Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 22:08:02 (5186)

1998-03-25 22:08:02# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, GMS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[22:08]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann lengi en ég vil þó ekki láta hjá líða að koma því að að ég er hundóánægður með fjölmargt af því sem er í þeim frv. sem hér eru þrátt fyrir að ég standi að málinu í heild sinni.

Byrjum á þskj. 1023, um kjaramál fiskimanna, 2. gr. Ég er mjög ósáttur við það að verið sé að lögbinda aukinn launakostnað útgerðarinnar eins og hér er boðað. Við vitum að íslensk útgerð er sú alafkastamesta í heimi og það sama má segja um íslenska sjómenn. Íslensk útgerð, íslenskir sjómenn, keppa við ríkisstyrktar útgerðir í nálægum löndum og eini möguleikinn fyrir íslenskan sjávarútveg til að standa sig í þeirri samkeppni er að vera stöðugt að hagræða og að ná í þann afla sem við sækjum í sjóinn með minni tilkostnaði en ríkisstyrktu útgerðirnar í nálægum löndum gera. Ég tel að við séum að teppa frekari hagræðingu með því móti eins og hér hefur verið bent á að launakostnaður útgerðarinnar muni aukast ef fækkar í áhöfn skipa.

Að vísu hefur líka komið fram að þetta ákvæði sé komið í fjölmarga samninga hjá ýmsum sjómannafélögum og hjá ýmsum tegundum útgerða en mér finnst óeðlilegt að vera nánast að lögbinda það að launakostnaður hækki ef fækkar í áhöfnum skipa.

Það hefur verið boðað að það eigi að undanskilja rækjuskipin. Ég leyfi mér þá að spyrja, herra forseti: Af hverju ekki að undanskilja loðnuveiðiskipin líka? Það er alveg ljóst að það hlýtur að verða farið að huga að því að fækka í áhöfnum loðnuveiðiskipa. Skipin eru orðin mun betur útbúin en þau voru fyrir örfáum árum og við höfum séð þessi nýju norsku skip þar sem menn eru farnir að stunda þessar veiðar með 7--8 mönnum meðan menn eru með 15--17 menn á góðum íslenskum loðnuskipum. Ég spyr: Af hverju tökum við ekki loðnuflotann inn líka eins og rækjuveiðiskipin?

Hvað með endurnýjun ísfisktogaranna sem við vitum öll að verður að eiga sér stað? Ef þetta verður að lögum eins og hefur verið boðað erum við að koma í veg fyrir að ísfisktogarar verði endurnýjaðir þannig að hægt sé að sækja þennan afla sem þeir eiga með færri mönnum? Þetta er ég mjög ásáttur við eins og þetta horfir núna, vonast reyndar til að sjútvn. geri lagfæringar á þessu þannig að það er kannski óþarfi að ergja sig meira á því í kvöld en ég hef hér lýst, herra forseti.

Í þskj. 1024, um breytingu á lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, er ákvæði um að það beri að skerða aflamark skips ef það veiðir ekki 50% af aflamarki sínu. Ég held að það sé mjög flókið í framkvæmd og hafi mjög marga galla að miða við veiði skipsins. Það er hægt að leika sér að því teoretíska dæmi að þetta geti leitt til þess að t.d. allt aflamark landsins í þorski geti færst á eitt skip. Ef við gefum okkur að eitt skip, svo maður leiki sér að þessu teoretíska dæmi, sé með 10 tonna aflamark í þorski, það nái að veiða 5 tonn en gæftir séu þannig að flotinn nái ekki 50% af aflamarki sínu, þá þýðir það næsta ár eins og ég skil þetta hérna, að allt aflamark í þorski er komið á þetta eina skip sem var með 10 tonn og náði 5 tonnum. Það segir sig sjálft að það mundi týnast á næsta ári aftur en mér finnst, ef þetta er réttur skilningur, að teoretískt gæti þetta litið svona út. Menn eiga ekki að haga textanum þannig að allt aflamark landsins í þorski gæti lent á einu skipi.

Ég mundi heldur vilja sjá að menn takmörkuðu framsal og þó ég sé almennt á móti því að setja hömlur á framsal á aflamarki, þá vildi ég heldur sjá þá nálgun að menn takmörkuðu framsalið en að miða við að skip næði að veiða 50%.

Ef við berum þskj. 1026, um Kvótaþing, saman við ákvæði í þskj. 1025, um Verðlagsstofu skiptaverðs, þá sýnist mér að þeir sem sömdu þetta frv. hafi haft mun meiri tíma þegar þeir voru að semja þskj. 1025, um Verðlagsstofu skiptaverðs, en þegar þeir sömdu frv. um Kvótaþing. Mér finnst þetta vera mjög hrátt og ég get ekki almennilega lesið út úr þessu hvers eðlis þetta apparat, Kvótaþing, er. Er þetta ríkisstofnun? Það hefur komið fram að menn eru meira að segja farnir að deila um hvar þessi ríkisstofnun eigi að vera stödd á landinu. Það eina sem ég sé um að þetta sé ríkisstofnun er í athugasemd við 7. gr. Þar er sagt að Kvótaþing sé opinber stofnun og stofnkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. Kannski má lesa það óbeint út úr lagatextanum en mér hefði fundist eðlilegra að menn segðu hvers konar stofnun þetta sé og menn tækju þá t.d. á því að starfsmannalögin vörðuðu þá starfsmenn sem vinna í þessari stofnun ef þetta er opinber stofnun og eins hvernig skuli fara með þá starfsmenn sem vinna þetta hugsanlega á vegum annars aðila. Svo við berum þetta enn saman við Verðlagsstofu skiptaverðs þá er þar talað um að semja megi við aðrar ríkisstofnanir um að annast þá starfsemi sem þar á að fara fram en þetta er hins vegar opið í Kvótaþinginu. Ég teldi að það væri betra að hafa þetta opið eins og það er í Kvótaþinginu, þ.e. að ráðherra geti samið um eins og hér er nefnt í greinargerðinni, að láta Verðbréfaþingið annast þetta en ekki eins og er í þskj. 1025 þar sem miðað er við að þetta verði að vera ríkisstofnun. Mér finnst samt að það vanti að skýra betur hvers eðlis Kvótaþingið er. Hver á t.d. að fara með, við skulum segja að ákveðið verði að slíta þessu, að fólk hafi uppsagnarfrest?

Í 7. gr. er sagt að þóknun Kvótaþings standi undir kostnaði við þingið. Hver borgar kostnaðinn af því að loka þessari stofnun þegar þar að kemur? Hver borgar kostnaðinn af uppsagnarfrestinum? Á að reikna það inn í gjaldskrána strax í upphafi? Hver fer þá með þann sjóð sem þar myndast og þar fram eftir götunum?

[22:15]

Í 1. tölul. 1. gr. frv. til laga um Kvótaþing segir, með leyfi forseta:

,,Þegar aflamark er flutt milli skipa í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila.``

Í greinargerðinni kemur fram að það beri að túlka þetta mjög þröngt. Ég les þetta þannig að tveir aðilar, hvort sem það eru einstaklingar eða lögaðilar sem eiga saman tvö skip, mættu þá ekki færa á milli skipa sinna. Ég veit ekki hvort þetta er rétt túlkun hjá mér en mér sýnist þó að þetta þýði að ef tveir aðilar eiga saman tvö skip og þá geti þeir ekki flutt á milli eins og ef einn lögaðili ætti skipið eða einn aðili. Ég mundi mjög gjarnan vilja að menn kíktu á það hvort þetta sé ekki óþarflega þröngt.

Varðandi það að binda enda á kjaradeilu með lögum þá finnst mér almennt ógeðfellt að gera það. Ég hef haft og hélt mig hafa það prinsipp þegar ég fór á þing að það mundi ekki henda mig að taka þátt í því. Ég ætla hins vegar að greiða þessum frumvörpum atkvæði mitt og styðja þau þegar þar að kemur af því að ég tel að svo miklir hagsmunir séu í húfi að ekki sé forsvaranlegt að láta þessa aðila sem hafa sýnt að þeir eru ekki þess megnugir að ná saman um sín mál, halda áfram að leika sér að fjöreggi þjóðarinnar eins og þeir hafa gert. Ég mun því styðja þetta þó að ég sé ósáttur við mörg atriði í þessu eins og ég hef rakið.