Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 17:27:13 (5212)

1998-03-27 17:27:13# 122. lþ. 96.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, Frsm. 3. minni hluta KHG
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 122. lþ.

[17:27]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Á þskj. 1071 er að finna nál. 3. minni hluta sjútvn. í þessu máli, frv. til laga um Kvótaþing. Ég vek athygli á því að í þessu máli er enginn meiri hluti, heldur bara minni hlutar sem er afar óvenjulegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, í jafnumdeildu máli sem þessu, þótt að sjálfsögðu sé það skiljanlegt þegar málið er svo stórt sem raun ber vitni.

Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að komið verði á opnum tilboðsmarkaði fyrir aflamark og er liður í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir að viðskipti útvegsmanna með aflamark geti bitnað á aflahlut sjómanna.

Frumvarpið gerir viðskipti með aflamark sýnilegri en nú er og kemur í veg fyrir að blandað verði saman viðskiptum með aflamark og viðskiptum með afla. Að þessu leyti er um að ræða verulegan kost út frá hagsmunum sjómanna.

Hinu er ekki að leyna að frumvarpið mun hafa talsverðar breytingar á starfsumhverfi í sjávarútvegi í för með sér, og eftir yfirferð sjútvn. á málinu undanfarinn sólarhring stendur upp úr að mikil óvissa ríkir um mat á þróun mála, verði frv. að lögum.

Hjá mörgum umsagnaraðilum kom fram það mat að störfum sjómanna mundi fækka verulega og samrunaþróunin í átt til fárra og stórra útgerða yrði mjög hröð. Einkum var óttast um stöðu bátaútgerðar og smærri sjávarútvegsbyggða í þessu sambandi. Óhjákvæmilegt er að lengri tími gefist til þess að meta áhrifin af lögfestingu Kvótaþingsins og kannað til hvaða breytinga væri hægt að grípa til þess að draga úr óæskilegum áhrifum af lögfestingu frumvarpsins. Þá sýnist enn fremur nauðsynlegt að gefa einhvern aðlögunartíma að nýju fyrirkomulagi ef rétt þykir að lokinni frekari athugun að taka það upp.

Við lagabreytingu í starfsumhverfi í sjávarútvegi ber að gæta þess að fjölbreytt útgerðarmunstur geti dafnað og að staða sjávarplássa styrkist fremur en hið gagnstæða. Það væri mikið glapræði að hrapa að niðurstöðu sem geti leitt til hins gagnstæða.

Þriðji minni hluti telur því ekki fært að styðja frumvarpið að svo komnu máli.

[17:30]

Vandi nefndarinnar hefur verið allnokkur við meðferð málsins. Fyrst og fremst hefur vandinn verið sá að nefndin hefur haft örskamman tíma til að glöggva sig á frv. sem er mjög mikil breyting á starfsumhverfi í sjávarútvegi eins og nú tíðkast að nefna það. Það er ekki ætlandi neinni þingnefnd að geta með sæmilega traustum hætti gert sér grein fyrir þeim miklu áhrifum sem margir segja að muni verða í kjölfar þess að samþykkja þetta fyrirkomulag. Og það eru ekki skynsamleg vinnubrögð af hálfu Alþingis að hrapa að niðurstöðu í þessum efnum því að það er kunnara en frá þurfi að segja að menn vita að oft er of seint að bæta skaðann þegar hann hefur orðið. Þó að menn geti vissulega breytt lögum og lagfært þau í ljósi reynslunnar þá er skynsamlegra, þegar mikil álitamál eru uppi, að athuga þau vel áður en farið er af stað í för sem þessa.

Ég vil nefna nokkur dæmi úr því sem fram kom í umsögnum þeirra sem gengu á fund nefndarinnar til að lýsa viðhorfi sínu til málsins. Það kom fram hjá fulltrúum Samtaka fiskvinnslustöðva það mat þeirra að stór sjávarútvegsfyrirtæki með fjölbreytta starfsemi mundu eiga bestu möguleikana í þessu kerfi. Að sama skapi væri staða minni útgerða lakari en þeirra stóru. Þeir mátu það svo að Kvótaþing mundi skapa mikla óvissu og hafa ófyrirsjáanleg áhrif. Þeir mátu það líka þannig að minni fyrirtækin í sjávarútvegi mundu renna inn í stóru fyrirtækin og kölluðu það Samherjaáhrifin, þar sem umhverfið leiðir til þess að eigendur minni útgerða, bátaútgerðarinnar, teldu sinn kost bestan að sameinast stóru, öflugu útgerðarfyrirtæki. Þeir mátu það líka þannig að fyrirtækjum í útveginum mundi mjög fækka í kjölfarið og sjómönnum einnig. Með öðrum orðum, aukin samþjöppun í greininni, fækkun á störfum og færri og stærri fyrirtæki. Það er ekki hægt að skrifa upp á þessa framtíðarsýn að mínu viti. Ég er ekki stuðningsmaður þess að þróa sjávarútveginn á þennan hátt og vil því staldra við áður en lengra er haldið og ganga frekar úr skugga væntanleg áhrif af þessari breytingu áður en lagt er af stað og áður en ákveðið er hvort fara eigi í þessa för.

Ég vek hins vegar athygli á, af því ég var hér að rekja umsögn samtaka sem töldu þetta ekki gæfuspor, að auðvitað er kostur í málinu hvað varðar stöðu sjómanna, uppgjör á aflahlut þeirra. Því mega menn aldrei gleyma að það hefur verið stórt vandamál á undanförnum árum og það verður að leysa það vandamál þannig að sátt sé um.

Ég vil einnig nefna umsögn Samtaka fiskvinnslustöðva án útgerðar. Þeir töldu það kost að verðmyndun ætti sér stað á opnum markaði í þessu kerfi en bentu á að þeir hefðu efasemdir um Kvótaþingið og væru smeykir um neikvæða þróun í flutningi aflamarks á milli byggðarlaga og minntu á andstöðu sína við núgildandi stjórnkerfi fiskveiða en komust að þeirri niðurstöðu að eina leiðin til þess að fá skorið úr um áhrifin væri að prófa kerfið.

Formaður smábátaeigenda gekk einnig á fund nefndarinnar og var mjög andsnúinn þessu fyrirkomulagi. Hann taldi sem aðrir að þetta mundi leiða til þess að smærri útgerðir rynnu inn í stærri sjávarútvegsfyrirtækin og fór fram á það að bátar undir tólf tonnum væru undanþegnir ákvæðum frv. um Kvótaþing. Hann taldi að þetta fyrirkomulag mundi bitna mjög á félagsmönnum sínum. Það er því ljóst að það var margt álitaefni í þessu og þarf nokkuð hrausta menn til þess að láta þessi viðvörunarorð eins og vind um eyru þjóta og leggja til að málið verði lögfest á öðrum sólarhring frá því að nefndin tók það til meðferðar. Mörg merkileg frv. hafa verið í meðförum þingnefnda Alþingis vikum saman og þingnefndir talið fulla þörf á. En þetta mikla mál um kerfisbreytingu í sjávarútvegi hefur aðeins verið til meðferðar hjá þingnefnd í rétt liðugan sólarhring.

Herra forseti. Ég gæti stiklað á umsögnum fleiri aðila en ég hygg ég láti þetta duga sem dæmi um það sjónarmið sem fram kom. Ég get svo sem bætt því við líka að við mig hafa haft samband á þessum sólarhring bæði sjómenn og útvegsmenn og allir lýst miklum efasemdum um málið. Ég hygg að það sé lýsandi dæmi um þær áhyggjur sem menn hafa um þróunina í ljósi þessarar tillögu eða kerfisbreytinga sem er að finna í frv. Ég met það svo að þau sjónarmið sem ég hef rakið eigi að leiða okkur til þeirrar niðurstöðu að vanda okkur við verkið. Ég ætla ekki að útiloka að unnt verði að búa málið þannig út að þess verði gætt að taka tillit til þeirra sem óttast afleiðingarnar af þessu eða dregið úr væntanlegum slæmum áhrifum. Það er einfaldlega verkefni þingnefndar í hverju máli að athuga mál þannig og gefa sér þann tíma sem þarf til að komast að skynsamlegri niðurstöðu og sá tími hefur ekki verið gefinn í þessu tilviki. Það er undirstrikað með því að 1. minni hluti nefndarinnar leggur til að fylgst verði með framvindu málsins og ráðherra gefi skýrslu um þróunina innan skamms. Það er auðvitað lýsandi dæmi um það að þeir sem skipa þann minni hluta telja að málið sé að mörgu leyti ekki nægjanlega athugað.

Ég vil segja, herra forseti, að fyllsta ástæða er til þess að hafa verulegar áhyggjur af því hvernig mál eru að þróast í sjávarútvegi og þá á ég við hvernig menn skipa málum með lögum frá Alþingi. Stöðugir árekstrar hafa verið innan greinarinnar undir núverandi fyrirkomulagi um stjórn fiskveiða sem hafa farið mjög vaxandi eftir að frjálst framsal var tekið upp fyrir átta árum. Framsalið ásamt breytingu sem varð skömmu seinna um frjálst fiskverð virðist hafa leitt til verulegra árekstra á milli sjómanna og útvegsmanna sem erfitt hefur reynst að ráða fram úr. Það er greinilegt að þarna eru gagnstæðir hagsmunir sem þetta stjórnkerfi dregur fram og skerpir fremur en að sætta.

Það er líka rétt að minna á að þetta kerfi hefur leitt af sér hliðarverkanir sem eru mjög óæskilegar og umdeildar, þ.e. brottkast afla og annað af því taginu. Til þess að reyna að girða fyrir hefur verið sett á fót ríkisstofnun, Fiskistofa, til þess að annast eftirlit með útvegsmönnum og sjómönnum. Þessi ríkisstofnun fer stöðugt stækkandi og hefur verið sú stofnun ríkisins á undanförnum árum sem hvað hraðast hefur vaxið. Og ég er ekki viss um að við sjáum fyrir endann á útþenslu þess bákns.

Hér er lagt til að stofnsetja tvær ríkisstofnanir til viðbótar til þess að reyna að greiða úr ágreiningi sem kerfið leiðir af sér á milli sjómanna og útvegsmanna, annars vegar Kvótaþing og hins vegar Verðlagsstofu skiptaverðs sem á að vera nokkurs konar lögregla á óprúttna útvegsmenn. Ég held að fyllsta ástæða sé til þess fyrir Alþingi að staldra við á þessum tímamótum og spyrja: Erum við á réttri leið í að stjórna okkar sjávarútvegi þegar hvert ár sem líður leiðir það eitt af sér að hörð átök eru á milli stétta og lausnin er fólgin í að koma upp nýjum eftirlitssveitum?

Nú skulum við gefa okkur að þessar tvær nýju ríkisstofnair verði samþykktar hér og komið á laggirnar. Ég er ekki svo viss um að eftir eitt ár eða tvö telji menn þetta nægjanlegt. Mér býður í grun að líklegra teldu menn að enn þurfi að auka eftirlitskerfið til þess að draga úr óánægju sem uppi er.

Ég held að Alþingi eigi að hafa eina reglu við lagasetningu og hún er sú að þegar þarf að byggja upp mikið eftirlitskerfi þá eru lögin vond. Og þegar reynslan er sú að að byggja þarf annað eftirlitskerfi við hliðina á því sem fyrir var þá eru lögin mjög vond. Lausnin hlýtur því að vera fólgin í að skoða þau lög sem leiða af sér þetta eftirlitskerfi í stað þess að bæta við nýjum sveitum og nýjum stofnunum í hóp þeirra sem fyrir eru. Þetta vildi ég, herra forseti, draga fram í ljósi þess sem hér er að gerast og benda líka á eitt atriði sem ekki hefur verið nefnt til þessa, þ.e. byggðaáhrifin af þessu öllu saman.

Þróunin er ekki bara sú að menn séu að koma upp eftirlitssveitum hverri á fætur annarri, heldur eru menn að markaðsvæða þennan sjávarútveg og menn eru að markaðsvæða réttindin. Það er að verða eins og hver annar verðbréfamarkaður að höndla með réttindi til veiða. Og þar er landið eitt markaðssvæði og það eru engar hindranir eða neinar girðingar til að verja stöðu manna eftir búsetu eða stöðu manna eftir útgerðarflokkum eins og þó er nú víða í löggjöf erlendis, að reynt er að verja stöðu þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Því auðvitað er það þannig að þegar sett eru lög þá er það fólkið sem á að búa við lögin sem er aðalatriði málsins en ekki kerfið sjálft. Mér finnst að í þessum efnum markist löggjöfin hér á landi af því að menn líti á kerfið sem aðalatriði en fólkið sem aukaatriði og hagsmuni þess.

[17:45]

Ævinlega er sagt að það þurfi að hagræða í sjávarútvegi, að það þurfi bara að hafa einn stóran frystitogara en ekki marga litla báta og það sé hagkvæmt fyrir þjóðina. Aldrei dettur þeim spekingum sem skrifa þessi fræði í hug að líta á stöðu fólksins sem breytingarnar hafa áhrif á. Fólkið býr í eignum sínum, hefur atvinnu sína o.s.frv. og kerfisbreytingar af þessu tagi geta haft mikil áhrif á stöðu þess. Þau eru aldrei metið, það er eins og þau komi málinu ekkert við. Svona eiga menn ekki að gera, herra forseti. Löggjöfin verður alltaf að líta til þess hvaða áhrif hún hefur á það fólk sem þarf að búa við hana. Það held ég að sé kannski einn stærsti ágallinn sem við búum við í dag að það skortir einmitt að sníða löggjöf að þörfum fólks, a.m.k. í jafnríkum mæli og menn eru að miða löggjöfina við þarfir frystitogara eða stórútgerðarmanna. Því er mikill ófriður um þessi mál hér á landi og er stöðugt í umræðunni og hefur verið á undanförnum árum og ekki hvað síst á þessum vetri. Þrátt fyrir að þetta eigi að vera svo fullkomið kerfi held ég að það hafi aldrei verið önnur eins umræða um sjávarútvegsmál í þjóðfélaginu og á þessum vetri. Það lýsir því að fólkið er óánægt og ég spái því að þau frv. sem liggja fyrir muni engu breyta í þeim efnum og að það verði enn þá mjög mikil óánægja í þjóðfélaginu og ekki hvað síst hjá þeim sem vinna við þessa atvinnugrein. Þótt þessi frv. kunni að einhverju leyti að ráða bót á ágöllum sem fyrir eru verður enn þá mikil óánægja og hún fer ekki minnkandi á næstu mánuðum frá því sem nú er.

Ég held að það sé komið að því að fólk hafi áttað sig á því að það er löggjöfin sem er grundvöllurinn og er meinið og um þetta verður tekist á um í næstu alþingiskosningum. Þetta verður aðalkosningamálið í næstu alþingiskosningum sem stjórnmálaflokkarnir verða að veita svar við. Ætla þeir að búa til löggjöf sem veitir fólki sæmilegt öryggi? Óöryggið er alveg hrikalegt um land allt hjá því fólki sem starfar í sjávarútvegi eða býr í byggðarlögum sem eru meira og minna háð sjávarútvegi þó að það sjálft starfi ekki í honum. Það er ekki bara í þeim byggðarlögum sem hafa misst kvóta sinn sem fólk er uggandi um framtíð sína heldur líka í þeim byggðarlögum sem búa við blómstrandi stórútgerðir vegna þess að fólkið gerir sér grein fyrir því að þetta allt getur horfið á einni nóttu og menn staðið upp með tvær hendur tómar og óttast í ljósi þessarar stöðu um afkomu sína, öryggi og eignir. Þetta knýr áfram óánægjuna og þau frv. sem við erum að ræða taka ekki á þessu atriði, eru ekki bót á því aðalmeini sem við búum við, því miður, herra forseti.