Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 18:09:29 (5214)

1998-03-27 18:09:29# 122. lþ. 96.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 122. lþ.

[18:09]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér eru til umræðu fjögur frv. sem öll lúta beint eða óbeint að sjávarútvegi. Hér kom fram einkum í lokaorðum hv. síðasta ræðumanns að aðdragandi þeirra væri í rauninni fiskveiðistjórnarkerfið. Ég er ekki allsendis sammála því sjónarmiði og vil rifja upp að hér er ekki í fyrsta sinn verið að deila um sjávarútveg, þ.e. deilur á milli útvegsmanna og sjómanna. Þær eru ekki núna uppi í fyrsta sinn. Þær hófust fyrir meira en 14 árum. Þær hófust fyrir daga núverandi fiskveiðistjórnarkerfis. Þær teygja sig allt aftur til þess tíma sem menn hófu útræði frá Íslandi. Það er deilan um það hvernig eigi að skipta hlutnum, hvernig á að skipta kökunni eða hvað við viljum kalla það og sú deila mun halda áfram á meðan við veiðum og fiskar synda í sjónum. Ég held að það sé alveg ljóst.

Aðdragandi þess að þessi fjögur frv. berast hér inn er öllum ljós. Við höfum fylgst með því í fjölmiðlum og það hefur verið rakið úr þessum ræðustóli. Margir vilja meina að deilan hafi verið komin í óleysanlegan hnút og ekki hafi verið um annað að ræða, m.a. vegna þjóðarhagsmuna, en að höggva á þann hnút. Með þeim frv. sem nú liggja fyrir þinginu má segja að menn séu að reyna að leysa vandann, höggva á hnútinn og leysa þennan vanda. Auðvitað vona allir að þar með sé búið að leysa þennan vanda en ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að mál af þessum toga mun aftur berast hér inn á borð til hv. alþm. á einhvern annan hátt eða með svipuðum hætti og það kann að vera meginvandinn. Sú fullyrðing hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar kann að vera rétt að lagaumhverfið feli vandann í sér en ég hygg að vandinn sé kannski aðeins víðtækari en svo. Segja má að hæstv. ríkisstjórn og hv. Alþingi sjái sig knúin með rökum sem lengi má deila um að grípa inn í þessa kjaradeilu. Miklir hagsmunir eru í húfi og rétt að minna á það sem hér hefur fram komið að í raun liggja fyrir frv. sem byggja að megninu til á miðlunartillögu sáttasemjara og það er verið að taka undir sjónarmið sem þeir samþykktu í atkvæðagreiðslu en gegn útvegsmönnum, enda felldu þeir miðlunartillöguna. Hins vegar, herra forseti, má segja að með þessu sé þinginu stillt upp við vegg. Svigrúm hv. þm. til að vinna úr frumvörpunum verður eðlilega mun takmarkaðra. Það vekur að sjálfsögðu upp spurningar um sjálfstæði þings og þar verða menn að meta meiri hagsmuni fyrir minni hagsmuni ef svo má að orði komast. Þess urðum við verulega áskynja í hv. sjútvn. í gær og nótt þegar við hlustuðum á ólík sjónarmið ólíkra hagsmunaaðila, að þá stangast sjónarmið allhressilega á. Það er mjög erfitt að finna þá lausn sem allir geta verið sáttir við. En það fann hv. sjútvn. einnig að hún var að vinna, skoða frumvörp og leita álits, ég veit ekki hvort á að segja í skugga, en a.m.k. í þeirri umgjörð sem aðdragandinn felur í sér að þar hefur verið gert samkomulag við hagsmunaaðila.

Ég ætla ekki að fara efnislega ítarlega í þessi frv. sem hér liggja enda hefur það verið gert ágætlega. En um hvað er þá verið að véla hér? Í rauninni er verið að gera tilraun til að setja lög til að eyða tortryggni, til að eyða spennu sem hefur verið að byggjast upp á löngum tíma milli útgerðarmanna og sjómanna. Sú spenna snýst um verðmyndunina, hvernig eigi að verðleggja og hvernig eigi að skipta kökunni. Það segir sig sjálft og liggur í hlutarins eðli að sjónarmiðin eru þar nánast jafnmörg og mennirnir eru margir. Það er ekki einasta að þar séu sjónarmið ólík milli útvegsmanna og forustumanna sjómannasamtaka heldur vitum við að innan raða hvors hóps um sig eru skoðanir skiptar. Þar ræður eðli útgerðar og þar ræður búseta og þannig má áfram telja, því hvaða sjónarmið eru þar uppi.

[18:15]

Hitt er aftur á móti rétt að benda á að ég hygg að margir geti tekið undir það að í flestum tilvikum ganga samskipti sjómanna og útgerða afskaplega vel. En við vitum af og bent hefur verið á nokkur dæmi þar sem sterkur og rökstuddur grunur leikur á eða því er haldið fram að útgerðarmenn komi óheiðarlega fram við starfsmenn sína. Það vekur mann einnig til umhugsunar um hvernig þau ef ég má segja undantekningartilvik leiða til alhæfingar um stéttina alla, um greinina alla, með í rauninni skelfilegum afleiðingum í umsögnum og jafnvel athöfnum. Það er umhugsunarefni hvernig heil atvinnugrein er dæmd fyrir framferði tiltölulega fárra aðila.

Sú leið sem er farin til að draga úr þeirri spennu og eyða tortryggni og forsendan fyrir henni er lagasetning um kjaramál fiskimanna, eins og frv. heitir, og ég vísa til þess sem ég sagði í upphafi og til miðlunartillögu sáttasemjara og hvernig taumur sjómanna er þar dreginn enda eru útvegsmenn afskaplega ósáttir við þann hluta. Í kjölfarið á því frv. fylgja þríburar, þrjú frumvörp sem hanga nokkuð saman og er þar fyrst að nefna frv. um nýja eftirlitsstofnun. Nú hefur úrskurðarnefnd verið starfandi og undan því kvartað að hún hafi ekki virkað sem skyldi en hér verið að reyna að búa til skjól utan um úrskurðarnefnd þannig að sjómenn sem grun hafa um að verið sé að véla þá eða pretta með einhverjum hætti, eins og haldið hefur verið fram, eigi þar öruggt skjól og geti leitað til þessarar eftirlitsstofnunar til að taka með óvilhöllum hætti á þeirra máli. Um það má lengi deila og deili þeim skoðunum í sjálfu sér sem hér hafa komið fram um að áhyggjuefni er hvernig svonefndur eftirlitsiðnaður fer stöðugt vaxandi í okkar ágæta landi, en hér er niðurstaða og í rauninni krafa frá sjómönnum sem gengið er til móts við.

Hins vegar er svo frv. um Kvótaþingið þar sem gert er ráð fyrir nánast sem meginreglu að öll viðskipti með aflaheimildir skuli fara um eitt miðstýrt kvótaþing með ströngum aðferðum og afskaplega gegnsæjum aðferðum. Frá því eru veittar reyndar ákveðnar undantekningar, jöfn viðskipti og síðan tilfæringar innan útgerðar. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég tel þær undanþágur vera helst til þröngar og þær geti haft verulega skaðleg áhrif á útgerðarmunstur í okkar landi og hef þess vegna haft fyrirvara á nál. og mun því ekki greiða þeim þætti atkvæði þegar til atkvæðagreiðslu kemur.

Ég tel að skoða verði öll frv. í heild sinni og vísa þá til frv. um eftirlitsstofnun sem á að vera fyrir sjómenn ef grunur leikur á að verið sé að svína á þeim. Í ljósi þess og jafnframt með tilvísan til þess að það eru dæmi og þau nokkuð mörg, einkum sunnan lands og vestan, þar sem samskipti sjómanna og útgerðarmanna ganga mjög heiðarlega fyrir sig þar sem allir aðilar, sjómenn, útgerðarmenn og vinnslan eru sátt með þann samning sem gerður hefur verið. Ég skil tortryggni forustumanna sjómannasamtakanna vegna reynslu frá einstökum aðilum en við megum ekki líta fram hjá því að þeir eru fjölmargir sem beinlínis byggja störf sín sem sjómenn, störf sín sem útvegsmenn á gagnkvæmu trausti og samkomulagi. Það er þess vegna sem ég hefði viljað sjá eina undanþágu til viðbótar, nefnilega þá að sjómenn geti gert skriflegan samning við útvegsmenn og haldið síðan áfram föstum viðskiptum við landvinnslu en haft sitt traust og skjól í þeirri eftirlitsstofnun og úrskurðarnefnd sem frumvörpin gera ráð fyrir. Ég tel að með þeim hætti væri hægt að sameina það að tryggja öryggi sjómanna eða réttarstöðu þeirra skulum við segja og hins vegar að halda uppi þeim nauðsynlega sveigjanleika sem þarf að vera til staðar í öllum atvinnugreinum.

Þar að auki hefði ég einnig viljað sjá eina undanþágu til viðbótar, þ.e. varðandi kaupleigu. Það er viðskiptaháttur sem er að ryðja sér til rúms í stærri eignum, þó að hann hafi tíðkast lengi með minni eignir, svo sem bíla, lyftara og smærri hluti í þeim dúr. En slíkir viðskiptahættir eru að ryðja sér til rúms í íslensku athafnalífi og það er þess vegna óeðlilegt til lengri tíma litið að útvegsmönnum skuli gert að fjárfesta einungis í gegnum banka og þeim beinlínis bannað að eiga slík viðskipti í gegnum kaupleigur sem kann að vera hagstæðara fyrir fyrirtækið og þar af leiðandi fyrir þjóðina í heild sinni. Það hefði ég viljað sjá í frv. um Kvótaþing og geri af þessum ástæðum, en einkum þó þeirri fyrri, þann fyrirvara á nál. sem þar kemur fram.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um fjórða frv., um stjórn fiskveiða, það eru má segja minni háttar mál sem koma í kjölfar hinna.

Herra forseti. Hver verður síðan afleiðingin af þessu? Auðvitað er erfitt að segja til um það. Þegar haldið er út í óvissuna þá grípur gjarnan um sig óöryggi og þess hefur gætt í viðtölum í fjölmiðlum við ýmsa aðila í sjávarútvegi, bæði sjómenn og útvegsmenn og eins þá sem eru í vinnslunni. Hins vegar er rétt að benda á að inn í þetta dragast smábátamenn. Þeir dragast má segja óverðskuldað inn í kjaradeilur og fá yfir sig óbeint lög sem þeir hafa ekki á nokkurn hátt komið að eða verið valdir að þar sem kjaradeilan nær ekki yfir smábátamenn.

Þær áhyggjur eru einnig umhugsunarefni, og ég deili þeim sannarlega, sem hefur verið lýst úr þessum ræðustóli og hjá ýmsum aðilum í greininni að einyrkjar kunni að leggjast af. Ég vona svo sannarlega að það muni ekki gerast en verði það niðurstaðan þá er einmitt rétt að hafa það í huga hvert stefnir í sjávarútvegi. Er það vilji manna að sjá hér eingöngu rísa upp svokallaðar stórútgerðir, fá fyrirtæki, og að einyrkjarnir hverfi smám saman? Um þetta verða menn að sjálfsöðgu að vera mjög meðvitaðir. Það hlýtur því að vera ánægjuefni að sjá á brtt. að fyrir árslok 1999 skuli hæstv. sjútvrh. gera Alþingi grein fyrir hvaða áhrif hafa orðið af þessum lögum, þ.e. ef frumvörpin verða samþykkt á þinginu, og ekki síst að skoða sérstaklega hvaða áhrif þau munu hafa á einyrkja. Það er ástæða til að nefna þetta sérstaklega og fylgjast vel með.

Verði þau áhrif sem hinir svartsýnustu spá, þá geta menn ímyndað sér áhrifin á ýmsar byggðir í landinu og má spyrja hvort það ýti enn frekar undir þá hröðu byggðaþróun sem átt hefur sér stað.

Ég held hins vegar að ástæða sé til að reyna að líta bjartsýnum augum á það sem tekur við og í rauninni ekki um annað ræða þegar lagasetning hefur átt sér stað og veruleikinn blasir við en að laga sig að þeim veruleika. Það er ástæða til að skoða það að nú bendir margt til þess að þorskstofninn sé mjög ört vaxandi og við megum vænta þess að sjá auknar aflaheimildir á næstu missirum. Fari svo að fleiri aðilar fari í gegnum Kvótaþingið má það ljóst vera af þessu tvennu samanlögðu að áhyggjur manna geti verið ástæðulausar. Ég segi þetta til að reyna að draga fram bjartsýnni hliðina á þetta, en auðvitað er það reynslan sem mun skera úr og þess vegna er nauðsynlegt að hafa það ákvæði í brtt. að Alþingi fjalli sérstaklega um reynsluna fyrir árslok 1999 þannig að hægt verði að bregðast við.

Hins vegar, herra forseti, er rétt að ítreka það sem komið hefur fram í umræðum, að það hlýtur að vera meginkeppikefli þingsins að skapa sjávarútvegsgreininni það rekstrarumhverfi og það umhverfi sem hún getur dafnað og blómstrað í en fyrst og fremst þó að stuðla að slíku umhverfi að friður og sátt geti skapast um þessa mikilvægustu atvinnugrein okkar. Það hefur gengið á stöðugum inngripum. Í rauninni eru þeir ekki öfundsverðir sem starfa við greinina hvort heldur er í rekstri eða sem sjómenn eða við vinnslu þar sem nánast stöðugur utanaðkomandi ófriður truflar eðlilegan rekstur. Ég tel, herra forseti, að meginverkefni okkar eigi að vera það að skapa henni traust rekstrarskilyrði, öruggt umhverfi og hún fái í rauninni frið til að dafna.