Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 18:50:51 (5174)

1998-03-25 18:50:51# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, KPál
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[18:50]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég lofa því að tala ekki í 40 mínútur. Ég vil segja að það hryggir mig ávallt þegar upp kemur sú staða að setja þurfi lög á vinnudeilur, sama hvar þær eru, hjá sjómönnum eða annars staðar í þjóðfélaginu og sérstaklega hryggir mig að það skuli ítrekað þurfa að setja lög á deilur sem eiga sér stað milli útgerðarmanna og sjómanna. Reyndar er ekkert nýtt að sett séu lög á deilu sjómanna sérstaklega en það sem er nýtt í þessu dæmi er að verið er að setja lög á útgerðarmenn. Vona ég að þinginu verði fyrirgefið þótt það reyni með þessu móti að leysa þá deilu sem er virkilega erfið og var ekki fyrir séð að mundi leysast af samningamönnum á næstu vikum eða mánuðum þannig að í þessu tilfelli brýtur nauðsyn þá hefð sem þarf að vera að aðilar á vinnumarkaði og verkalýðsfélög leysi sitt við samningaborðið.

Þau frv. sem hafa verið lögð fyrir þingið eru í mínum huga leið til þess að bæta stöðu sjómanna sem hafa verið afskaplega óánægðir með viðskipti sem hafa átt sér stað um að kaupa aflaheimildir um borð í skip til að geta haldið veiðum áfram. Ég tek fram að það sem ég hef kynnst í þessum málum er að mestu leyti í mikilli sátt við sjómenn en til eru dæmi þess að gengið hefur verið mjög á hlut sjómanna og þá fyrst og fremst í viðskiptum sem hafa falist í því að útgerðarmenn hafa selt aflaheimildir af skipi sínu og keypt þær svo til baka af einhverjum öðrum með aðild sjómanna. Hefur þetta ávallt verið mér mjög mikill þyrnir í augum og nánast óverjandi að slík viðskipti hafi yfirleitt átt sér stað. Ég tel að þessi viðskipti hafi í raun komið öllum illa þegar til lengdar er litið og kvótakerfið sem ég held að margir séu sammála um að hafi reynst farsælt fiskstjórnarkerfi hafi liðið stórlega fyrir það hvernig hafi verið með ýmsu móti svínað á sjómönnum.

Þetta framferði leiðir nú til þess að þingið neyðist til að grípa inn í með þeim frv. sem hér eru til umræðu og munu a.m.k. leiðrétta það að svokallað kvótabrask, getur ekki gerst öðruvísi en fyrir opnum tjöldum.

Þetta hefur svo aftur aðrar afleiðingar sem ég hef bent á opinberlega og hefur fyrst og fremst áhrif á ákveðnum svæðum landsins sem hafa neyðst til að kaupa sér aflaheimildir, leiguheimildir innan ársins til að geta haldið skipum sínum úti og það hefur verið heiðarlega gert. Samkvæmt þeim lögum sem eru nú lögð fram mun ekki verða hægt að gera það með sama hætti, þótt ekkert banni það í raun að sjómenn kaupi leigukvóta með útgerðarmönnum sínum en þá verður það gert fyrir opnum tjöldum þannig að ekkert fer milli mála að sjómenn hafa þá valið að gera það. Ekki það að ég sé að mæla með slíku, auðvitað er eðlilegast og best að útgerðin geri þetta sjálf en ekkert bannar þó slík viðskipti ef í nauðirnar rekur og allir aðilar eru sammála um slík viðskipti.

Það á eftir að koma í ljós hvaða afleiðingar þetta hefur, herra forseti, og ég hef verulegar áhyggjur af því að þetta geti haft a.m.k. tímabundnar afleiðingar á Suðurnesjum og mönnum reynist jafnvel erfitt að fá það aflamark sem þeir þurfa til að halda úti skipum sínum og halda úti eðlilegri vinnslu í húsum. Ég óttast jafnvel að framboðið verði það lítið að leiga á aflaheimildum verði enn dýrari en hún hefur verið. Það gæti einnig leitt til þess að eftirspurn eftir varanlegum aflaheimildum verði meiri og það hækki enn verð á varanlegum aflaheimildum. Það held ég sé í rauninni þvert á það sem menn höfðu hugsað sér en ég held því miður að sú geti orðið raunin en það er eitt af því sem verður að koma í ljós með þessum lögum enda hefur enginn getað spáð í það fram að þessu hvernig kvótamarkaðurinn hefur þróast. Ég minnist þess að ýmsir héldu því fram að þegar viðskipti sem fólust í því að svokallaður línutvöföldunarpottur var við lýði legðust af mundi kvótaleigan lækka en raunin varð sú að það hafði engin áhrif og eftir það hefur kvótinn reyndar hækkað.

Ég held, herra forseti, að eftir að þær yfirlýsingar sem hafa komið frá hæstv. sjútvrh. um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem felast í fækkun í áhöfn sem voru í lögunum og áttu ekki að hafa áhrif á útgjöld útgerðar vegna launa, eftir að það var tekið út, eigi sá hluti þessara frv. að geta verið nokkuð ásættanlegur fyrir sjómenn. Út af fyrir sig verður engin breyting fyrir útgerðarmenn en þeir hafa að sjálfsögðu alla möguleika til að reyna að ná samningum við sjómenn á þessum tíma til að mæta tæknibreytingum eða öðrum breytingum sem verða á veiðiháttum til að gera útgerðina hagkvæmari en þessi tveggja ára lögbinding þýðir að sjálfsögðu að ekkert gerist á þeim tveimur árum sem fram undan eru.

Það er eitt sérstakt atriði sem ég tel að þurfi að skoða sérstaklega í hv. sjútvn. og það er svokölluð veiðiskylda sem samkvæmt þessu frv. á að verða 50% á ári. Ég held að mjög margir séu sammála um að það eru mjög hörð skilyrði sem útgerðinni eru sett með þessu frv. sem geta leitt til þess að hagræðing og hagkvæmni veiðanna verður minni vegna þess að menn verða að veiða verulegan hluta aflans, a.m.k. helminginn, mjög fljótlega á fiskveiðiárinu til að vera alveg tryggir um að tapa ekki veiðirétti sínum og aflahlutdeild. Eins og hefur komið fram í dag þýðir að tapa þessu frá sér að varanlegar aflahlutdeildir verða ekki aftur á þessu skipi og að það hverfur út úr landhelginni. Það þýðir að ef slíkt skip vildi koma inn að þremur árum liðnum þarf að kaupa nýja rúmmetra á móti. Þetta er í raun ekkert annað en hrein eignaupptaka sem ég efast um að standist og hvet því hv. sjútvn. til að skoða þetta mjög rækilega í ljósi þessa. Engum er greiði gerður með því að gera útgerðina gjaldþrota eða koma útgerðarmönnum í þann vanda að þurfa að fara að velja á milli þess að selja allt frá sér eða þurfa að sæta afarkostum.

[19:00]

Það er miklu nær að þetta sé gert þannig að öllum sé hagur að, þ.e. útgerðarmönnum, sjómönnum og þjóðinni þá um leið. Ég vonast því til þess að eftir að búið er að gera þær lagfæringar sem mælst hefur verið til að verði á kaflanum um áhafnamálin og stjórn fiskveiða og þegar búið er að skoða þær breytingar sem verið er að tala um í veiðiskyldunni eigi þessi frumvörp að geta verið sæmileg leið til þess að skapa sátt hjá þjóðinni og sjómönnum um þetta kerfi þannig að við getum búið við það næstu ár.

Margoft hefur komið fram að enda þótt kvótakerfið sé ekki gallalaust er það eitthvert það besta stjórnunarkerfi sem hefur verið reynt í praxís til þess að halda uppi hagkvæmum veiðum og hagkvæmri vinnslu, til að halda uppi velferð í einu þjóðfélagi eins og á Íslandi sem er eitt örfárra þjóðríkja í heiminum sem byggir afkomu sína og velferð á því að fiskveiðar og stjórn fiskveiða gangi upp. Án þeirra væri þetta þjóðfélag ekki það sem það er í dag. Það er því mjög mikilvægt fyrir okkur öll, þjóð, þing, sjómenn og útgerðarmenn, að vel fari í stjórnun þessa mikilvægasta atvinnuvegar þjóðarinnar. Þess vegna vona ég að með hjálp útgerðarmanna og sjómanna og þjóðarinnar allrar nái þingið, þó á stuttum tíma sé, að leiðrétta það sem við vitum að er ekki beinlínis í takt við það sem við ætluðumst til, að það verði lagfært og við náum að samþykkja lög á föstudaginn kemur sem við getum verið ánægð með.