Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 22:36:59 (5195)

1998-03-25 22:36:59# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[22:36]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Í sjálfu sér hef ég ekki miklu við það að bæta sem fram kom í síðustu orðaskiptum. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði fyrr í ræðu minni í kvöld, að í rauninni er frv. um kjaramál sjómanna frv. til laga um vantraust á vinnulöggjöf hæstv. félmrh. Páls Péturssonar. Hann flytur í rauninni frv. um vönd á sjálfan sig. Það er það sem er að gerast. Hann afhjúpar það að vinnulöggjöfin, sem hann bjó til um vorið og lagði sjálfan sig undir í að koma saman í löngum umræðum, er ónýt. Og hún er til bölvunar vegna þess að þegar kemur að erfiðustu kjaradeilunum í landinu, þá reynist hún gagnslaust og niðurstaðan er sú að hæstv. ráðherra flytur frv. til laga um að taka úr sambandi sína eigin vinnulöggjöf til 15. febrúar árið 2000. Það er nú hetjubragurinn á þessu hjá hæstv. ráðherra. Ég vil votta honum samúð mína vegna þess að sú vinnulöggjöf hefur með þessu og með hans eigin frv. orðið sér til skammar.