Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 23:03:36 (5201)

1998-03-25 23:03:36# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[23:03]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg á hreinu að þessi niðurstaða, hvað sem öðru líður, verður ekki til þess að bæta samskiptin á milli sjómanna og útvegsmanna. Það er alveg ljóst. Þau hafa ekki verið harðvítugri um árabil en núna.

Ég man ekki eftir að hafa heyrt forustumann útvegsmanna lýsa niðurstöðu mála með jafnmyndrænum hætti og Kristján Ragnarsson gerði í fréttum í kvöld. Ég ætla þó ekki að hafa það eftir úr þessum ræðustól vegna þess að ég tæki þá áhættu að hæstv. forseti, sem gætir vel reglu í þinginu, yrði að víta mig fyrir orðbragðið. Það var allt saman frekar óvenjulegt.

Ég hygg að það verði að viðurkennast að staðan er sú að verði þessi frumvörp að lögum eins og allt bendir til, þá verður þarna áfram mikil illska á milli. Ég held að stjórnvöld þurfi að gera sér grein fyrir því og gera ætti átak, að svo miklu leyti sem stjórnvöld geta eitthvað gert í því máli, til að fá deiluaðila til að tala betur saman en verið hefur m.a. um tæknileg úrlausnarefni.

Þá kem ég að aðalatriði andsvars míns. Ég tel með öðrum orðum alveg óhjákvæmilegt að endurskrifa 3. gr. frv. Ég er andvígur henni og jafnvel þó að hún verði endurskrifuð geri ég ráð fyrir að ég verði andvígur henni áfram. Ég tel að með orðalagi greinarinnar eins og hún er séu menn að tvítaka það að friðarskyldan skuli gilda. Ég tel að það sé bæði gert í fyrri málslið og í lok seinni málsliðar. Þegar þetta er svo lesið saman við 1. gr. í miðlunartillögu sáttasemjara þá er ég eiginlega alveg viss um að menn hljóta að komast að þeirri niðurstöðu að þörf sé á að endurskrifa þessa texta. Ég hvet til þess að hv. sjútvn. fái tæknimenn deiluaðila til þess að setjast yfir þetta mál ásamt fulltrúum stjórnvalda.