Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 15:31:02 (5163)

1998-03-25 15:31:02# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[15:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér eru til umfjöllunar ekki minna en fjögur frv. Fyrst frv. til laga um kjaramál fiskimanna og síðan þrjú frv. sem kennd hafa verið við þríhöfðanefnd sem dregur sjálfsagt nafn sitt af því að fyrr á öldinni starfaði svonefnd tvíhöfðanefnd og hlaut nafn af því að ekki tókst að sameinast um hver skyldi verða formaður hennar, þannig að þeir voru hafðir tveir. Kannski hefur það verið eins í þríhöfðanefndinni, á henni hafi verið þrjú höfuð. Það er eins og kunnugt er í fornsögunum ljótustu þursar sem lýst er í þeim bókmenntum. Það voru þeir sem höfðu hvorki meira né minna en þrjú höfuð. Það þótti ekki gæfulegt þá hvað sem segja má um nútímann.

Ég ætla aðallega að halda mig við það frv. sem lýtur að því að setja lög á sjálfa kjaradeiluna, þ.e. þetta frv. sem hefur hlotið það frumlega nafn: ,,Um kjaramál fiskimanna``. En fyrst, herra forseti, er óhjákvæmilegt að fara nokkrum orðum um aðdraganda og aðstæður í þessari deilu og rifja aðeins upp vissa hluti.

Staðreyndin er sú að þetta hefur verið meira og minna ein hrakfallasaga allt frá því að lögum um stjórn fiskveiða var breytt á árinu 1990, framsalsreglum á veiðiheimildum var breytt og til sögunnar kom flutningur á svonefndu aflamarki milli skipa, sem manna á meðal gengur undir nafninu kvótaleiga. Á það var bent þá þegar og oft í framhaldinu að til árekstrar hlyti að koma milli þessa fyrirkomulags, framsals á veiðiréttinum annars vegar og hlutaskiptakjara sjómanna hins vegar. Sagan sýnir heldur betur svo ekki verður um villst að þetta kom á daginn. Þær deilur sem sérstaklega eru nú til umfjöllunar eru í rauninni þriðju átökin sem sjómenn fara í út af sömu undirliggjandi deiluatriðunum, þ.e. að í ársbyrjun 1994 stóðu hörð átök og sömuleiðis vorið 1995.

Lyktir þeirra deilna og tilraunir til að ná utan um þetta vandamál sem tengist framsali veiðiréttarins og meintri eða þvingaðri þátttöku sjómanna í kostnaði vegna leigu veiðiheimildanna gegnum fiskverð, þær deilur standa enn. Tilraunir til að setja þau deilumál niður hafa ekki tekist. Menn geta sagt ýmislegt um það mál og kennt hver öðrum um en staðreyndirnar tala sínu máli, deilurnar og óánægjan eru meiri nú en kannski nokkru sinni fyrr.

Hér hefur staðið, herra forseti, þriðja verkfallið á fjórum árum þar sem undirrót deilunnar er í rauninni sú sama. Inn í þetta blandast einnig vandamál sem reyndar hefur verið uppi allt frá því fiskverð var gefið frjálst, eins og sagt er svo fallega, og varðar verðlagningu á afla þegar menn eru í viðskiptum við sjálfa sig, ef svo má að orði komast, þegar menn landa eigin afla til vinnslu og verðleggja þarf aflann vegna uppgjörs við sjómenn. Þá hefur mönnum þótt að í mörgum tilvikum væru sjómennirnir í harla veikri stöðu til að knýja fram sanngjarna verðlagningu á sínum hlut, þegar eigandinn og kaupandinn að aflanum er einn og hinn sami. Þessi tvíþættu vandamál má segja að séu í hnotskurn undirrót deilunnar. Frv. bera líka keim af því, þ.e. þau þrjú sem eru afrakstur starfa þríhöfðanefndarinnar. Þau lúta að annars vegar takmörkunum á eða fyrirkomulagi á viðskiptum með aflaheimildir og hins vegar verðmyndunar- eða verðlagningarþættinum í gegnum Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Athyglisvert er, herra forseti, að deilan, sem er tilefni lagafrumvarpa af hálfu ríkisstjórnar sem fela í sér íhlutun í lögmætar kjaraaðgerðir, er ekki ýkja gömul. Það var fyrst 3. febrúar sem verkfall skall á og það er umhugsunarefni að strax 8. febrúar, eða fimm dögum eftir að verkfall hófst, voru umræður komnar í gang í þjóðfélaginu og gefið undir það af ráðherrum að lagasetning væri í undirbúningi. Það má spyrja hvort það sé að verða sú tímalengd sem umburðarlyndi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar gagnvart verkfallsréttinum þolir. Það séu fimm dagar. Það liðu fimm dagar frá því verkfall hófst 3. febrúar þar til umtal um lagasetningu var komið á fulla ferð í þjóðfélaginu 8. febrúar sl. Þann 9. febrúar lagði ríkisstjórn Davíðs Oddssonar undir forustu sjútvrh. Þorsteins Pálssonar fram frv. á Alþingi eins og kunnugt er um lagaíhlutun. Það voru síðan sviptingasamir sólarhringar hér þann 10. og 11. sem að lokum leiddu til þess eftir að stjórnarandstaðan hafði hafnað því að taka frv. á dagskrá með afbrigðum, að sjómenn völdu þann kost að fresta verkfalli og láta vinna þá vinnu sem boðuð var í frv. og kennd hefur verið við þríhöfðanefnd.

Síðan var það þannig, herra forseti, svo haldið sé áfram að rekja þessa stöðu, að þegar upp úr sáttafundi slitnaði á mánudaginn sl. einhvern tímann um hádegisbilið, ef ég man rétt, leið varla klukkutími þar til lagatalið var byrjað á nýjan leik. Þá voru þessir fimm sólarhringar komnir ofan í klukkustund sem þolinmæði ríkisstjórnarinnar entist og þá var sagt: Lög, lög, lög!

Það er mikið umhugsunarefni, herra forseti, þegar menn sitja uppi með svona lagaglaða ríkisstjórn hvað sé þá orðið eftir af frjálsum samningsrétti í landinu. Er kannski verið að segja að sú reynsla öll frá 1994 og viðbrögð ríkisstjórnar nú, sem reyndar hefur áður sett niður deilur sjómanna með bráðabirgðalögum meira að segja, í janúar 1994, sé sú að þessi stétt sjómanna hafi í reynd verið svipt verkfallsrétti og samningsrétti? Og það er til lítils að hafa hann á pappírnum ef niðurstaðan er sífellt sú að hann sé óvirkur eða lítils virði í reynd.

Ég, herra forseti, verð að leyfa mér að segja að ég held að hæstv. ríkisstjórn hafi af alveg óvenjulegri lítilsvirðingu komið fram við sjómenn og réttindi þeirra hvað þetta snertir. Það var og er enn frægt þegar hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson kom inn í þessa umræðu og tilkynnti alþjóð, eins og önnur eins tíðindi hefðu ekki lengi gerst, að hann hefði hætt við Afríkuför vegna þess að hann hygðist vera heima og tiltækur þegar kæmi að því að harðna færi í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Menn spurðu auðvitað hvað utanrrh. kæmi þetta við. Hann er að vísu fyrrv. sjútvrh. og sumir vilja meina að hann hafi átt erfitt með að venja sig af þeirri hugsun að hann sé það ekki enn þá, hæstv. ráðherrann. En þetta mál er að sjálfsögðu ekki á hans ábyrgð.

Þetta þótti mörgum boða lítið gott og gefa þann tón að ríkisstjórnin mundi hafa afar takmarkaða þolinmæði gagnvart því að deiluaðilar leystu sín mál sjálfir. Og það er nákvæmlega það sem hér hefur gerst, herra forseti. Mestu vonbrigðin í sambandi við þetta mál er það skipbrot sem frjáls samningsréttur í landinu bíður ítrekað með því að sjómenn og útvegsmenn skuli ekki geta lokið sínum málum hjálparlaust og sín í milli. Þótt það taki einhvern tíma og kosti að flotinn sé bundinn í höfn einhverja daga, þess vegna einhverjar vikur, er það þá ekki eðli málsins ef það er það sem til þarf, þá á það að gerast? Það er ekki hægt að skilyrða frjálsan samningsrétt og verkfallsrétt þannig að hann megi standa í fimm sólarhringa eða klukkustund. Annaðhvort hafa menn samningsrétt og rétt til að beita samtakamætti sínum eða ekki. Og ef menn hafa hann ekki þá er venjan sú í löggjöf siðaðra ríkja að ganga frá því með einhverjum öðrum hætti hvernig kjaramálum þeirra stétta, sem af einhverjum ástæðum verður niðurstaðan að skuli ekki hafa samningsrétt og verkfallsrétt, sé þá skipað. Yfirleitt er þá settur upp einhver dómstóll eða úrskurðarfarvegur, eins og kjaradómur eða kjaranefnd sem hefur það hlutverk að ákveða um kjör þeirra stétta sem af öryggisástæðum eða einhverjum slíkum þjóðarhagsmunum er ekki talið rétt að hafi verkfallsrétt.

Mér sýnist þróunin, herra forseti, vera grafalvarleg í þessu máli hvað varðar umhverfið sem sjómenn eru staddir í. Auðvitað fyrst og fremst vegna þess að þær ríkisstjórnir sem setið hafa í landinu á þessum tíma hafa ekki virt rétt sjómanna, þær hafa þvert á móti haft hann að engu þegar svo ber undir.

Herra forseti. Ef vikið er aðeins nánar að efni þessara frumvarpa þá er það í fyrsta lagi frv. á þskj. 1023, mál nr. 603, um kjaramál fiskimanna, sem staldrað er við. Það vakti sérstaka athygli, herra forseti, hvernig búið var um þau tvö ákvæði sem inn í frv. koma og ekki höfðu verið í svonefndri miðlunartillögu sáttasemjara og hæstv. ríkisstjórn þótti ástæða til að bæta inn í þennan lagapakka, þ.e. annars vegar fyrri málsgrein og hins vegar síðari málsgrein 2. gr. og svo 3. gr. sem kveður á um með hvaða hætti lögin eru gerð að ígildi kjarasamnings og verkfalls- og samningsréttur sjómanna gerður óvirkur á gildistíma laganna.

Fyrri málsgrein 2. gr. var auðvitað með miklum endemum, herra forseti, og það væri gaman að fá einhvern tímann við tækifæri upplýst hvernig hann varð til. Var það vegna þess að verið væri að reyna að plata menn? Telja mönnum trú um að eitthvað annað væri á ferðinni en það sem hefði orðið afleiðingar af þessum texta ef hann hefði verið lögfestur? Það er kannski ekki við hæfi, herra forseti, að eyða miklum tíma í það úr því þegar hefur verið boðuð breyting á þessu ákvæði og það er vel, að hæstv. sjútvrh. hefur séð að þetta gengur auðvitað ekki og hér var boðað við 1. umr. málsins og reyndar strax í sérstakri yfirlýsingu við atkvæðagreiðslu um afbrigði við frv., að eftir því yrði óskað við sjávarútvegsnefnd að fyrri málsgrein 2. gr. yrði breytt þannig að ákvæðin sem taka til kjarasamninga og fjölda í áhöfn mundu eingöngu gilda um rækjuveiðar.

En málsgreinin eins og hún er hefði farið inn í, að því er kunnugir telja, a.m.k. eina tvo tugi gildandi kjarasamninga um þetta atriði. Áhrifin hefðu í raun orðið þau að útvegsmenn hefðu haft sjálfdæmi um hvernig þeir fækkuðu í áhöfn og þeirri gömlu grundvallarreglu í kjaralegum samskiptum útgerðarmanna og sjómanna að skipta skuli í svo marga hluti sem nemur áhöfn á skipi hverju sinni yrði kastað fyrir róða.

[15:45]

Hlutaskiptafyrirkomulagið, herra forseti, er auðvitað ævafornt skipulag eins og menn þekkja. Einhver mundi segja að það hefði gefist íslensku þjóðinni nokkuð vel. Ætli það geti ekki verið ein ástæðan fyrir því að við eigum afkastamestu sjómannastétt í heimi að menn hafa fyrir löngu fundið út það skipulag að heppilegt sé að menn geri út saman í þeim skilningi að menn fái hver sinn hlut aflans sem dreginn er. Þannig er hlutaskiptakerfið í raun og veru innbyggt bónuskerfi eða hvatningarkerfi ef svo má að orði komast. Það mælir sjálfkrafa aukna fyrirhöfn og aukið álag áhafnar þegar afli vex og meira er fyrir því haft að ná honum og það er eins konar útgerðarsamningur milli áhafnarinnar og útgerðarinnar þar sem menn deila með sér ágóðanum. Mér finnst menn ekki ætla sér lítið að kippa þessu burtu í einni málsgrein í frv. sem menn hefðu helst viljað afgreitt í gær en það er það sem hefði gerst í raun og veru ef 2. gr. hefði orðið að lögum eins og hún lítur út. Nú hefur verið boðað að þetta skuli taka til rækjuveiðanna eingöngu og þá er búið að takmarka mjög áhrifin af breytingunni en auðvitað hefði verið heppilegast að þessi mál hefðu verið leidd til lykta með öðrum hætti, þ.e. þeim að um þessi mál hefði þá verið samið eins og auðvitað málið að öllu leyti. Þetta er dæmigert mál, herra forseti, sem menn þurfa að leysa í góðu samkomulagi sín á milli og ég hafði fulla trú á því að það væri hægt. Ég hef enga trú á öðru en íslenskir sjómenn hafi skilning á því og vilji gjarnan að samskipti séu með þeim hætti að eftir því sem tilefni eru til geti orðið breytingar t.d. á mönnun fiskiskipa í tengslum við nýja tækni o.s.frv. Sjómenn hafa að sjálfsögðu ekki áhuga á því að verið sé að halda fleiri mönnum um borð en þörf er fyrir og eru væntanlega tilbúnir til að skipta afrakstrinum af aflanum á færri menn og fá betri hlut að svo miklu leyti sem raunhæft er að gera það. En að hafa þetta galopið og þannig að menn gætu fækkað í áhöfn að geðþótta án tillits t.d. til þess hvernig vinnuálagið vex um borð, hvernig öryggisþættirnir koma inn í myndina o.s.frv., nær náttúrlega ekki nokkurri átt. Það verður alveg öruggt mál að ekki verður fækkað í áhöfn fiskiskipanna hist og her þó að þau séu orðin nýtískuleg nema það komi við og auki vinnuálagið á þá menn sem eftir eru.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég velti því fyrir mér t.d. hvernig það er orðið að vera einn af sex mönnum í áhöfn á 500 tonna rækjuskipi sem er veiðandi norður í ballarhafi í ís og vondum veðrum. Þannig er það að verða og það er spurning hvort ekki er nú þegar nokkuð langt gengið í vissum tilvikum í þeim efnum. Í öðrum tilvikum kann að vera að menn sitji eftir með óþarflega íhaldsama samninga sem hafa ekki tekið að öllu leyti mið af því hvernig þróunin hefur orðið.

Þetta er að sjálfsögðu eðlilegt að skoða en, herra forseti, ég segi það enn og aftur að um þessa hluti eiga menn og þurfa menn að semja. Það þýðir ekki neitt, það er aldrei annað en að pissa í skóinn sinn að þröngva fram lögum í svona deilum vegna þess að þessir aðilar verða að eiga samskipti og þau verða ekki afmáð með lögum af þessu tagi. Það verða ekki byggðir veggir milli áhafna og útgerða með því að setja einhver lög á Alþingi. Halda menn að þessir menn geti þar með hætt að talast við og þurfi ekki að þekkja hver annan í sjón og ekki bjóða hverjir öðrum góðan daginn, að þetta sé einhvern veginn þannig? Nei, það er sko ekki þannig. Það mun seint ganga að gera mikið út á Íslandi nema það geti verið eitthvert skaplegt andrúmsloft ríkjandi í samskiptum þessara aðila. Þess vegna er náttúrlega alveg hroðalegt niðurlag, herra forseti, að ekki skuli takast eina ferðina enn að útkljá þessi mál í samningum milli aðila og það er auðvitað alveg baneitrað upp á andrúmsloftið að svo sé.

Mér finnst furðulegt hversu léttúðlega menn taka á þessum þætti málsins eins og það sé ekkert áfall að í þriðja skiptið í röð eftir verkföll, átök og stöðvun flotans tekst ekki að heldur að ljúka málinu með samningum. Hvað segir þetta okkur um það hvernig andrúmsloftið í samskiptum þessara aðila er orðið og hvernig það er að þróast? Það er ekki gott. Það ætti að vera öllum nokkurt áhyggjuefni, auðvitað fyrst og fremst deiluaðilunum en ekkert síður okkur á Alþingi eða þeim í sjútvrn. eða þeim sem þetta mál varðar.

2. mgr. 2. gr., herra forseti, lýtur að sjálfsögðu réttlætismáli sem eðlilegt var að taka inn, þ.e. að kauptryggingarákvæðin séu ekki bara nafnið tómt ef svo ber undir þegar menn eru að fara í langar og misvel heppnaðar veiðiferðir á fjarlæg hafsvæði og er kannski haldið þar við rýran hlut dögum og vikum saman, þá er náttúrlega eðlilegt að kauptryggingin taki til þeirrar veiðiferðar sem slíkrar og þess hluta hennar sem slíkrar og það sé síðan ekki gert eins og einhver brögð hafa verið að að menn fari inn í landhelgina aftur eða fari í veiðar sem gefa vel af sér í einhverja fáeina sólarhringa til að ná upp hlut og fá fyrir kauptryggingunni og þannig sé hægt að hafa hana í reynd óvirka þegar um slíka blandaða veiðiferð er að ræða. Ég á ekki von á því að nokkur maður geti talið annað en sanngjarnt að gera þá lagfæringu sem þarna er á ferðinni.

Þá kem ég að 3. gr., herra forseti, sem fjallar um það hvernig vinnustöðvanir og verkföll, verkbönn og aðrar aðgerðir sem deiluaðilar hygðust grípa til á samningstímanum eru ólöglegar. Allar aðgerðir sem menn mundu fara í til að knýja fram einhverjar breytingar sem þeim er þó að nafninu til heimilt að semja um eru ólöglegar. En þetta er sem sagt þannig að menn mega semja ef þeir verða sammála um eitthvað en þeim er óheimilt að gera nokkurn skapaðan hlut til þess að reyna að ná fram því samkomulagi. Það er ekki heimilt. Auðvitað er alltaf, herra forseti, grafalvarlegt mál þegar menn ganga frá hlutunum á þennan hátt. Menn vísa til þess að þetta sé friðarskyldan sem kemst á í kjarasamningum og það sé ekki verið að beyta stöðunni neitt hvað það snertir. En hér er ekki verið að fjalla um kjarasamning, það er ekki svo, því miður ekki. Hér er verið að fjalla um að það eru sett lög á menn í miðri vinnudeilu. Lögmætar aðgerðir manna eru stöðvaðar á grundvelli réttinda sem njóta verndar, m.a. í stjórnarskránni til þess að knýja fram aðra skipan kjaramála. Það er það sem er að gerast þannig að það er ekki að mínu mati, herra forseti, haldbært að vísa bara til þess að þetta sé sams konar friðarskylda og kæmist á í frjálsum kjarasamningum. Það stenst ekki. Löggjafinn verður að svara og rökstyðja réttmæti þess að grípa inn í grundvallarmannréttindi með öðrum hætti en þeim að vísa til þess ástands sem kemst á í frjálsum samningum milli aðila. Það verður að vera hægt að rökstyðja með vísan til brýnna almannahagsmuna, öryggisreglu eða einhverra slíkra hluta að svona takmörkun á mannréttindum fái staðist. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt, herra forseti, m.a. vegna þess að þessi mál eru að nokkru leyti í nýju umhverfi vegna alþjóðaskuldbindinga sem við Íslendingar erum aðilar að að farið verði mjög rækilega yfir þennan þátt málsins, t.d. það að hv. félmn. sem hefur á undanförnum missirum einmitt verið að fjalla um ýmis grundvallaratriði í löggjöf af þessu tagi sem varða helgi verkfallsréttarins og aðra slíka hluti.

Að lokum, herra forseti, er svo gildistökuákvæðið þannig að það kemur á þessari skipan mála til ársins 2000, reyndar fram í febrúarmánuð árið 2000. Það yrði þá á fyrri hluta loðnuvertíðar árið 2000 sem menn gætu farið að draga andann á nýjan leik. Menn vita hvað það þýðir. Það eru engar aðgerðir af einum eða neinum toga heimilar fyrr en eftir að þessi lög falla úr gildi. Þá tekur við hinn langvinni prósess sem löggjöfin, sem þrælað var í gegnum þingið um stéttarfélög og vinnudeilur, mælir fyrir um og tekur marga mánuði að koma málunum í gang eins og kunnugt er. Í raun og veru er verið að svipta sjómenn samningsfrelsi og verkfallsrétti langt fram á árið 2000 og raunverulega langleiðina út það ár (SvG: Þrátt fyrir þessi góðu lög.) þrátt fyrir þessi fínu lög ríkisstjórnarinnar þannig að í reynd verður aldamótaárið að mestu leyti sokkið í sæ áður en sjómenn geta farið að hreyfa sig á nýjan leik í kjaramálum sínum. Þannig ætlar hæstv. ríkisstjórn sjómannastéttinni á Íslandi að fagna aldamótunum að hún verði með hendur bundnar á bak aftur af þessum nauðungarlögum. (SvG: Hvar er Páll Pétursson?) Og það er lýst, herra forseti, úti í salnum eftir hæstv. félmrh. sem á að heita vinnumálaráðherra á Íslandi, á að fara með málefni aðila vinnumarkaðarins. Það hefur ýmsum þótt ótrúlegt miðað við framgöngu hans en það mun nú samt vera svo miðað við reglugerð um Stjórnarráð Íslands að það eigi að heita svo að hæstv. félmrh., Páll Pétursson, fari með þetta embætti. Það er spurning hvort hann er að sinna einhverjum öðrum mikilvægum skyldum um þessar mundir eða getur heiðrað okkur með nærveru sinni á næstunni.

Herra forseti. Ég sel það í hendur forseta að setja í gang eftirgrennslan um það hvað hæstv. félmrh. er að sýsla.

(Forseti (RA): Forseti vill upplýsa að hæstv. félmrh. er ekki í húsinu. Hann verður látinn vita af ósk þingmannsins.)

Svo finnst mér, herra forseti, þegar farið er að ræða það á annað borð að það væri fullkomlega ástæða til að hæstv. forsrh. og hæstv. Afríkumála --- nei, utanrrh. kæmi og væri viðstaddur umræðuna því að hann hefur verið alláberandi og ég veit ekki annað en það hafi verið þriggja manna nefnd hæstv. ráðherra sem var að þinga um þetta um helgina og það væri eðlilegt að hægt væri að leggja spurningar fyrir alla hæstv. ráðherrana í þessu sambandi.

Herra forseti. Örfá orð um hin frumvörpin þrjú sem er að vísu er ekki tími til að fara rækilega ofan í úr því að valinn var sá kostur að slengja þessu öllu saman. Ég verð að segja að ég er mátulega hrifinn af þeirri skipulagningu á störfunum hér því að mér finnst að þau frumvörp verðskuldi að um þau hefði verið fjallað í rólegheitum og yfirvegað og á efnislegum forsendum. Fullkomin ástæða er til að fara þar yfir einstök atriði og velta því fyrir sér hvernig þau munu leggjast út. Mér er að vísu ljóst að hér er á ferðinni pakki sem er kannski ekki skynsamlegt að hrófla mikið við ef þó á að reyna að gera ástandið ekki illt verra. Það á þó að heita svo að einhver árangur hafi náðst í því að laga þetta þannig til að óánægjan sé minni en ella um þessa skipan mála og frumvörpin þrjú eru lögð fram eins og þau voru í miðlunartillögu sáttasemjara og þá miðlunartillögu samþykktu sjómenn. Það er því alveg ljóst að það er hlutur sem menn verða að íhuga mjög vandlega áður en farið yrði út í að gera þar einhverjar efnisbreytingar sem hefðu áhrif á það samhengi sem hlutirnir eru í.

Í fyrsta lagi vil ég segja ef við tökum til að mynda fyrst frv. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. 604. mál hefur það fólgið í sér fyrst og fremst eitt ákvæði sem er efnisbreyting á lögunum um stjórn fiskveiða. Að öðru leyti vísar það í frv. um Kvótaþing sem fylgir með og það er þetta ákvæði að hækka veiðiskyldu fiskiskipanna upp í 50% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið á hverju ári. Reglan þar, herra forseti, hefur eins og kunnugt er verið sú að fiskiskipin hafa haldið veiðileyfi sínu og veiðiheimildum út á að veiða ígildi 50% af þeim veiðiheimildum sem skráð er á þau annað hvert ár. Þau hafa getað veitt 50% annað árið og 0% hitt án þess að missa veiðirétt sinn. Þessi regla hefur í reynd þýtt það vegna þess hvernig hún er útfærð að skipin þurfa fyrst og fremst og fremst að vera haffær og komast á sjó og geta skrapað í einhverjum tegundum sem nemur helmingnum af þeim veiðiheimildum sem eru skráð á þau. Þannig útfærð hefur reglan að sjálfsögðu bitið mjög lítið. Skip sem er með miklar veiðiheimildir í þorski getur fullnægt veiðiheimildinni með því að fara annað hvert ár á rækju og veiða sem nemur 50% af skráðum aflaheimildum sínum í rækju annað hvert ár. Síðan er það reiknað yfir í þorsk samkvæmt flóknum stuðlum og þá telst veiðiskyldunni fullnægt.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög skynsamlegt og farsælt að þróa kerfið í þá átt að skipin veiði að breyttu breytanda meira af veiðiheimildum sínum sjálf en verið hefur. Það er ekki farsæl þróun til lengdar að dreifing veiðiheimildanna á flotann sé ekki í neinu samræmi við það útgerðarmunstur sem hann stundar. Það er miklu heilbrigðara að hann lagi samsetningu veiðiheimilda sinna jafnt og þétt að þeirri útgerð sem þeir stunda á hverjum tíma og færi þær yfir í þær tegundir sem þeir eru að veiða en geymi ekki einhverja gamla fortíð í veiðireynslu á skipunum en skipti því svo eða leigi frá sér á hverju einasta ári. Ég er því þeirrar skoðunar að þessar rúmu heimildir hafi verið til þess fallnar að tefja fyrir því sem væri eðlileg aðlögun í flotanum og dreifingu veiðiheimildanna að veruleikanum á hverjum tíma.

[16:00]

Deila má um hvort það eigi að gera með svona ákvæði um veiðiskyldu eða með öðrum aðferðum. Ég hef verið þeirrar skoðunar að rétt væri að refsa mönnum fyrir að veiða ekki í samræmi við þann afnotarétt sem þeir fá úthlutað á hverjum tíma. Það mætti gera með svonefndri fyrningarreglu, að hluti þeirra veiðiheimilda sem menn ekki nýttu fyrntist frá útgerðinni á hverju ári og færðist til þeirra sem nota sinn rétt og jafnvel rúmlega það.

Er grunnreglan sem við eigum að byggja þetta kerfi á ekki sú, svo lengi sem það er við lýði á annað borð, að veiðirétturinn sé afnotaréttur og menn eigi annaðhvort að nota hann eða láta hann ganga a.m.k. smátt og smátt til annarra? Það held ég. Ég hef allan tímann verið þeirrar skoðunar að fénýting manna á veiðirétti sem þeir ekki noti sjálfir en hafa fengið úthlutað án endurgjalds sé í raun og veru siðlaus. Ég tel það mestu brotalömina í kerfinu eins og það er og hafi allan tímann verið. Ég er sannfærður, herra forseti, um að það hafi verið mestu mistök sem gerð hafa verið í þessu kerfi, að opna fyrir þann möguleika. Aðlögunin átti að gerast í gegnum framsal á varanlegum veiðirétti og síðan átti að hafa fullt frelsi til þess að skipta á sléttu á jafngildum veiðiheimildum.

Útfærslan á reglunni er líka umhugsunarefni að því leyti að menn missa annaðhvort allt eða ekkert. Við þessi 50% mörk þá ætti það að heita svo að fari menn í 49% eitt ár þá missi menn allt. Mér finnst nú fyrr mega rota en dauðrota. Ég hefði kannski talið skynsamlegt að þarna væri beitt einhvers konar hlutfallslegri skerðingu. Mönnum væri refsað upp að vissu marki ef þeir nýttu ekki veiðiheimildirnar en ekki þannig að þeir misstu þær bara allar á einu bretti. Það liggur auðvitað í hlutarins eðli að það er mjög ströng refsing og spurning hvort önnur útfærsla að þessu leyti væri ekki skynsamlegri.

Hér er að vísu komið inn visst ,,force majeure``-ákvæði. Verði menn fyrir meiri háttar áföllum eða óhöppum þá kemur til undanþæg regla. Eftir stendur það að ég held að útfærslan á þessu ákvæði sé ekki mjög skynsamleg þó að mörkin sem hér eru sett séu að mínu mati enn mjög væg. Ég tel það ekki mikið að menn eigi að veiða helminginn af sínum veiðiheimildum á hverju ári.

Í öðru lagi, herra forseti, um frv. um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna þá fer ég þar hratt yfir sögu. Mér finnst það frv. tvímælalaust vera í rétta átt. Ég held að það sé tilraunarinnar virði að styrkja stöðu einhvers úrskurðaraðila með aðgerðum af því tagi sem ákvæðin um Verðlagsstofuna, sem eru það nýja í málinu, og heimildir hennar eru. Hér er sett á fót einhvers konar verðlagslögregla, það má í raun nota það heiti, sem sjómenn geta hóað í ef þeir telja að þeir séu bersýnilega beittir órétti með fiskverðinu. Einkanlega mundi það eiga við um þau tilvik er menn eru að kaupa aflann af sjálfum sér eða skyldir aðilar eiga í viðskiptum. Það er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt, herra forseti, að ákvæðin séu þannig að þetta verði ekki máttlaust apparat sem hægt sé að ráðskast með. Annaðhvort væri að hafa öflugan úrskurðarfarveg og hafa hann þannig að hann geti verið skjótvirkur. Þannig tæki ekki langan tíma að fá úrskurðinn og hægt væri að fullnusta hann og tryggja að hann nái fram að ganga.

Kemur þá enginn annar en sjálfur hæstv. félmrh. Páll Pétursson og er honum fagnað hér í þingsalnum alveg sérstaklega. (Félmrh.: Takk fyrir.) Eðlilegt má telja að hann sé viðstaddur þessar umræður um kjaramál fiskimanna. Þó að hæstv. ráðherra sé kannski frægari fyrir áhuga sinn á kjaramálum bænda þá er nú ekki lakara að hann setji sig einnig inn í kjör annarra stétta. (Félmrh.: Ég hef líka áhuga á kjörum fiskimanna.) Já, það er gott.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjalla frekar um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna, ég hef ekki tíma til að fara þar frekar ofan í einstök ákvæði. Ég segi þó hiklaust að ég tel þetta vera í rétta átt og tilraunarinnar virði að gera þessar breytingar. Að sjálfsögðu getur reynslan ein skorið úr um það hversu vel þessi atriði halda. Maður er vissulega hvekktur af dapurri reynslu. Ekki vantar að samið hafi verið um og það sett í lög eða kjarasamninga t.d. að óheimilt sé að láta sjómenn taka beint eða óbeint á nokkurn hátt þátt í kostnaði vegna kvótakaupa eða leigu á veiðirétti. Reynslan hefur orðið önnur eins og kunnugt er. Úrskurðarnefndin, sem miklar vonir voru bundnar við og sett var á laggirnar eftir síðustu deilu, hefur heldur ekki reynst það tæki sem sátt gæti orðið um.

Að lokum, herra forseti, vil ég minnast á frv. til laga um Kvótaþing. Ætlunin er að setja á fót opinberan eða viðurkenndan tilboðsmarkað, sem þetta Kvótaþing í raun er, þar sem þeir sem vilja leigja frá sér veiðiheimildir leggja inn tilboð eða óskir um slíkt og hinir sem ætla að kaupa koma með sínar óskir. Samband milli kaupenda og seljenda er rofið og þannig á að girða fyrir það að um tengslaviðskipti sé að ræða. Og eins á að girða fyrir það að tengsl geti verið á milli leigjenda kvótans og ráðstöfunar aflans síðar meir. Sá afli er verðlagður annaðhvort í gegnum sölu á markaði eða í beinum viðskiptum og fellur þá undir þau ákvæði um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna, sem ég var að fjalla hér um áðan.

Með þessum hætti á vissulega, herra forseti, a.m.k. á yfirborðinu séð, að koma í veg fyrir að þau viðskipti með veiðiheimildir sem mikið hefur verið um, sum hver hafa gengið undir nafninu ,,tonn á móti tonni``, geti farið fram eins og áður var. Það á ekki að vera mögulegt fyrir þá sem leigja til sín kvóta að láta áhöfnina taka þátt í þeim kostnaði í gegnum niðursett fiskverð og ráðstöfun aflans, t.d. til þess sem þeir leigðu frá. Að því leyti, herra forseti, held ég að tæplega verði deilt um að frv. og þær breytingar sem það felur í sér séu til bóta. Þær eru í áttina að lausn þessa langvinna stríðs sem staðið hefur um svonefnt kvótabrask og tengst hefur leigu eða viðskiptum með aflamark.

Menn verða svo auðvitað að velta fyrir sér hvaða áhrif þessi breyting hefur að öðru leyti. Og það er alveg ljóst, herra forseti, að ýmsir eru mjög uggandi um sinn hag vegna þess að þeir hafa reynt að fóta sig og lifa í þessu nýju umhverfi sem leiguliðar, að hluta eða jafnvel öllu leyti. Slatti af útgerðum á sáralitlar og jafnvel engar veiðiheimildir, en reynir að komast af. Ég skil fullkomlega áhyggjur þeirra sem þannig er ástatt um, þegar Kvótaþingið verður komið á og öll viðskipti með leigukvóta fara þangað.

Þá verður að sjálfsögðu að hafa í huga að ýmsar breytingar munu verða og þeir sem hafa stundað þessi viðskipti á báðar hliðar munu verða fyrir áhrifum af breytingunum. Ekki aðeins öðrum megin. Þetta mun að sjálfsögðu líka hafa áhrif á þá sem hafa stundað það í stórum stíl að leigja frá sér kvóta. Þeir sem hafa látið aðra veiða fyrir sig verða að horfast í augu við breytingarnar líka. Að mínu mati er ekki auðvelt að sjá fyrir hver heildaráhrifin af breytingunni verða þegar upp er staðið. Þar mun til að mynda skipta mjög miklu máli hvernig leiguverðið sjálft þróast. Verði það á skikkanlegum nótum er ekki víst að þetta komi svo illa við hagi kvótalítilla útgerða eða einyrkja sem margir óttast. Verði framboðið hins vegar lítið og leiguverðið hátt þá er auðvitað ljóst að staða slíkra aðila verður erfið og kannski mun þetta slá af einhverjar þeirra útgerða sem komið hafa til sögunnar án þess að eiga sjálfar veiðiheimildir.

Auðvitað er skiljanlegt að um þetta frv. séu skiptar skoðanir og ýmsir uggandi um áhrifin af því. Í þessu eins og svo mörgu öðru, herra forseti, er ekki bæði hægt að sleppa og halda. Sömu aðilar og talað hafa sig hása undanfarin ár um kvótabrask og rangindi gagnvart sjómönnum, geta auðvitað ekki snúið við blaðinu og sagt svo sannfærandi sé: Nei, nei, nei, það má ekki setja á Kvótaþingið, við viljum fá að halda þeim viðskiptum áfram sem við höfum verið í. Menn verða að velja á milli þess hvort þeir vilji reyna þetta eða aðrar aðferðir sem menn kynnu að telja betri til að taka á vandamálum í þessum efnum eða búa við óbreytt ástand.

Ég held að a.m.k. til að leysa þann þáttinn sem ég fór hér yfir fyrr, herra forseti, sé þetta tilraunarinnar virði. Ég geri mér þó vel grein fyrir því að um heildaráhrifin af þessari breytingu eru nokkuð skiptar skoðanir.

Þá er tíma mínum lokið, herra forseti, enda tókst mér nokkurn veginn að fara á hundavaði yfir þessi fjögur frv., eins og ég hafði ætlað mér, og lýk nú máli mínu.