Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 18:49:23 (5216)

1998-03-27 18:49:23# 122. lþ. 96.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 122. lþ.

[18:49]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef tvær spurningar í framhaldi af ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég skildi það ekki, styður hv. þm. Kvótaþingið eða styður hann það ekki? Það er fyrri spurningin. Hin spurningin varðar framsal kvóta. Ég hef álitið hv. þm. vera einn helsta stuðningsmann kvótakerfisins á Alþingi og í mínum huga fer saman aflamarkskerfið og frjálst framsal á afla. Eins og ég skildi hv. þm. núna var hann að tala um einhvers konar framsal þar sem búið væri að draga skip í ákveðna dilka. Eins og ég skildi þetta þá átti að vera sér framsal milli ísfiskstogara, sér framsal milli línubáta, sér framsal milli smábáta og verksmiðjuskipa. Var þetta réttur skilningur eða hvað átti hv. þm. við þegar hann var að tala um að reisa þyrfti girðingar varðandi frjálst framsal? Ég vil því spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon: Er hann að hverfa frá stuðningi sínum við frjálst framsal aflaheimilda eins og það hefur verið?