Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 17:43:22 (5169)

1998-03-25 17:43:22# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[17:43]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Í dag hefur nokkuð verið rætt um aðdraganda þess að inn í þingið er komið frv. um kjaramál fiskimanna. Fyrr í dag hélt ég því fram að það væri beinlínis búinn að vera ásetningur hæstv. ríkisstjórnar að setja lög um kjaramál sjómanna. Í sjálfu sér ekki hægt að lesa þessa atburðarás öðruvísi.

[17:45]

Það hefur ítrekað verið bent á það hversu stutt þetta verkfall eða uppihald hefur verið, hversu lítil þolinmæði hefur verið sýnd sjómönnum, hversu lítið svigrúm þessum aðilum hefur verið gefið til að klára sinn kjarasamning sjálfir.

Menn hafa líka bent á það eðlilega og er ekkert ofsagt í þeim efnum, hvaða umgjörð sjómenn hafa haft, hvernig aftur og aftur hefur verið gripið inn í kjaradeilur þeirra og hvernig þeim hefur ýmist verið lofað eða hótað til að það mætti verða sem nú er fram komið, að kjaramálum yrði klárlega skipað með lögum og að ekki fengjust niðurstöður úr eðlilegum kjarasamningaviðræðum.

Við hljótum að velta því fyrir okkur þegar málið er komið á þetta stig, um hvað þessi deila sjómanna og útvegsmanna snýst í raun og veru. Hún snýst fyrst og fremst um það, herra forseti, að útgerðarmenn standi við lög og kjarasamninga. Hún snýst ekki um kauphækkanir, eins og menn eiga þó að venjast í okkar samfélagi. Hún snýst fyrst og fremst um að útgerðarmenn standi við lög og kjarasamninga, lög um að þeir tryggi sjómönnum ávallt hæsta verð fyrir aflann og það ákvæði kjarasamninga að ekki megi með neinum hætti láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum útgerðar. Krafa sjómanna er því réttlætiskrafa og stjórnvöld hefðu, ef þau hefðu viljað, fyrir löngu getað verið búin að breyta starfsumhverfi sjávarútvegsins þannig að deilan um verðlagningu sjávarafla hleypti ekki samskiptum sjómanna og útvegsmanna reglulega í harðan hnút. Það er nefnilega svo að stór hluti starfsumhverfis útgerðarmanna og sjómanna er bundinn í lögum. Sjómenn hafa lengi verið ósáttir við þetta umhverfi og það hafa skapast um það deilur, og dregið hefur til verkfalla vegna þess hve sjómenn hafa verið ósáttir við kvótabrask og viðskipti sem einstaka útgerðarmenn hafa verið að eiga við sjálfa sig.

Ég heyrði að hv. þm. Hjálmar Árnason talaði áðan um kvótabrask eins og honum væri ekki alveg ljóst við hvað væri átt. Ég hélt hins vegar að öllum væri ljóst að þegar verið er að ganga á kjarasamninga og brjóta lög er klárlega um kvótabrask að ræða. Ég hélt að enginn alþm. þyrfti útskýringu á því, ekki í dag, svo mjög hefur þetta verið rætt.

Herra forseti. Óbreytt starfsumhverfi hefur þjónað útgerðarmönnum, enda hefur málflutningur þeirra ekki bent til þess að þeir kærðu sig um miklar breytingar, eða að þeir sjái stóra skugga á því ástandi sem verið hefur. Og það er svo merkilegt að þeir virðast ráða vilja stjórnvalda þegar kemur að starfsumhverfi sjávarútvegsins. En átök um verðmyndun á sjávarafla hafa nú leitt til þriggja verkfalla, og afskipta stjórnvalda með einhverjum hætti hverju sinni. Þessi deila hefur staðið óleyst um árabil, hvað sem öllum nefndum og regluverki líður. Krafa sjómanna um að staðið verði við lög og kjarasamninga hefur verið sett út af borðinu aftur og aftur.

Hæstv. sjútvrh. fór yfir þessa sögu fyrstur manna í dag þegar hann las fyrir okkur þá greinargerð sem fylgir með frv. um kjaramál fiskimanna. Þetta er sorgarsaga, herra forseti, og það er nöturlegt að hverju sinni þegar farið hefur að reyna á verkfallsvopnið og það gat hugsanlega farið að bíta hefur verið gripið inn í. Þá hefur verið passað upp á að ekki yrðu samningsniðurstöður sem ekki pössuðu einhverjum. Já, sjómenn hafa viljað láta standa við það að þeir fengju hæsta verð fyrir aflann, eins og segir í lögum. Útgerðarmenn hafa sagst vilja frjálst fiskverð, en þessi orð ,,frjálst fiskverð`` hafa sannarlega fengið nýja merkingu á undanförnum árum. Vegna þess að í framhaldinu hafa býsna margir spurt, frjálst fyrir hverja? Það er alveg ljóst að útgerðarmenn hafa talið að það ætti að vera frjálst fyrir sig og stundum farið frjálslega með það meinta frelsi. En frelsi eins hóps getur aldrei byggt á því að hann sniðgangi kjarasamninga og lög. Frelsi eins nær aldrei lengra en að rétti þess næsta. Um leið og einn aðili nýtir meint frelsi sitt til að brjóta á rétti annars er hann farinn að misbeita rétti sínum og grafa undan honum. Þvingaðir samningar þar sem farið er fram hjá kjarasamningum eru slík misnotkun. Þeir eru ekki frjálst fiskverð. Það er þess vegna, herra forseti, sem sjómenn hafa aftur og aftur farið í verkfall. Aftur og aftur gert þá aðalkröfu að staðið væri við lög og kjarasamninga eða að búinn verði til farvegur til að svo mætti verða. Það er merkilegt hve sjálfsagt það hefur þótt að ein stétt manna skuli ítrekað þurfa að sækja svo sjálfsögð mannréttindi með því neyðarúrræði sem verkfall er, og hve viljug ríkisstjórnin hefur verið að koma í veg fyrir að þeir fái notið þeirra sjálfsögðu mannréttinda að lög og kjarasamningar þeirra séu virtir. Það er í raun furðulegt hve sjómenn hafa verið seinþreyttir til vandræða en maður veltir því líka fyrir sér: Á hvað eru útgerðarmenn að horfa þegar þeir eru að meta sína hagsmuni? Vinnufriður við sjómenn hefur ekki komist ofarlega á það blað, enda hafa þeir greinilega getað treyst því að ríkisstjórnin bjargaði þeim út úr formlegum átökum við þann hóp, áður en reyna fer á og þannig bjargað þeim frá óvelkomnum samningsniðurstöðum. En miðað við málflutning þeirra, herra forseti, hefði þó mátt ætla að þeir teldu það til nokkuð brýnna hagsmuna sinna að kvótakerfið yrði áfram við lýði og það án mikilla breytinga. Útvegsmönnum hefur eigi að síður tekist að egna svo á móti sér, bæði sjómenn og stóran hóp landsmanna, að pælingar í þá veru að breyta kvótakerfinu, jafnvel afnema það, hafa á síðustu árum heyrst úr hinum ólíklegustu áttum.

Það er ljóst, herra forseti, að stjórnmálamenn hafa ekki nema takmarkað viðnám gagnvart kjósendum sínum og sá þröskuldur lækkar eftir því sem nær dregur kosningum. En ríkisstjórnin með þá Þorstein og Davíð í broddi fylkingar hefur hjálpað til við að magna upp óánægjuna ...

(Forseti (GÁ): Forseti minnir hv. þm. á að fylgja reglum þingskapa um ávörp.)

Herra forseti. Ég tel mig hafa gert það. Ég hef verið að beina máli mínu til hæstv. forseta, en hef nefnt bæði ríkisstjórnina og ráðherra. Ég hygg að ljóður minn liggi í því að ég hafi ekki sagt að þeir væru hæstv. en mun halda mig við það þá með góðri hjálp forsetans.

(Forseti (GÁ): Það er samkvæmt þingsköpum.)

Einmitt, ég mun reyna að halda mig við þingsköp, herra forseti. En það er einmitt vegna þess að hæstv. ríkisstjórn með hæstv. sjútvrh. og forsrh. í broddi fylkingar hefur magnað upp óánægjuna með því að standa vörð um hagsmuni útgerðarmanna sama hvað á dynur. Með því að styðja þannig sérhagsmuni hefur safnast upp mikil óánægja með þetta kerfi. Eðlilega hanga útgerðarmenn á sínum sérréttindum og möguleikum eins og hundar á roði og það er eðlilegt að þeir verji hagsmuni sína. Það er verra þegar stjórnmálamenn gleyma sér við að verja slíka hagsmuni.

Sjómenn hafa farið fram á að staðið verði við kjarasamninga og lög og hafa bent á leiðir til þess. Þeir hafa bent á þá leið að afli fari um markað, að verð á afla myndaðist á fiskmarkaði eða að verðið yrði markaðstengt sem í raun myndaðist af markaði. Gegn þessu hafa útgerðarmenn barist með oddi og egg. Þeir hafa alfarið verið á móti því að afli væri seldur um fiskmarkaði, a.m.k. nógu stór hópur þeirra, alla vega þeir sem ráða forustunni í LÍÚ. Það hefur heldur ekki náðst samstaða um það að verð myndaðist með tilliti til þess verðs sem gengur á markaði. Auðvitað hafa menn velt því fyrir sér, herra forseti, af hverju útgerðarmenn vilja ekki láta verð á afla myndast á markaði. Menn hafa jafnvel spurt: Af hverju vilja útgerðarmenn ekki hæsta verð fyrir fiskinn? Vegna þess að það verð sem fæst fyrir aflann myndar ekki bara hlut sjómanna, heldur líka hlut útgerðar. Af hverju vill útgerðin ekki rétt verð eða það verð sem markaðurinn setur á aflann? Fyrir því eru nokkrar ástæður og sú sem liggur beinast við er sú að mjög stór hópur þeirra er líka fiskverkendur. En þeir útgerðarmenn eru líka til sem selja allan afla sem þeir fá á markaði og kaupa líka á markaði, sérhæfa sig þannig og gengur býsna vel. Aðrir hafa kosið að selja frekar fiskinn óveiddan í sjónum, versla með kvótann, jafnvel braska eins og hér hefur verið rætt um og reynt þannig að hafa eitthvað upp úr krafsinu. Það hefur verið þeirra leið til að sérhæfa vinnslu sína og veiðar en það hefur einmitt verið slagorðið undanfarin ár, herra forseti, að menn þyrftu að auka sína sérhæfingu, bæði í veiðum og vinnslu.

En það eru líka útgerðarmenn, sem jafnframt eru fiskverkendur, sem taka megnið af þeim afla sem þeirra skip fá til vinnslu en hinar vaxandi kröfur um framleiðni og sérhæfingu sjá til þess að slíkt er í raun á undanhaldi í bolfiskinum. Við þessa flóknu hagsmuni útgerðarmanna eru sjómenn síðan að slást þegar þeir eru að berjast í því að staðið sé við lög og kjarasamninga, en það eru einmitt þessi gráu svæði þegar útgerðarmaðurinn er að versla við sjálfan sig, fiskverkandann, með afla eða selja og kaupa kvóta sem þarf að skýra hlutina.

Herra forseti. Það væri auðvitað einfaldast að selja um markað eða markaðstengja verðið á aflanum því þá er allt uppi á borði og fiskverðið rétt, en gegn því er allt tínt til. Okkur hefur meira að segja verið sýnt lögfræðiálit sem segir okkur að það megi ekki, því þá sé ekki víst að útgerðarmaðurinn geti nýtt fjárfestingar sínar í landi. Útgerðarmaðurinn virðist hins vegar einn og sjálfur ráða því hvort hann vill nýta þessar fjárfestingar og þá þarf hann ekki að taka tillit til annarra. Með þessu er verið að segja okkur að til að útgerðarmaðurinn, sem fiskverkandi í þessu tilfelli, þurfi ekki að láta reyna á hvort hann sé sá sem gerir mest verðmæti úr aflanum og getur þess vegna greitt hæsta verð, þá sé rétt að banna að á það verði látið reyna. En þarna stangast kjarasamningar sjómanna og lög á við niðurstöður lögfræðiálitsins, því samkvæmt kjarasamningum og lögum ber útgerðarmanni að greiða sjómanni hæsta verð fyrir aflann. Lögfræðiálitið sem veifað hefur verið segir hins vegar að til að útgerðarmaður geti nýtt fjárfestingar sínar í landi megi ekki gera þær kröfur til hans. Þarna er atriði, herra forseti, sem þyrfti að athuga nánar. Hvort á að vera rétthærra, hinn meinti réttur útgerðarmanns til að nýta fjárfestingar sínar í landi eða þau lög sem gilda um sjómenn?

En það er líka fleira og stærra sem hangir á spýtunni. Ef allur afli færi um markað þannig að ekki lægi fyrir eins og nú þegar kvótaárið byrjar, hver kæmi til með að selja afurðirnar sem verða úr aflanum, þyrftu seljendur jafnvel að fara að keppa meira og standa sig betur. Ef ekki væri lengur hægt að kaupa meiri hluta í frystihúsi sem er hluti af fyrirtæki með góðan kvóta og tryggja sér þannig sölu afurðanna og milliliðastarfsemina væri auðvitað vá fyrir dyrum hjá ýmsum voldugum aðilum í samfélaginu. Og hvers mega sjómenn sín gagnvart þeim hagsmunum hjá hæstv. ríkisstjórn?

[18:00]

Það er nefnilega svo að ef ráðstöfunarréttur útgerðarinnar, sem er í raun vinnsluréttur líka, yrði tekinn af henni með því að allur afli færi um fiskmarkað og allir fiskverkendur yrðu síðan að keppa um aflann og enginn hefði einokun á neinu þá mundi verðið á kvótanum lækka því í dag eru menn ekki bara að kaupa sér veiðirétt með kvótakaupum, menn eru í raun líka að kaupa vinnslurétt. En ef menn yrðu að kaupa hann með kaupum á afla á markaði, þá yrði virði kvótans auðvitað minna.

Hagsmunirnir liggja að hluta til í því, herra forseti, að kvótavirðið er sá gullfótur sem virði hlutabréfanna byggir á og þar með staða fyrirtækjanna á verðbréfamörkuðum. Það eru auðvitað gríðarlegir hagsmunir að halda þessu óbreyttu. En sú einokun sem ríkir innan þessa skipulags er andstæð bæði hagsmunum sjómanna og verkafólks.

Til þess að viðhalda þessu ástandi, herra forseti, hafa menn skipað úrskurðarnefndir og sett á flókin regluverk og enn á að halda áfram á þeirri braut. Það er samt alveg ljóst að úrskurðarnefndir og regluverk koma seint í stað þeirrar einu aðferðar sem til er svo útgerðarmenn standi við lög og samninga sjómanna. Það er ekkert flóknara en svo að til að sjómenn fái rétt verð fyrir sinn hlut þá verður að leyfa því að myndast á markaði. En útgerðarmenn með stuðningi Sjálfstfl. hafa verið á löngum flótta undan því að markaðurinn fengi að ráða, að markaðurinn fengi að verðleggja þessa vöru. Á meðan hafa sjómenn verið hlunnfarnir. Á meðan hefur ríkt órói og tortryggni í samskiptum aðila og á meðan hefur ekki verið vinnufriður.

Gerðar hafa verið margar tilraunir víða um heiminn til að komast hjá því að láta markaðinn verðleggja vöru. Það er ekki aðeins að heil kenningakerfi hafi verið smíðuð til að sanna að betra sé að láta markaðinn ekki koma nærri verðlagningu vörunnar. Heimsveldi hafa byggst á því að forðast að láta markaðinn ráða verðlagningu. Nefndir og regluverk hafa átt að sjá um þá hlið viðskipta. Flestir eru nú sammála um að tilgangslaust sé að hafa þessa tilraun hér á landi öllu lengri, það sé í raun fullreynt. En Sjálfstfl. og útgerðarmenn eru ekki á því að fullreynt sé og til að ekki færi nú að reyna á samningsaðila var talið vissast að banna verkfall sjómanna í tíma og skipa kjörum þeirra með lögum. Það má fresta markaðslausnum enn um sinn, herra forseti, en hver lætur sig dreyma um annað en að það verði frestur?

Hér liggja fyrir og eru rædd öll í senn fjögur frv. Það er í fyrsta lagi frv. til laga um kjaramál fiskimanna. Það er frv. sem lögbindur kjör sjómanna í tvö ár. Það er frv. sem gerir það að verkum að sjómenn geta ekki hreyft sig til þess að bæta aðstæður sínar næstu tvö árin. Það er frv. sem á að koma í veg fyrir að verkfall nái að bíta.

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með tilraunum hæstv. ríkisstjórnar til að koma lögum yfir sjómenn. Ég talaði fyrr í dag um flumbrugang og það hefur verið nöturlegt að fylgjast með því hversu mikill asinn hefur verið. Svo mikið lá á í febrúar að það átti að lögfesta bann við verkfalli sjómanna þannig að þeir hefðu ekki einu sinni svigrúm til að bregðast við þeim aðstæðum sem upp voru að koma. En sem betur fer háttaði þannig til að hæstv. ríkisstjórn varð að draga það frv. til baka og sjómenn fengu sjálfir að ráða atburðarásinni um hríð.

Aftur var komið fram með frv. en þá tókst ekki betur til en svo að textinn gerir ráð fyrir mun víðtækari kjaraáhrifum en reiknað hafði verið með, eins og hæstv. sjútvrh. orðaði það. Það var merkilegt að hæstv. sjútvrh. skyldi þurfa að koma hér við upphaf atkvæðagreiðslunnar í dag og segja þingheimi og þjóðinni að hæstv. ríkisstjórn hafi alveg óvart ætlað sér að ganga mun nær sjómönnum og kjörum þeirra með þessu frv. en þeir höfðu kannski hugsað sér. Eða hvað? Hafði einhver talað um fyrir þeim í millitíðinni? Höfðu sjómenn e.t.v. gert það eins og síðast? Það er alveg ljóst, herra forseti, að það þarf að hægja á atburðarásinni þegar komið er í þessa stöðu. Það hafa dæmin sannað ítrekað. Það þarf að bremsa þessa menn af og biðja þá um að hugsa sig um aftur. Það sáum við fyrst í febrúar og það sáum við aftur við meðferð þessa frv. sem hér liggur fyrir.

Það er nöturlegt að frv. skuli liggja fyrir og ég er alls ósammála því mati, herra forseti, að aðstæður hafi verið orðnar slíkar að þær hafi kallað á frv. af þessu tagi. Það er í rauninni fráleitt að halda því fram. Hins vegar er umhugsunarefni hvort ríkisstjórnin með aðgerðum sínum og hvort einstaka ráðherrar með orðum sínum séu búnir að koma málum í það horf að sjómenn og útgerðarmenn geti hreint og klárlega ekki samið um þessi kjör, þeir fái ekki frið til þess og þeim séu ekki skapaðar til þess aðstæður. Það er vítavert, herra forseti.

Ég held samt miðað við þær aðstæður sem nú eru á vinnumarkaði og eru í raun gjörbreyttar, þær aðstæður sem nú hafa framkallað mun meiri ábyrgð hjá þeim sem gera þar sína samninga, að þær eigi líka að ná til sjómanna og útvegsmanna. Það hefði verið mun betra og það hefði auðvitað átt að láta þessa aðila leiða sínar deilur til lykta með kjarasamningi. Það var hæstv. ríkisstjórn hins vegar ekki tilbúin til að gera og þess vegna sitjum við uppi með þetta frv.

Þá komum við að frv. þremur sem voru samin af svokallaðri embættismannanefnd, þríhöfðafrumvörpunum. Menn hafa sagt í dag að bæði innihald frv. um kjaramál fiskimanna, þvingunarfrumvarpsins, og þessara þríhöfðafrumvarpa væri sniðið að vilja sjómanna. Herra forseti. Ég held að ekkert sé fjær sanni. Það hefur ítrekað komið fram að innihald þessara þriggja frv. er ekki í samræmi við kröfur sjómanna. Þar er ekki búinn til sá farvegur sem sjómenn báðu um til þess að réttlæti yrði í því hvernig verðlagning er á afla. Það var hins vegar mat þeirra að ekki yrði lengra komist og að hér væri þó verið að gera tilraun til þess að sníða af tiltekna ágalla og það var orðað eitthvað á þann veg að menn væru tilbúnir til að gera þá tilraun að þessi frv. yrðu að lögum og við þau yrði unað.

Frv. um Verðlagsstofu skiptaverðs er greinilega það frv. sem menn binda mestar vonir við, kannski vegna þess að þar eru ákvæði um aðgerðir sem hægt er að fara í. Sjómenn segja að kostir frv. séu fyrst og fremst þeir að sjómennirnir, þeir sjálfir eða einstakar áhafnir, þurfi ekki að vera formlegir kærendur til að mál verði rannsökuð vegna þess að Verðlagsstofan getur skoðað mál að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingum. Mér heyrist því á þeim sjómönnum sem við mig hafa talað að þeir telji þetta frv. líklegast til að verja þá gegn kvótabaski. En sú hugsun hlýtur að hvarfla að manni þegar frv. er lesið hvort ekki hefði verið einfaldast að fela rannsóknarlögreglunni þetta hlutverk. Stóra bróður er nefnilega ætlað býsna víðfeðmt hlutverk með þessu frv. og það er greinilega álit nefndarinnar sem samdi frv. að það þurfi að fylgjast með atferli Kristjáns Ragnarssonar og félaga dag og nótt, og að jafnvel bankaleynd skuli aflétt til að eftirlitið geti orðið sem nákvæmast. Þetta er e.t.v. nauðsynlegt. Og eins og ég sagði, hæstv. forseti, hafa sjómenn sagst vera tilbúnir til að gera tilraun með þetta fyrirbæri og jafnvel látið sig dreyma um að þarna væri komin ákveðin lausn hvað það varðar að minnka tilraunir útgerðarmanna til kvótabrasks. Það er líka reynt að sníða burt ágalla þess að verðlagning á afla er ógegnsæ vegna þess að verðmyndun á afla er ekki nema að litlum hluta gegnum fiskmarkað. Hér á landi, herra forseti, fer lægra hlutfall af fiski gegnum fiskmarkaðinn en hjá öðrum þjóðum sem búa við markaðskerfi.

Það er svolítið merkilegt að velta því fyrir sér að það skyldi einmitt verða niðurstaða nefndarinnar að hafa afskipti af viðskiptum með kvóta frekar en að hafa afskipti af viðskiptum með afla. Ég fór áðan yfir það hvaða hagsmunir eru fólgnir í því að hafa það kerfi óbreytt og mér sýnist að niðurstaða embættismannanefndarinnar geri ekki annað en staðfesta það sem ég rakti áðan.

Þá komum við að frv. um Kvótaþingið sem á að gera viðskipti með kvóta gegnsærri. Það er svolítið merkilegt að horfa til þess að niðurstaðan skyldi einmitt verða sú að það þyrfti að gera viðskiptin með kvótann gegnsæ. En varðandi þetta frv., herra forseti, þá vil ég benda á að það tekur að hluta á þátttöku sjómanna í viðskiptum með aflaheimildir, ekki að öllu leyti, en gildandi lög um stjórn fiskveiða --- og nú vík ég að þriðja frv. sem er um breytingarnar á stjórn fiskveiða --- voru að mörgu leyti með ákveðinni vörn fyrir sjómenn vegna þess að þegar viðskipti fóru fram með aflamark, þá þurftu bæði sveitarstjórn og stjórn sjómannafélags viðkomandi verstöðvar að koma með umsögn um það mál þannig að það var farvegur fyrir ákveðið eftirlit. Kvótaþingið gerir hins vegar annað og meira eða eins og segir í 15. gr., með leyfi hæstv. forseta:

,,Kvótaþing skal daglega birta aðgengilegar upplýsingar um viðskipti, þar á meðal um viðskiptaverð, heildarmagn og verðmæti, allt eftir tegundum.``

Hér segir: ,,birta daglega``, herra forseti. Ég sé fyrir mér að þessar upplýsingar verði hluti af öllum viðskiptahornum fjölmiðlanna. En eins og menn hafa séð undanfarið þá fjölgar þeim. Þeir sem vilja kalla sig fjölmiðla með fjölmiðlum eru allir komnir með viðskiptahorn þar sem við fáum að vita um öll viðskipti með hlutabréf á hverjum degi. Ég sé fyrir mér að þessi viðskiptahorn muni samviskusamlega segja okkur hverjir eigi viðskipti með kvóta og jafnframt hversu miklir peningar séu í umferð.

Bara á síðasta ári, herra forseti, var verðmæti þess sem fór á milli óskyldra aðila á kvótamarkaði 8,5 milljarðar. Til eru upplýsingar sem hafa komið fram um kvótaviðskipti og umfang þeirra. Það er ljóst að þessi viðskipti hafa á hverju ári skipt milljörðum og miðað við þær umsagnir sem fylgja frv. um Kvótaþing gera menn ekki ráð fyrir því að þau minnki heldur er sú skoðun sett fram að tilvist markaðarins muni e.t.v. kalla á enn meiri viðskipti.

[18:15]

Herra forseti. Ég held að þegar þjóðin fer að upplifa það reglulega og sjá og heyra af því hversu mikla peninga útgerðarmenn eru tilbúnir til þess að greiða hverjir öðrum fyrir veiðleyfi, fyrir aflaheimildir, þá muni enn herða á kröfunni um að útgerðarmenn greiði þjóðinni eitthvað, hinum lögformlega eiganda auðlindarinnar. Ég held að ekki geti farið hjá því auk þess sem mér sýnist, herra forseti, að Kvótaþingið geti verið mjög eðlilegur vettvangur ef sú ákvörðun yrði tekin að taka hér upp veiðileyfagjald eða að hið opinbera færi að selja veiðiheimildir, þá gæti Kvótaþingið verið hinn eðlilegi farvegur fyrir slíka sölu. Frv. um Kvótaþing hefur því ýmsar hliðar.

Þá erum við komin að þriðja frv. sem er breyting á lögunum um stjórn fiskveiða þar sem fjallað er um veiðiskylduna. Ýmsir hafa talað um að auka þyrfti veiðskylduna. Það mál hefur margoft verið rætt á hv. Alþingi og ef ríkisstjórnin hefði haft á því nokkurn áhuga hefði hún getað verið búin að lögfesta fyrir löngu meiri veiðiskyldu. Svo mörg frv. hafa verið flutt hér um það. Það hefur hins vegar ekki verið gert fyrr en nú og þá með því sniði að útgerðarmenn verða að veiða 50% af þeim veiðiheimildum sem þeim eru úthlutað á hverju ári í stað annars hvers árs. Þetta eru litlar breytingar að mati ýmissa og sumir í röðum sjómanna telja þetta ekki merkilegt framlag. Aðrir eru tilbúnir að sætta sig við þessa breytingu þó þeim þyki hún ganga í takmarkaða átt.

Herra forseti. Eins og ég hef áður sagt þá hafa sjómenn sagst vera tilbúnir til að undirgangast þær breytingar sem felast í lögfestingu frv. þriggja og þeir hafa satt að segja bundið nokkrar vonir við það að frv. yrðu lögfest og það yrði farið í þessa tilraun. Þess vegna er mjög mikilvægt hvernig þessi mál verða unnin í þinginu.

Ég er ekki sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar, að þessar tillögur dragi taum sjómanna. Það er langt í frá. Eins og þeir hafa sjálfir lýst yfir þá er ekki verið að taka sérstaklega á kröfum þeirra. Hins vegar, herra forseti, kölluðu útgerðarmenn þessar breytingar yfir sig og þeir mega í rauninni þakka fyrir að ekki skuli gengið enn frekar á þeirra hlut. Þeir kölluðu þessar breytingar yfir sig með óbilgirni í garð sjómanna, með því að nýta allar þær glufur sem eru í lögunum um stjórn fiskveiða til að skara eld að eigin köku og með því, í því miður allt of mörgum tilfellum, að virða ekki samninga sjómanna né þau lög sem eiga að skapa kjaraumhverfi þeirra. Það er því, herra forseti, á ábyrgð útgerðarmanna að þessi þrjú frv. liggja fyrir þinginu með því innihaldi sem þau hafa. Mér sýnist þess vegna að þeir verði að sætta sig við innihaldið rétt eins og sjómenn, hvernig svo sem þeir kunna við það.

Ég á sæti í hv. sjútvn. og mun taka þátt í því að fjalla um frv. þar. Ég tók þess vegna vel eftir þeim skilaboðum sem hæstv. sjútvrh. flutti nefndinni fyrr í dag þegar hann mælti fyrir frumvörpunum og svaraði spurningum þeirra þingmanna sem kusu að beina til hans spurningum strax að lokinni ræðu hans. Skilaboð hans til nefndarinnar voru einföld, herra forseti. Hæstv. sjútvrh. fer í fyrsta lagi fram á að nefndin geri tillögu um breytingu á 2. gr. frv. því eins og ég gat um áðan þá kom fram í máli hans að kjaraáhrifin yrðu víðtækari en að var stefnt ef greinin færi óbreytt í gegn. Skilaboð hans voru að þau ættu einungis að ná til rækjuveiða.

Í öðru lagi sagði ráðherrann hér fyrr í dag, aðspurður, að breytingar á frv. þremur sem komu frá embættismannanefndinni ættu að einskorðast við tæknilega galla sem kynnu að vera á þeirri lagasmíð. Ég ætla að endurtaka þetta, herra forseti.: ,,að breytingarnar ættu að einskorðast við tæknilega galla``. Ég geri ráð fyrir því, af því að ríkisstjórnin er með meiri hluta í hv. sjútvn., að niðurstaðan verði þá að nefndin lesi frumvörpin í þaula og leiti þar tæknilegra galla og þeir verði sniðnir af, kannski einhverjar kommusetningar eða þess háttar tæknilegir gallar, og síðan verði frv. lögfest eins og þau liggja fyrir núna hvað varðar efni og innihald.

Ég hef tekið eftir því að menn hafa í dag verið að lýsa yfir áhyggjum af því hvaða áhrif einstök atriði þessara laga kunna að hafa. Það er alveg ljóst að hver einasta breyting sem gerð er á lögunum um stjórn fiskveiða hefur mikil áhrif. Þar hafa ýmsar breytingar sem litu út fyrir að vera smávægilegar leitt til mikilla breytinga. Ég hef líka, herra forseti, áhyggjur af ýmsu sem þessi ákvæði kunna að leiða af sér. En ég hef heldur ekki verið sátt við margar breytingar sem hæstv. ríkisstjórn hefur haft forgöngu um að gera á lögunum um stjórn fiskveiða undanfarin ár eða öðrum lögum sem snúa að umhverfi sjávarútvegsins. Ég hef haft áhyggjur af því hvernig þær breytingar hafa verið gerðar oft af fullkomnu tillitsleysi við þá sem við eiga að búa og hafa kannski hert frekar á þeim hnúti sem hefur verið í samskiptum sjómanna og útvegsmanna.

En eins og ég sagði, herra forseti, þá hafa sjómenn sagst vera tilbúnir til að búa við það sem hér stendur til að lögfesta og útgerðarmenn bera ábyrgð á því að þessi frv. eru komin inn í þingið. Mér sýnist því að eftir að nefndin hefur leitað tæknilegra ágalla (Forseti hringir.) þá muni þessi frv. koma hér aftur inn og verða lögfest eins og þau liggja fyrir.