Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 22:21:11 (5189)

1998-03-25 22:21:11# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[22:21]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Gott er að miða við norska loðnuflotann. En menn skulu ekki gleyma því hvernig endurnýjunarreglur fiskiskipaflotans hafa verið hér á umliðnum áratugum. Við erum með skip sem var smíðað 1960 og það er búið að breyta því svo að ekki er eftir nema 1% eða 2% í byrðingi. Svona má telja skipin alveg í þeim tugum sem þau eru til, sérstaklega loðnuskipin. Það er nefnilega þannig að þó að þeim hafi verið breytt og þau bætt, þá er ekki mikið --- ég man ekki hvenær síðasta loðnuskipið var smíðað fyrir Íslendinga. En það er saga út af fyrir sig hvernig þróun og endurnýjun fiskiskipaflotans hefur farið fram. Það er hluti af málinu líka að tæknibúnaðurinn er ekki sem skyldi, ekki kannski sambærilegur við það sem gerist hjá Norðmönnum.

En það er náttúrlega kapítuli út af fyrir sig þegar talað er um tæknina og hversu henni hefur fleygt fram. Menn tala um ágæti margra skuttogara og að búnaður þeirra sé þannig úr garði gerður að skipstjórnandinn geti verið við afturhluta brúarinnar bæði með tækin til þess að hífa inn trollið og til þess að stjórna skipinu. En þetta er mikill slysavaldur um borð í skuttogurum af því að sá sem er að hífa inn trollið fylgist ekki nógu vel með hinum vinnandi mönnum á þilfarinu því hann stendur líka við stjórnvöl skipsins í kannski flota 10--20 skipa sem sigla hlið við hlið. Þetta mál er því margbreytilegt og kemur svo víða við eins og ég sagði áðan vegna endurnýjunarreglna flotans og vegna þess að stjórntæki eru slík að betur væri haldið á málum ef skipin væru betur mönnuð og tveir menn væru í brú þá híft væri og líka þegar skip er á ferð.