Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 22:31:10 (5191)

1998-03-25 22:31:10# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[22:31]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki í fyrsta skipti sem hæstv. félmrh. hefur uppi tal af þessu tagi í þingsal, ögrandi tal og ögranir í garð samtaka launafólks vegna vinnulöggjafarinnar sem hann stóð fyrir á sínum tíma í mikilli andstöðu við öll samtök launafólks í landinu. Það er almennt álit manna innan samtaka launafólks að löggjöf hæstv. félmrh. Páls Péturssonar hafi verið til óþurftar og hún hafi spillt fyrir samningaviðræðum. Þessi löggjöf sem hefur verið tengd Margréti Thatcher á Bretlandi, sérstaklega í ljósi þeirra vinnubragða sem viðhöfð voru við að koma henni á. Það er ekki vegna hennar sem mönnum tókst að ljúka kjarasamningum á vinnumarkaði á sínum tíma heldur þrátt fyrir þessa löggjöf.

Það lýsir líka mikilli vanþekkingu af hálfu hæstv. félmrh. ef hann telur það vera eitthvert nýmæli hér á landi að fram séu settar miðlunartillögur af sáttasemjara ríkisins. Þetta hefur alla tíð verið þannig. Hann hefur alla tíð haft tök á því að setja fram miðlunartillögur til að leysa kjaradeilur.

Síðan segir hæstv. ráðherra að hér hafi verið gerðir einhverjir bestu kjarasamningar í manna minnum. Þetta er alrangt og reyndar eru áhöld um að launafólki, jafnvel þeim sem best hefur vegnað í sínum samningum, takist að fá til sín réttmætan hluta af því góðæri sem óumdeilanlega hefur verið í landinu vegna ytri aðstæðna og þrátt fyrir þá ríkisstjórn sem hér situr.