Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 16:46:11 (5205)

1998-03-27 16:46:11# 122. lþ. 96.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, Frsm. meiri hluta ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 122. lþ.

[16:46]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta sjútvn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Það er á þskj. 1057 og er þar einnig gerð grein fyrir brtt. á þskj. 1058. Í nál. kemur fram við hverja nefndin hefur rætt til að kynna sér efni og hugsanlegar afleiðingar eða áhrif af frv. með því að það verði að lögum. Síðan er rétt að gera grein fyrir efni tillagnanna sjálfra en meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum.

Í fyrsta lagi er lagt til að breytt verði ákvæðum um veiðiskyldu þannig að hún verði óbreytt frá því sem er í gildandi lögum um stjórn fiskveiða. Á móti er hins vegar lagt til að sett verði inn ákvæði í lögin sem takmarki framsalsheimild eiganda fiskiskips við það að einungis sé heimilt að flytja af fiskiskipi aflamark, umfram aflamark sem flutt er til skips, sem nemur 50% af samanlögðu aflamarki sem fiskiskipi er úthlutað í upphafi fiskveiðiárs á grundvelli aflahlutdeildar þess.

Það er mat meiri hlutar nefndarinnar að þannig megi ná fram sömu eða a.m.k. sambærilegum markmiðum og stefnt er að með þeirri tillögu um veiðiskyldu sem var í frv. Meiri hlutinn telur að með þessari aðferð verði þeim sem við skerðingarnar þurfa að búa gert auðveldara að sveigja til og hagræða í rekstri sínum og því hvernig þær nýta sér þennan veiðirétt.

Þá er lagt til að bætt verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða sem geri sjávarútvegsráðherra skylt að leggja fyrir Alþingi skýrslu fyrir árslok 1999 þar sem gerð er grein fyrir áhrifum þeirra breytinga sem frumvarpið felur í sér á íslenskan sjávarútveg, sérstaklega hvað varðar stöðu og möguleika einstaklingsútgerðarinnar. Lagt er til að sambærilegu bráðabirgðaákvæði verði einnig bætt við frumvörpin um Kvótaþing og Verðlagsstofu skiptaverðs.

Um þetta vil ég segja, herra forseti, að það kom mjög skýrt fram í umræðum nefndarmanna og viðræðum þeirra við þá gesti sem hún fékk til fundar að menn hafa þungar og alvarlegar áhyggjur af þeim afleiðingum og áhrifum sem löggerningar þessir geta haft fyrir útgerðarfyrirtæki í landinu og sérstaklega þau sem ekki hafa mikinn sveigjanleika sökum þess að þau reka aðeins eitt eða örfá skip. Það er einnig ljóst að slík áhrif á þau fyrirtæki munu jafnframt bitna á sjómönnum sem hjá þeim starfa og vel er hugsanlegt, herra forseti, að áhrifin á sjómennina verði enn þá þungbærari en áhrifin á eigendur fyrirtækjanna.

Að síðustu er lagt til að bætt verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða sem tryggi aðilum heimild til að flytja aflamark milli skipa innan sömu útgerðar ef um kaupleigu eða leigu er að ræða þrátt fyrir sérstök eignarréttarákvæði þeirrar tegundar samninga án þess að þurfa að fara í gegnum Kvótaþingið. Sams konar breyting er lögð til á frumvarpi til laga um Kvótaþing. Sá fyrirvari er þó á slíku að leigusamningur hafi verið gerður fyrir gildistöku laganna og geti þannig ekki talist ráðstöfun til þess að komast undan ákvæðum laganna. Meiri hlutinn taldi að ákvæði frumvarpsins væru fullþröng varðandi fjármögnunarformið vegna þess að þetta fjármögnunarform er að ryðja sér til rúms sem einn af valkostum fyrirtækja til að standa að fjárfestingu og meiri hlutinn telur ekki ástæðu til þess að frv. um þetta efni mismuni fjármögnunarleiðum einstakra fyrirtækja í landinu eða þeirra sem bjóða fram fjármagn til ýmissa fyrirtækja. Hins vegar munu leigu- og kaupleigusamningar gerðir eftir gildistöku þessara laga ekki falla undir þetta ákvæði. Rétt er að geta þess að þeir Vilhjálmur Egilsson og Einar Oddur Kristjánsson sem hafa starfað í hv. sjútvn. með mjög góðu framlagi til framgangs þessara mála og til að bæta ákvæði þeirra eftir því sem unnt er, telja báðir að ákvæði um leigu og kaupleigu ættu að gilda eins og um önnur form fjármögnunar eða eignar því að hið rétta er að þessi fjármögnunarform eru með sérstökum ákvæðum um eignarrétt eða eignarréttarfyrirvörum en það breytir því ekki að raunverulegu útgerðarformi eða útgerðarháttum hvers skips ráða þeir aðilar sem þau reka en ekki fjármögnunaraðilar hvernig sem háttað er ákvæðum um hugsanlegt endurhvarf vegna eignarréttar.

Við teljum rétt að geta þess, herra forseti, að þess eru ekki dæmi að fyrirtæki hafi nýtt sér þessi fjármögnunarform í þeim tilgangi að komast undan öðrum ákvæðum laga sem snúast um önnur efni.