vegar ekki þetta tækifæri sem hún hafði til að koma deilu sjómanna og útvegsmanna á allt annað og auðveldara stig. En þegar hæstv. ríkisstjórn frétti af jákvæðum viðbrögðum sjómanna við niðurstöðum ráðherranefndarinnar, þá tilkynnti hún til baka að það væri skilyrði fyrir framlagningu frumvarpanna að sjómenn féllu frá að gera nýjan kjarasamning við vinnuveitendur sína og aflýstu verkfallinu. Það var með öðrum orðum skilyrði af hálfu ríkisstjórnarinnar til að leggja fram frumvörp, sem hún sjálf sagði þó í hinu orðinu, að væru lykill að lausn kjaradeilunnar, það var skilyrði hennar fyrir að leggja slík frumvörp fram að sjómenn hyrfu frá kjarasamningaborðinu án kjarasamnings, afléttu verkfalli og létu niður falla allar hefðbundnar kjarakröfur sínar, þar á meðal kröfu um að sjómenn fengju sambærilega hækkun á kauptryggingu sinni og verkafólk í landi hefur fengið á föstum launum sínum. Það var með öðrum orðum krafa hæstv. ríkisstjórnar að sjómenn féllu frá sanngjarnri lausn í sambandi við kauptryggingarmál sín, ef menn bera þau mál saman við aðrar stéttir, að þeir féllu frá því öllu saman til þess eins að fá fram á Alþingi frumvörp sem allir aðilar málsins, þar á meðal ríkisstjórnin sjálf lýsti þó yfir að væri lausn kjaradeilunnar. Og ég spyr: Skyldi slík og þvílík krafa nokkurn tíma hafa verið sett fram við aðra stétt í átökum um kaup og kjör? Að til þess að fá fram á Alþingi lagabreytingar, sem tryggðu það að hægt væri að framkvæma gerða kjarasamninga og hægt væri að standa við landslög, að þá féllist viðkomandi stétt launamanna á að afsala sér sanngjörnum kauphækkunum sem allar aðrar stéttir í samfélaginu höfðu fengið. Skyldi ríkisstjórn nokkurn tíma hafa sett fram slíka kröfu við aðila í kjarasamningum? Ekki minnist ég þess.

En það var ekki bara svo að hæstv. ríkisstjórn setti þessi skilyrði fram við sjómenn, að þeir aflýstu verkfalli og afsöluðu sér öllum kjarabótum sem þeir hefðu þó líkur á að ná samningum um við útvegsmenn, eins og t.d. hækkun á kauptryggingu, dánarbætur, slysabætur o.fl., heldur kom fram hjá hæstv. utanrrh. í viðtali við Morgunblaðið, að sjútvrh. hefði gefið útgerðarmönnum sambærileg loforð, þ.e. loforð um að leggja ekki umrædd frumvörp fram nema sjómenn aflýstu verkfalli sínu eða komið yrði í veg fyrir að samningar næðust. Þannig að þegar útgerðarmenn gengu til atkvæða um málamiðlunartillögu sáttasemjara þar sem þessi þrjú frumvörp voru forsenda fyrir lausn málsins, þá vissu þeir að með því að fella þá málamiðlunartillögu gætu þeir komið í veg fyrir að frumvörpin þrjú kæmu inn á Alþingi.

Og það skyldi nú ekki hafa verið skýringin á því að útgerðarmenn felldu málamiðlunartillögu ríkissáttasemjara? Vitna ég í því sambandi til viðtals við formann LÍÚ, Kristján Ragnarsson, sem kom í blaðinu Degi um síðustu helgi, þar sem hann lýsti því beinlínis yfir og var ekkert að draga fjöður yfir það, að ástæðan fyrir því að útgerðarmenn felldu málamiðlunartillögu ríkissáttasemjara hafi verið sú að þeir vildu stöðva að frumvörpin kæmu inn í þingið. Hæstv. sjútvrh. gerði það ekki endasleppt við deiluaðila þegar hann tilkynnti öðrum aðilanum, sjómönnum, að því aðeins mundi hann leggja þessi frumvörp fram á Alþingi, að þeir afboðuðu verkfall og afsöluðu sér öllum kauphækkunum og kjarabótum sem þeir hefðu getað fengið í frjálsum samningum og voru m.a. í málamiðlunartillögu ríkissáttasemjara, tilkynnti svo útvegsmönnum líka, viðsemjendum þeirra, að þeir hefðu neitunarvald í sínum höndum um framlagningu frv. á Alþingi.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan í spurningum til hæstv. sjútvrh., að það hlýtur að vekja athygli manna að hvorki í athugasemdum við frv. til laga um kjaramál fiskimanna né í fylgiskjölum kemur fram það meginatriði í tillögum sáttasemjara, sem ég vitnaði til áðan og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Forsenda eftirfarandi miðlunartillögu er að eftirtalin frumvarpsdrög í áliti nefndar til að fjalla um atriði tengd kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna frá mars 1998 verði að lögum á löggjafarþinginu 1997--1998:

1. Drög að frv. til laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

2. Drög að frv. til laga um Kvótaþing.

3. Drög að frv. til laga um breyting á lögum nr. 38, 15. maí, 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Verði tillagan samþykkt er kominn á gildandi kjarasamningur til þess tíma sem um getur í tillögunni. Verði frumvörpin ekki að lögum á yfirstandandi þingi fellur kjarasamningur aðila sjálfkrafa úr gildi án uppsagnar.``

Í tillögu ríkissáttasemjara voru sem sé tekin af öll tvímæli um að forsenda fyrir flutningi þeirrar miðlunartillögu var að frumvörpin þrjú yrðu samþykkt sem lög frá Alþingi á yfirstandandi þingi eins og frá þeim var og er gengið af hálfu nefndar ráðuneytisstjóranna. Og yrði misbrestur á því væru samningar aftur lausir, með öðrum orðum, þá væri miðlunartillagan ekki lengur í gildi.

Það er athyglisvert að þessarar forsendu í tillögu ríkissáttasemjara er hvergi getið í frv. til laga um kjaramál fiskimanna. Það er útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra að halda þannig á málum að ég sé að ætlast til að þessi inngangsorð, forsenda miðlunartillögunnar séu lögbundin. Ég var ekki að vekja athygli á því. Ég var að vekja athygli á því að þessi kafli er felldur niður og ekkert um hann getið í athugasemdum lagafrv. eða fylgiskjölum með lagafrv., en hvorki athugasemdirnar né fylgiskjölin hafa lagagildi því þau eru ekki borin undir atkvæði heldur hafa þau einungis það gildi að lýsa vilja sjútvrh. um afgreiðslu málsins.

[15:15]

Verði frv. til laga um kjaramál fiskimanna samþykkt á Alþingi og verkfall sjómanna bannað til 15. febrúar árið 2000 en frumvörpin þrjú hins vegar ekki afgreidd eða afgreidd allt öðruvísi en þau eru lögð fram, þá mun sú afgreiðsla, eða það afgreiðsluleysi, engin áhrif hafa á þá lausn í kjaramálum fiskimanna sem frv. ráðherra gerir ráð fyrir þar sem málamiðlunartillaga ríkissáttasemjara er lögfest með nokkrum viðbótum og verkfall og aðgerðir bannaðar til 15. febrúar árið 2000.

Ég fékk ekki skýr svör frá hæstv. ráðherra við spurningu minni sem er þessi: Geta sjómenn ekki treyst því að ráðherra líti svo á að afgreiðsla frv. þriggja eins og þau eru lögð fram af honum og kynnt hér í dag séu forsenda fyrir því að frv. til laga um kjaramál fiskimanna verði afgreitt? Með öðrum orðum: Er hægt að treysta því að frv. um kjaramál fiskimanna verði ekki afgreitt á Alþingi nema hin þrjú frv. fylgi með? Geta sjómenn treyst því? Já eða nei. Eða eru skilaboð sjútvrh. til sjútvn. þessi: Takið þið nú, góðir nefndarmenn, þessi frumvörp til skoðunar og gerið á þeim þær breytingar sem þið teljið æskilegar og eðlilegar. Það tengist ekki afgreiðslu frv. til laga um kjaramál fiskimanna og ekkert skilyrði fyrir afgreiðslu þess að frv. þrjú séu afgreidd eins og hæstv. sjútvrh. hefur lagt þau fram.

Þetta er ekki flókin spurning. Hún er mjög einföld. Ég hlýt að geta fengið einfalt svar við henni og ég kalla eftir því í þriðja sinn. Geta sjómenn treyst því að ætlun og vilji sjútvrh. sé að fylgifrumvörpin þrjú verði afgreidd eins og þau eru lögð fram?

Herra forseti. Það eru ýmis efnisatriði sem sjálfsagt er að ræða í frv. um kjaramál fiskimanna. Vissulega eru í miðlunartillögunni sem lagt er til að binda í lög, ýmsir þættir sem varða sjómenn miklu. Að sjálfsögðu er eðlilegt að sjómenn vilji fá hækkun einstakra kaupliða svo sem tryggingarinnar, tímakaups og hlífðarklæðapeninga til jafns við þær hækkanir sem almennt hafa orðið á launum landverkafólks. Í miðlunartillögu ríkissáttasemjara er ákvæði um það. Gert er ráð fyrir að lögfesta þetta og það er vel.

Það er líka eðlilegt að sjómenn fái þá hækkun á eingreiðslu dánarbóta og örorkubótaþætti slysatryggingar sjómanna samkvæmt siglingalögum sem gert var ráð fyrir í málamiðlunartillögu ríkissáttasemjara og gert er ráð fyrir að lögfesta í þessu frv. Svo er um fleira sem var í miðlunartillögu ríkissáttasemjara þó þetta séu tiltölulega smávægileg atriði og vegi ekki nema að hluta upp á móti almennum kjarabótum og kauphækkunum sem orðið hafa í landi.

Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Af hverju velur hann sérstaklega þau tvö atriði sem koma fram í 2. gr., þ.e. í síðari málsgreininni, að ferðir til veiða utan efnahagslögsögu Íslands úr stofnum sem ekki eru íslenskir deilistofnar skuli vera sérstakt kauptryggingartímabil, og í ákvæðinu í 1. mgr., sem raunar á að breyta, um skiptakjaraákvæði kjarasamninga varðandi fækkun í áhöfn?

Nú er mér og flestum þingmönnum kunnugt um að í kjarasamningaviðræðum við útgerðarmenn lögðu samninganefndir sjómanna fram fjöldann allan af tillögum og óskum um breytingar á gildandi kjarasamningum milli þessara aðila. Hvernig stendur á því að hæstv. sjútvrh. velur ákvæðið í 2. mgr. 2. gr. umfram eitthvað annað? Hvaða rök eru fyrir því að hæstv. ráðherra valdi akkúrat þetta atriði úr tillögum og kröfugerðum sjómanna til að lögfesta en ekki önnur atriði sem þar komu fram og voru ekki síður mikilsverð í augum sjómanna? Hafði hæstv. ráðherra samráð, t.d. við forustumenn sjómanna, um hverjar af kröfum þeirra, óskum og beiðnum hæstv. ráðherra ætti að velja til lögfestingar? Tíndi hann þetta kannski bara upp með bundið fyrir augun? Dró hann upp úr hatti? Hver eru rökin fyrir því að þegar hæstv. ráðherra velur atriði til að lögfesta til viðbótar við miðlunartillögu sáttasemjara, þá velji hann endilega þessi tvö?

Hver er ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að þegar hæstv. ráðherra velur úr hugmyndum útvegsmanna, þá velur hann þá aðferð sem er í 1. mgr. 2. gr.? Sú aðferð gengur út á að rústa öllum kjarasamningum sjómanna á mismunandi veiðum, nema á línuveiðum. Hann velur ákvæði sem útgerðarmenn höfðu aldrei rætt við sjómenn um og rústar svo að segja öllum kjarasamningum sjómanna. Síðan kemur hann núna, tæpum sólarhring eftir að frv. er lagt fram, og segir: Því miður, þetta eru mistök, ég ætlaði að gera allt annað en ég gerði. Ég ætlaði ekki að rústa öllum kjarasamningum sjómanna. Ég ætlaði bara að þetta ákvæði ætti við um úthafsrækjuveiðarnar.

Hvers konar flumbrugangur er þetta? Skipti hæstv. ráðherra um skoðun á þessum tæpa sólarhring eða komst hann að raun að sú aðferð sem hann valdi hefði allt aðrar afleiðingar og verri en hann hafði áður ætlað? Hvers vegna valdi hæstv. ráðherra þá þessa aðferð? Hefði hann fengið vilja sínum framgengt þá væri 1. umr. um málið nú þegar lokið. Hún hefði farið fram í gær. Menn væru nú að ræða 2. gr. eins og hún kom upprunalega frá honum án þess að honum hefði gefist færi á að leiðrétta hana, eftir að sjómenn gerðu honum grein fyrir því hvað þessi ákvæði þýddu. Hæstv. ráðherra þarf því að gera nokkra grein fyrir þeim viðbótum sem hann hefur valið við miðlunartillögu sáttasemjara til að lögfesta.

Herra forseti. Það er vissulega spurning hvort það sé líklegt að sjómenn á Íslandi fái nokkurn tíma að gera kjarasamning við sína viðsemjendur. Eftir að ríkisvaldið hefur ítrekað gripið inn í deilur þeirra með lagasetningu, er þá nokkuð annað líklegt en að útgerðarmenn geri bókstaflega út á það í framtíðinni að ef samningar nást ekki og verkfall stendur í einn eða í hæsta lagi tíu daga, þá komi ríkisstjórnin, höggvi á hnútinn og banni sjómönnum að grípa til aðgerða í kjaramálum í eitt, tvö eða þrjú ár? Þetta hefur gengið svona meira og minna í á fimmta ár og ekkert óeðlilegt að viðsemjendur sjómanna gangi út frá því að þetta sé orðin regla. Hvernig eiga viðsemjendur útvegsmanna, sjómenn, að ná fram eðlilegum kjarasamningum við þær aðstæður? Munu þeir nokkru sinni gera það eftir þetta?

Þau afskipti sem hér eru ganga t.d. ekki út á að skipaður sé gerðardómur sem falið sé að taka til skoðunar öll atriði sem komið hafa upp á borðið í samningaviðræðum sjómanna og útgerðarmanna og reynt að meta þau hvert fyrir sig í gerðardómi til nýrra samninga. Þannig er ekki haldið á málum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin ákveður sjálf hvernig kjarasamningarnir skuli vera . Hún ákveður sjálf og ætlar að fá Alþingi til að lögfesta að tillögu sinni hvað tekið skuli til greina í kröfugerð sjómanna og hvað ekki, hversu lengi kjarasamningarnir skuli standa og hvað sjómenn megi gera á þeim tíma. Þeir mega náðarsamlegast semja um eitthvað annað en þeir mega ekki beita sinni félagslegu aðstöðu til að ná fram slíkum samningum.

Hvað halda menn, hæstv. forseti, að það gagnist sjómönnum að eiga samkvæmt ábendingum ríkisstjórnarinnar í næstu tvö ár, til 15. febrúar árið 2000, að sitja að samningaborði við útgerðarmenn, frjálsir að því að semja við útgerðarmenn um breytingu á kjarasamningi en mega ekkert gera til þess að fá slíkar breytingar fram? Þeir eiga að vera háðir velvilja útgerðarmanna í þessi tvö ár, eiga að sitja uppi hjá sáttasemjara næstu tvö árin og ræða við útgerðarmenn. Þeir eru frjálsir að því að gera nýjan samning við þá en mega ekkert gera til þess að beita valdi samtaka sinna til þess að ná slíkum samningum fram.

Auðvitað hlýtur þetta mál að bera á góma ILO. Auðvitað hlýtur ILO að fjalla um þetta og ég trúi ekki að sú stofnun staðfesti þessa niðurstöðu hæstv. ríkisstjórnar. Það mun auðvitað koma á daginn hvort svo verður eða ekki.

Um hin þrjú frv. sem fylgja frv. til laga um kjaramál fiskimanna ætla ég ekki að segja mjög mikið á þessu stigi málsins, enda eiga þau eftir að fara í umfjöllun sjútvn. Ég ítreka þó spurningu mína til hæstv. ráðherra og hef nú spurt þrisvar sinnum. Auðvitað eru bæði kostir og gallar við þessi frv. Kostur við frv. til laga um Kvótaþing er að viðskiptin verða gegnsæ og ljós. Með þeim liggur fyrir hver viðskipti með aflaheimildir eru og á hvaða verði. Ókosturinn er að sjálfsögðu sá að þarna er um að ræða aðeins einn markað sem hefur einokun á öllum viðskiptum og hætt er við því að niðurstaðan verði sú að aflaheimildirnar safnist á æ færri hendur.

Ýmsir kostir eru líka við frv. til laga um Verðlagsstofu skiptaverðs. Ókostirnir eru að sjálfsögðu þeir að þarna er um mjög aukna miðstýringu að ræða. Það er athyglisvert að hvort tveggja þessara frv., frv. til laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og frv. til laga um Kvótaþing, hefðu verið óþörf ef ríkisstjórnin hefði tekið jákvætt í aðaltillögur sjómanna gengu út á að allur afli færi á markað. Ef niðurstaðan hefði verið í samræmi við aðalkröfu sjómanna sem talað hefur verið fyrir hér á Alþingi af þingmönnum jafnaðarmanna, þá einföldu lausn að setja allan afla á markað, þá hefðu hin flókna miðstýring í frv. til laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og hin óvissa ráðstöfun, sem er í frv. til laga um Kvótaþing, verið óþarfar. Í frv. til laga um Kvótaþing er óvissan um það hvort aflaheimildir komi til með að safnast á enn færri hendur en nú er með tilkomu þeirra laga. Hin einfalda tillaga, allur afli á markað, hefði leyst málið fljótar og betur en þessi tvö frv. geta gert.

Hæstv. ríkisstjórn hefur valið nokkuð flóknari leið. Það er sjálfsagt að skoða hana, enda sé tryggt að hún tryggi sjómönnum það að þeir njóti þeirra skiptakjara sem þeir hafa samið. Þeir eiga ekki að þurfa að horfast í augu við að vera hlunnfarnir af viðsemjendum sínum, þvert gegn ákvæðum kjarasamninga og landslaga.