Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 17:19:46 (5168)

1998-03-25 17:19:46# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, LB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[17:19]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. við ræðum í dag fjögur frv. hæstv. sjútvrh. Ég mun taka þau öll til umfjöllunar og byrja á frv. til laga um kjaramál fiskimanna.

Ég held að það verði að leiðrétta þann misskilning, virðulegi forseti, sem ýmsir stjórnarsinnar hafa verið að halda fram, að hér sé um að ræða lög á aðra en sjómenn. Vitaskuld er hér um að ræða lög á sjómenn sökum þess að þeir eru í verkfalli. Það eru ekki sett lög á þá sem ekki eru í verkfalli eða standa ekki að neinum vinnumarkaðsaðgerðum nú um stundir. Það er því alveg ljóst að hér er á ferðinni lagasetning á sjómenn. Síðan geta menn deilt um það hvort efni laganna sé hugsanlega hliðhollt öðrum aðilanum frekar en hinum. En menn mega ekki rugla saman því sem skiptir mestu máli. Hér er verið að setja lög á sjómenn.

Í öðru lagi er það líka grundvallarmisskilningur að hér sé verið að lögfesta kjarasamning. Kjarasamningur er allt annars eðlis. Hér er verið að lögfesta kjör sjómanna til tveggja ára í það minnsta, a.m.k. til 15. febrúar árið 2000. Og í ljósi þeirrar vinnulöggjafar sem nýverið var samþykkt á Alþingi, fyrir einu eða tveimur árum síðan, þá er alveg ljóst að sjómenn geta ekki gripið til aðgerða fyrr en vel er liðið á það ár og jafnvel í upphafi árs 2001.

Það er grundvallarmunur á kjarasamningum, virðulegi forseti, og lögum því það er alveg ljóst að sjómenn eða aðilar vinnumarkaðarins munu ekki geta sagt upp þessum kjörum því eins og fram kemur í frv. til laga um kjaramál sjómanna eru fylgiskjölin eða miðlunartillögurnar hluti af þeim lögum. Þess vegna verður þessum kjörum ekki sagt upp. Með brot á þeim ákvæðum sem fram koma í þessum fylgiskjölum, verður væntanlega farið eins og fram kemur í 4. gr. frv. til laga um kjaramál fiskimanna, þ.e.: ,,Með brot gegn lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála ...`` Og ef útgerðarmenn brjóta ákvæði þessara lögbundnu kjara þá mun það ekki þýða það að sjómenn geti sagt þeim upp. Það mun einungis þýða það að sjómenn verða væntanlega að kæra útgerðarmenn til lögreglu því að kjörin eru lög og fylgiskjölin eru hluti af þeim lögum sem hér er ætlunin að lögfesta. Sjómenn og útgerðarmenn reyndar eru því sviptir rétti sínum til þess að beita þeim aðgerðum sem þeir telja að þeir geti beitt í samskiptum hvor við annan. Þeir eru sviptir þessum rétti sínum til tveggja ára. Sjómenn eru sviptir samningarétti sínum til tveggja ára og geta því ekki samið um kaup sín og kjör fyrr en í fyrsta lagi eftir 15. febrúar árið 2000.

Það er líka eftirtektarvert, virðulegi forseti, að þetta verkfall hefur einungis staðið í tíu daga eða svo og þá telur ríkisstjórnin ástæðu til þess að grípa inn í. Tíu dagar eru ekki langur tími. En það að verkfallið hafi staðið í tíu daga nægir ríkisstjórninni sem tilefni til þess að svipta þessa aðila rétti sínum til þess að semja næstu tvö árin. Ég held að þetta sé í þriðja skipti á fjórum árum sem löggjafarvaldið grípur inn í kjaradeilur sjómanna og útvegsmanna og í ljósi þess er virkilega orðið umhugsunarefni hvort sú staðreynd sé ekki farin að gera það að verkum að þessir aðilar telja sig kannski ekki bera eins ríkar skyldur og eins mikla ábyrgð á að ná kjarasamningi og ef þessar staðreyndir væru ekki öllum ljósar. Það hlýtur a.m.k. að vera umhugsunarefni fyrir þessa aðila í ljósi þess að ætíð eru sett lög og þá hlýtur maður að spyrja: Hvers vegna er þá verið að elta ólar við að gera einhvern kjarasamning?

Ég held að þessi aðferðafræði löggjafarvaldsins hafi svipt samningsaðilana ákveðinni ábyrgðartilfinningu á því að gera samninga um kaup og kjör og ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég held að þessi mýmörgu fordæmi löggjafarvaldsins séu ekki til fyrirmyndar.

Virðulegi forseti. Rétturinn til þess að semja eru mannréttindi og rétturinn til þess að semja hefur verið staðfestur bæði í lögum hér á landi og eins í alþjóðasáttmálum sem ríkisstjórnin og þjóðin hefur undirgengist. Það þarf því verulega sterk rök til þess að svipta menn þessum réttindum. Það hlýtur að þurfa gríðarlega sterk rök. Það er mikill efi í mínum huga að það að verkfall hafi staðið í tíu daga réttlæti að þessir aðilar séu sviptir þessum sjálfsögðu mannréttindum til tveggja ára. Ég hef miklar efasemdir, virðulegi forseti, hvað þetta varðar.

Eins og ég sagði í upphafi er ekki verið að lögfesta kjarasamning heldur er verið að lögfesta kjör og það er verið að binda hendur þessara aðila til a.m.k. tveggja ára svo að menn velkist ekki í vafa um hvað hér er verið að gera.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta nema að mótmæla því að ríkisstjórnin grípi inn á þennan hátt. Ég held að flestir séu sammála um að mjög óæskilegt sé að gera þetta svona og mjög óæskilegt að löggjafarvaldið sé æ ofan í æ að gefa það fordæmi að samningsaðilar þurfi ekki að bera ábyrgð á gjörðum sínum.

Virðulegi forseti. Í öðru lagi eru hér til umræðu þrjú frv. sem í raun voru forsenda þess að sjómenn sjómenn samþykktu þá miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram á dögunum. Þetta eru frv. til laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, frv. til laga um Kvótaþing og frv. til laga um breyting á lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Ég vil segja í upphafi, virðulegi forseti, um þessi frv. að það er mér a.m.k. lítið tilhlökkunarefni hvernig mál sjómanna og hvernig mál fiskveiðistjórnarkerfisins eru að þróast. Þetta er að þróast yfir í að verða einhvers konar risabákn. Þetta er að fara í ekki mjög ósvipaðan farveg og landbúnaðarkerfið, samanber Verðlagsstofu skiptaverðs. Hver kannast ekki við verðlagsráð landbúnaðarins? Svo er það Kvótaþing, Framleiðsluráð landbúnaðarins, eftirlitsgjöld o.s.frv. Ég er voðalega smeykur um að við séum smám saman að byggja upp slíkt bákn, hvað varðar stjórn fiskveiða, að það sé farið að slaga verulega upp í báknið sem við höfum byggt upp í landbúnaðarkerfinu og því miður búin að missa öll tök á, en nýframkomnar tölur sýna fram á að kostnaður við nefndastörf í landbúnaðarkerfinu undanfarin tvö og hálft ár er um það bil eitt hundrað milljónir. Við verðum að gæta þess að horfa á þá þróun sem þar hefur átt sér stað sem víti til varnaðar í þessum efnum og megum ekki fara þá leið sem þar hefur verið farin.

Virðulegi forseti. Um frv. um Verðlagsstofu skiptaverðs er ýmislegt að segja. Þó má segja sem svo að hér sé kannski á ferðinni skásta frv. af þeim þremur sem hér liggja fyrir. Hins vegar er ekki hægt annað í umfjöllun um frv. en að vekja sérstaka athygli á 5. gr. þess þar sem Verðlagsstofu skiptaverðs er fengin gríðarlega víðfeðm heimild til að rannsaka og fara ofan í gögn og upplýsingar einstaklinga og fyrirtækja. Við verðum í setningu slíkra reglna að gæta ákveðins meðalhófs. Í 2. mgr. 5. gr. segir, með leyfi forseta:

[17:30]

,,Verðlagsstofa skiptaverðs getur við athugun einstakra mála krafist upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, sem og bönkum og sparisjóðum óháð þagnarskyldu þeirra.``

Verðlagsstofa skiptaverðs er þannig yfir bankaleynd hafin.

Virðulegi forseti. Það að veita stofnun sem þessari ríkari heimild en lögreglan hefur, segir meira en mörg orð hversu ,,drastískrar`` aðferðar, ef svo má að orði komast, hér er gripið til. Ég held að það verði að skoðast mjög vel í hv. sjútvn. en þar á ég sæti, virðulegur forseti, hvort nauðsynlegt sé að ganga jafnlangt og hér er stefnt að. Menn verða að hafa það á hreinu hvernig réttlæta eigi jafngrófar aðgerðir eins og hér á heimila Verðlagsstofu skiptaverðs að grípa til.

Það breytir ekki því, virðulegi forseti, að ég tel þetta frv. drög að réttri leið og þrátt fyrir ýmsa tæknilega annmarka megi segja að það sé jafnvel hið skásta af þeim þremur sem hér liggja fyrir.

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, ætla ég að fjalla um frv. til laga um Kvótaþing. Ég byrja á því sem segja mætti jákvæðast við frv. en það er að nú verða allar upplýsingar uppi á borðinu, þ.e. eins og segir í 15. gr. þess frv.:

,,Kvótaþing skal daglega birta aðgengilegar upplýsingar um viðskipti, þar á meðal um viðskiptaverð, heildarmagn og verðmæti, allt eftir tegundum. Þá skal birta aðrar upplýsingar sem Kvótaþing telur að geti stuðlað að virkri verðmyndum.``

Þetta mun þýða það, virðulegi forseti, að upplýsingar um framsal, sölu og leigu aflaheimilda verða til staðar og það er til mikilla bóta. Erfitt hefur reynst að fjalla um þessi mál á undanförnum árum vegna þess að menn hafa oftar en ekki þurft að draga ályktanir án þess að hafa allar upplýsingar við höndina. Reikna má með því í kjölfar þess að Kvótaþing taki til starfa muni þessar upplýsingar allar liggja fyrir í aðgengilegu formi.

Á hinn bóginn fylgir yfirleitt eitthvað með í kaupunum þegar frumvörp af þessu tagi eru sett fram. Í mínum huga er ljóst að verði þetta frv. óbreytt að lögum, þá mun það leiða til mikils samruna í sjávarútvegi. Fyrirtækjum mun fækka. Það er alveg á hreinu. Fyrirtæki munu renna saman og þeim mun fækka. Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, og þetta á einkanlega við einstaklingsútgerðir sem stunda bolfiskveiðar. Aflaheimildir í bolfiski eru of litlar til þess að allir geti gert út á þær á ársgrundvelli. Það er einföld staðreynd. Menn munu standa frammi fyrir því að verði þetta frv. að lögum þá geta þeir ekki gert samninga til langs tíma um tonn á móti tonni eða tvö tonn á móti einu tonni á einhverju föstu verðlagi. Sökum þess að aflaheimildir eru of litlar er ljóst að menn munu skoða vandlega hvernig framtíð þeirra verði best borgið.

Í þessu sambandi munu menn sennilega skoða einkanlega tvær leiðir. Þær eru annars vegar að renna saman við stærri fyrirtæki og hins vegar að selja. Þá verða ekki aðrir til þess að kaupa en stóru fyrirtækin. Verði þetta að lögum held ég að sú stefna hæstv. sjútvrh., að koma aflaheimildum á eins fáar hendur og kostur er, sé að ná takmarki sínu og þetta sé einn af síðustu nöglunum sem reknir verða í þá kistu.

Það vakti athygli mína hér áðan að hv. þm. Árni Ragnar Árnason, sem er varaformaður hv. sjútvn., en þar sem stjórnarandstaðan hefur formennsku í þeirri nefnd þá má segja hann oddvita stjórnarmeirihlutans í nefndinni, lýsti yfir miklum efasemdum um tilvist þessa Kvótaþings, a.m.k. í því formi sem það liggur fyrir hér.

Við stöndum einfaldlega frammi fyrir spurningunni: Viljum við halda þessari einstaklingsútgerð um allt landið eða viljum við koma henni á færri hendur? Ef allt þetta fer á fáar hendur þá munu fjölmörg störf tapast. Fari þetta undir stærstu fyrirtækin, þá munu þau ekki líta á það sem einhvers konar vinnumiðlun eða atvinnubótavinnu. Þau munu ekki halda úti skipum ef þau geta sótt þetta með færri skipum. Við þurfum ekki að velkjast í vafa um það. Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að ganga ekki of nærri einstaklingsútgerðinni í landinu. Ég held að hún sé gríðarlega mikilvæg og einnig tel ég það mikilvægt fyrir landvinnsluna ef við viljum halda því í sama horfi. En viljinn til að koma þessu á færri hendur er ríkur og þetta er nákvæmlega leiðin til þess. Reyndar er hugsanlegt að menn leggist í einhverja lögfræðilega loftfimleika við að reyna komast fram hjá þessu en það mun reynast mjög erfitt.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að verði þetta að lögum óbreytt, þá mun það leiða til mikilla erfiðleika fyrir einstaklingsútgerðir í landinu og landvinnsluna. Það mun fækka mjög störfum í sjávarútvegi. Í mínum huga er þetta frv. ekki í þágu sjómanna að óbreyttu, nema hvað það varðar að viðskipti með aflaheimildir verða uppi á borðinu. Því ber að fagna en að öðru leyti hef ég miklar efasemdir um þetta frv. Ég tek undir þær efasemdir sem hv. varaformaður sjútvn. lýsti hér áðan.

Ég gat ekki skilið hann öðruvísi en svo, a.m.k. sem oddvita stjórnarmeirihlutans í nefndinni, en að það komi til skoðunar að breyta frumvörpunum í meðferð nefndarinnar. Orð hans verða ekki skilin öðruvísi en svo.

Ég vil vekja athygli á þeim orðum sem hv. þm. Hjálmar Árnason lét falla hér áðan. Hann á einnig sæti í sjútvn. Hann taldi mjög mikilvægt að skoða hvort jafnvel þessi útfærsla á frv. til laga um Kvótaþing standist almennt samkeppnislög. Ég tel að mikilvægt sé að skoða það í nefndinni og mun beita mér fyrir því.

Í fjórða lagi, virðulegi forseti, er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um stjórn fiskveiða. Þar er einkanlega verið að lögfesta tvö atriði. Annars vegar á að lögfesta skyldu til að veiða 50% af því aflamarki sem mönnum er úthlutað. Í greininni segir:

,,Veiði fiskiskip minna en 50% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið fellur veiðileyfi þess og aflahlutdeild niður við upphaf næsta fiskveiðiárs og skal aflahlutdeild annarra skipa í viðkomandi tegundum hækka sem því nemur. Skal við mat á þessu hlutfalli miðað við verðmæti einstakra tegunda í aflamarki skips samkvæmt ákvörðun ráðuneytis í upphafi fiskveiðiárs. Viðmiðunarhlutfall, sem ákveðið er í þessari málsgrein, lækkar þó um 5% fyrir hverja fulla 30 daga sem skipi er haldið til veiða utan fiskveiðilandhelgi Íslands á fiskveiðiárinu á þeim tegundum sem ekki hefur verið samið um veiðistjórn á.

Falli veiðileyfi skips niður samkvæmt þessari málsgrein er óheimilt að veita því leyfi til veiða í atvinnuskyni næstu þrjú fiskveiðiár.``

Í öðru lagi, virðulegi forseti, er verið að lögfesta reglu um að:

,,Tefjist skip frá veiðum í sex mánuði eða lengur innan fiskveiðiárs vegna tjóns eða meiri háttar bilana hefur afli þess fiskveiðiárs ekki áhrif til niðurfellingar aflahlutdeildar eða veiðileyfis samkvæmt þessari grein.``

Hér er lögfest veiðiskylda upp á lágmark 50% á hverju ári og standist það ekki eru menn sviptir veiðileyfi til þriggja ára. Það er þó með þeirri undantekningu að tefjist skip frá veiðum í sex mánuði eða lengur innan fiskveiðiárs, þá hafi það ekki áhrif til niðurfellingar aflahlutdeildar eða veiðileyfis.

Virðulegi forseti. Hér er nokkuð langt gengið. Það er dálítið gróft ef til þess kemur að fiskiskip verður til frá veiðum í fimm mánuði. Við getum tekið dæmi um loðnuveiðiskip sem verður frá veiðum í fimm mánuði yfir hávertíðina. Viðkomandi skip yrði svipt aflaheimildum og fengi ekki veiðileyfi í fiskveiðilandhelginni næstu þrjú árin. Ég held að ákvæði af þessum toga muni seint fara óbreytt í gegnum þingið enda sagði varaformaður hv. sjútvn. að hann teldi að hér stefndi í stórslys sem koma yrði í veg fyrir. Ég lít svo á að hann tali þar sem forustumaður stjórnarþingmanna í sjútvn. Þar sem ég sit í sjútvn. fæ ég ágætt tækifæri til að skoða þetta en það er hætta á því, virðulegi forseti, að verði þessi frv. óbreytt að lögum, þá muni það leiða til þess að aflaheimildir færist á fáar hendur og störfum í sjávarútvegi muni fækka til mikilla muna.

Kannski hefur hæstv. sjútvrh. stefnt að þessu núna leynt og ljóst um árabil. Kannski verða eftirmæli hans sem sjútvrh. þau að hann hafi nánast lagt einstaklingsútgerð í landinu í rúst og komi upp fiskveiðistjórnarkerfi sem er orðið svo mikið um sig og flókið, fullt af nefndum, ráðum, stofnunum o.s.frv. að erfitt verði fyrir landbrh. að keppa við þau ósköp.