Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 22:50:19 (5200)

1998-03-25 22:50:19# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[22:50]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í þeim ítarlegu umræðum sem fram hafa farið í dag um þau fjögur frv. sem hér hafa verið lögð fram. Þessi mál eru öll yfirgripsmikil og hafa verulega þýðingu fyrir sjávarútveginn og efnahagsstarfsemi í landinu. Þess vegna er eðlilegt að ræða þau ítarlega og ég held að umræðurnar sem fram hafa farið í dag hafi að mestu verið málefnalegar og mikilvægar fyrir framgang málsins.

Ég get tekið undir þau sjónarmið, sem fram hafa komið hjá flestum þeirra sem hér hafa talað, að auðvitað er miður að til þess þurfi að koma að Alþingi setji niður kjaradeilur á milli launþega og vinnuveitenda. Hér var um mjög sérstakar aðstæður að ræða, ekki einvörðungu vegna þeirra miklu efnahagslegu hagsmuna sem hér voru í húfi og þess langa tíma sem viðræður aðila höfðu staðið, heldur einnig vegna þess að meginefni deilunnar sneri í svo veigamiklum atriðum að því lagaumhverfi sem aðilar þurfa að vinna við og er ekki efni venjulegra kjarasamninga á milli launamanna og atvinnurekenda.

Við verðum líka að hafa í huga, þegar metið er hvenær rétt er að grípa inn í atburðarás eins og þessa, að í þessu tilviki hafði deilan komist á það stig að ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu sem var samþykkt af öllum samtökum launþega en felld af vinnuveitendum.

Það frv. sem hér liggur fyrir um kjaramál fiskimanna gerir ráð fyrir að lögfesta miðlunartillöguna að viðbættum tveimur ákvæðum. Með breytingu sem ákveðin hefur verið á 2. gr. frumvarpsins eru sjómenn sáttir við þá niðurstöðu. Því er ekki verið að binda kjarasamning þeirra til lengri tíma en þeir höfðu sjálfir fallist á í atkvæðagreiðslu um miðlunartillöguna.

Ýmsir þingmenn hafa hér orðið til þess að fara hörðum orðum um annan samningsaðilann og saka annan aðilann um að bera ábyrgð á því að deilan sé með þessum hætti komin inn á borð alþingismanna. Ég vara við málflutningi af þessu tagi vegna þess að þeir sem gerst þekkja vita að hann á ekki við rök að styðjast. Ég held að hið fornkveðna eigi við í þessu tilviki eins og oft áður að sjaldan veldur einn þá tveir deila. Það eru ekki rök til þess að bera annan aðilann sökum í þessu efni. Báðir bera ábyrgð á því að ekki tókst að leysa deiluna með samningum.

Ýmsir hv. þm. hafa vikið að tæknilegum atriðum sem þeir telja nauðsynlegt að skoða í nefnd. Ég ætla ekki að víkja frekar að þeim atriðum í þessari umræðu. Ég ætla hins vegar að koma aðeins að þeim atriðum sem hv. 8. þm. Reykv. vék að og þeim spurningum sem hann bar fram. Hv. þm. taldi að ekki væri unnt að hefja kjaraviðræður eða setja fram viðræðuáætlun fyrr en eftir 15. febrúar árið 2000. Þetta er á misskilningi byggt. Vitaskuld er unnt að setja fram viðræðuáætlun og kröfur og hefja viðræður fyrir þann tíma. Þau einu takmörk eru sett að ekki er unnt að knýja á um nýja kjarasamninga með verkföllum fyrr en eftir þann tíma. Það er sú niðurstaða sem orðið hefði ef útvegsmenn hefðu samþykkt miðlunartillöguna, þá hefði verið friðarskylda og aðilar ekki getað knúið á um breytingar á kjarasamningi eða nýjan kjarasamning með verkföllum fyrr en eftir þann tíma. Þessi löggjöf breytir því ekki þeirri stöðu.

Hv. þm. spurði svo hvort friðarskylda yrði til þessa dags árið 2000. Það er rétt. Það er með nákvæmlega sama hætti og orðið hefði ef útvegsmenn hefðu samþykkt miðlunartillöguna.

Hv. þm. spurði einnig hvort aðilar gætu stytt kjarasamninginn í frjálsum samningum sín á milli. Þeim er það heimilt. Þeim er heimilt að gera breytingar á kjarasamningnum og m.a. að stytta hann ef þeir ná samkomulagi þar um. Hins vegar er það á sama grundvelli og verið hefði ef samningar hefðu tekist eða báðir aðilar samþykkt miðlunartillöguna. Slíka breytingu er ekki hægt að knýja fram með verkfalli og hefði ekki verið hægt að knýja fram með verkfalli ef útvegsmenn hefðu samþykkt miðlunartillöguna. Að þessu leyti er staðan sú sama.

Þá velti hv. þm. því fyrir sér hvort staðan yrði sú eftir 15. febrúar árið 2000, ef þá hefðu ekki tekist nýir kjarasamningar, að þeir kjarasamningar sem nú eru í gildi, áður en þessi lög koma til framkvæmda, kæmu að nýju til framkvæmda. Það er misskilningur. Lögin sem kveða á um hvaða kjarasamningur skuli vera á þessum tíma hafa að þessu leyti alveg sama gildi og kjarasamningur sem verður til með atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. Hafi nýr kjarasamningur ekki tekist þegar samningarnir renna úr gildi eða lögin falla úr gildi, þá framlengjast síðastgildandi kjarasamningar. Lögin hafa að því leyti sama gildi og um venjulegan kjarasamning væri að ræða. Það er ekki svo að þeir samningar sem verið hafa í gildi fram til þessa lifni óbreyttir við þegar þessi lög falla úr gildi. Þær hugrenningar byggjast á misskilningi.

Hér hafa þingmenn farið mörgum orðum um þau frv. sem þriggja manna nefndin samdi og legið hafa fyrir um nokkurn tíma. Vitaskuld orkar allt tvímælis þá gert er. Þó hlaut öllum að vera ljóst að ef ætlunin væri að koma með einhverjum hætti til móts við þau sjónarmið sjómanna, að draga úr því að tengsl væru á milli viðskipta með aflaheimildir og viðskipta með hráefni sem áhrif hefðu á fiskverð, þá hlyti það að hafa einhver áhrif. Ef þær tilraunir hefðu til að mynda leitt til samnings, sem samningsaðilar voru komnir þó nokkuð á veg með fyrri hluta ársins meðan Ásmundur Stefánsson kom að kjaraviðræðunum og fólu m.a. í sér mjög verulega takmörkun á framsali og miðstýrt fiskverð, þá hefði það haft slík áhrif. Útvegsmenn höfðu léð máls á því að ganga nokkuð í þá átt þó að þær tilraunir hefðu ekki borið árangur. Ég hygg að öllum hafi verið þetta ljóst.

[23:00]

Ég held hins vegar að ofgert hafi verið hversu mikil áhrifin verða af þessu. Verði ekki frekari takmarkanir á framsali má gera ráð fyrir að nægjanlegt framboð verði á aflaheimildum á kvótamarkaði og bátar geti keypt sér viðbótaraflaheimildir um markaðinn en allt veltur það auðvitað á því að nægjanlegt framboð verði á aflaheimildum. Það skiptir sköpum, þegar höfð er í huga staða einstaklingsútgerða og báta með minni aflaheimildir, að ekki verði gengið of langt í því að takmarka framsalið. Það er lykilatriðið ef menn vilja í raun og veru huga að stöðu þeirra báta.

Út af fyrir sig er það alveg laukrétt sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði áðan um að það færi ekki saman að taka undir, jafnvel með stóryrðum, alla gagnrýnina á svokallað kvótabrask en lýsa svo andstöðu við þær tilraunir sem gerðar eru til þess að stemma stigu við þeirri þróun. Það er réttmæt athugasemd en það breytir ekki því að þessi frumvörp hljóta að hafa einhver áhrif. Þau geta haft áhrif á einstakar útgerðir og stöðu í einstökum byggðum. Mitt mat er að eigi að síður skapi þau umgjörð sem geti tryggt vel reknum útgerðum áframhaldandi starf. Þær þurfa að laga sig að nýjum aðstæðum. Það getur tekið tíma og aðlögunarbreytingar en von mín er að frumvörpin, verði þau að lögum, stuðli að bættum samskiptum útvegsmanna og sjómanna en geti jafnframt orðið ný undirstaða undir rekstur þessarar mikilvægu atvinnugreinar í landinu.

Það ber kannski allt of mikið á því í þessari umræðu að menn gleymi mikilvægi þess að tryggja öruggan rekstrargrundvöll þessarar atvinnugreinar. Það má ekki gleymast hvaða þýðingu það hefur fyrir byggðina, sjómennina og starfsfólkið í fiskvinnslufyrirtækjunum að vel sé staðið að málum. Það kann vel að vera að það henti stundum í áróðursskyni að vega að útvegsmönnum eða atvinnurekendum. Hinn kaldi veruleiki er þó að mestu máli skiptir að þessi fyrirtæki séu vel rekin, skili hagnaði og geti byggst upp. Þannig hafa þau tækifæri til að fjárfesta og skapa ný atvinnutækifæri og fleiri störf. Í von um að þessi frumvörp verði þáttur í slíkri framþróun vona ég að Alþingi geti staðið að afgreiðslu þeirra.