Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 18:53:14 (5218)

1998-03-27 18:53:14# 122. lþ. 96.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, VE
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 122. lþ.

[18:53]

Vilhjálmur Egilsson:

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið skrifa ég með fyrirvara undir eitt af þessum málum, þ.e. frv. til laga um breyting á lögum um stjórn fiskveiða, en ég skrifa ekki á nefndarálit vegna frv. til laga um Kvótaþing. Ég mun í nokkrum orðum gera grein fyrir því af hverju afstaða mín er þessi.

Í fyrsta lagi vil ég segja að sannfæring mín er sú að nauðsynlegt hafi verið að setja lög á þessa deilu. Ég tel að hún hafi verið komin í þann hnút að ekki hafi verið um annað að ræða en að ganga til þess verks. Ég studdi það í grundvallaratriðum á þeim forsendum sem upp voru lagðar, þ.e. að því fylgdi frv. til laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og frv. til laga um Kvótaþing. Meiri hluti sjútvn. hefur fjallað um þetta mál og gert nokkrar brtt. við frv. um Verðlagsstofu skiptaverðs og ég hef stutt þær. Hins vegar gegnir öðru máli um Kvótaþingið. Staðan er einfaldlega sú að mínu mati að kastað hefur verið til höndum um samningu þessa frv. og hugmyndin sem í grundvallaratriðum getur vel virkað hefur nánast verið stórskemmd með þeirri útfærslu sem er í frv. og ýmis atriði sem í því eru eru meingölluð algerlega að óþörfu.

Ég hef gert athugasemdir við í frv. að gert er ráð fyrir að þegar skip er gert út, mörg skip eru gerð út af sömu útgerð þá skuli gerður greinarmunur á því hvort skip er á kaupleigu eða hvort það er fjármagnað öðruvísi. Með þessu er verið að mismuna gróflega fyrirtækjum eftir því hvaða fjármögnunarform þau kjósa að nota varðandi skip sín. Þarna er einnig verið að mismuna gróflega fyrirtækjum í fjármálaþjónustu eftir því hvort þau bjóða upp á kaupleigu sem fjármögnunarform eða hvort þau bjóða venjuleg lánsform. Ég tel að þessi mismunun sé algerlega ástæðulaus og í rauninni mjög varasöm, ekki síst í ljósi þess að ein af röksemdafærslunum fyrir þessari mismunun hefur verið sú að það fólk sem starfar við kaupleigufyrirtæki og þá þjónustu sé á einhvern hátt þátttakendur í ólöglegu athæfi eða broti á kjarasamningum sjómanna. Þetta tel ég algerlega af og frá. Kaupleiga er eðlilegur þáttur í okkar fjármagnsmarkaði og ég tel algerlega ónauðsynlegt að mismuna þessum þætti umfram aðra. Ég tel að engin sérstök hætta sé á því að þetta fjármögnunarform muni verða notað til að fara í kringum þessi lög umfram önnur fjármögnunarform. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um það.

Varðandi frv. sjálft er það meingallað eins og ég rakti áðan. Ég reyndi í starfi nefndarinnar að koma að ýmsum brtt. sem hefðu gert þessi lög miklu betri og gert starfsemi væntanlegs Kvótaþings miklu þjálli og eðlilegri en fyrirhugað er samkvæmt frv.

Í fyrsta lagi kemur fram í 1. gr. frv. að óskyld starfsemi sé Kvótaþingi óheimil. Þó er í 4. gr. frv. heimild til stjórnarinnar til að semja við óháðan aðila um að annast daglegan rekstur þingsins eða ákveðna þætti starfseminnar. Þá vaknar spurningin: Hvað gildir fyrir þann aðila sem tekur slíkt að sér? Er óskyld starfsemi honum óheimil? Ég nefni t.d. Verðbréfaþing Íslands. Samkvæmt orðanna hljóðan eins og frv. er sett fram gæti komið upp sú staða að Verðbréfaþing Íslands gæti ekki tekið að sér rekstur á Kvótaþingi vegna þess að það er í annarri starfsemi og það er að taka að sér drýgstan hluta af starfsemi Kvótaþingsins. Til hvers er þá verið að ræða um að ástæða sé til að fela Verðbréfaþingi Íslands þessa starfsemi? Þetta er atriði sem hefði mjög lítið þurft að hafa fyrir að laga en félagar mínir í meiri hluta sjútvn. voru ekki tilbúnir til að hlusta á.

Þá er í 4. gr. frv. ákvæði um hæfi stjórnarmanna. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þeir skulu ekki eiga beina eignaraðild að útgerðarfyrirtæki eða sitja í stjórn slíks fyrirtækis. Sama gildir um maka þeirra og skyldmenni í beinan legg.``

Nú er það svo að fjölmargir einstaklingar eiga mjög litla hluti í sjávarútvegsfyrirtækjum og almennt gildir á fjármagnsmarkaðnum að óverulegir eignarhlutir í fyrirtækjum eru ekki látnir hafa áhrif á hæfi manna til að gegna störfum framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja eða vegna setu í stjórn þeirra. Hér er hins vegar það ákvæði mjög stíft sett fram, algjörlega fortakslaust og meira en það, það er gerð krafa um að börn, tengdabörn eða foreldrar eigi heldur ekki slíka hluti í fyrirtækjum þannig að enginn getur í rauninni setið í stjórn Kvótaþings (SJS: En ófædd börn?) nema gefa út yfirlýsingu um að börn, tengdabörn eða foreldrar eigi ekki hluti, þó ekki sé nema smáhluti, í sjávarútvegsfyrirtækjum. Viðkomandi þarf þá væntanlega að hafa aðgang að skattskýrslum þessara barna sinna eða foreldra og þá fer að sneiðast um þá sem gætu setið í stjórn þessa ágæta Kvótaþings. Ég hef á tilfinningunni að þeir ágætu menn sem sömdu þetta frv. hafi kannski haft takmarkað vit á því sem þeir voru að gera þegar þeir settu þetta saman með tilliti til þess hvernig svona markaður virkar yfirleitt. Þeir virðast hafa verið algjörlega staðráðnir í því að tryggja að þeir sem sitja í stjórn Kvótaþings hafi enn þá minna vit á starfsemi þess heldur en þeir sjálfir virðast hafa í sambandi við þetta.

[19:00]

Ég lagði til í störfum nefndarinnar að þessu yrði breytt og það væri í rauninni hægt að fella þetta alveg niður og nóg að eftir stæði að stjórnarmenn ættu ekki að hafa slíkra hagsmuna að gæta að draga mætti óhlutdrægni þeirra í efa, en á þetta féllust félagar mínir í meiri hluta sjútvn. ekki.

Þá vil ég koma að því að viðskiptakerfi Kvótaþingsins er afar þunglamalegt. Þeir sem þykjast gera tilboð um sölu á aflamarki þurfa að senda skriflega beiðni þar um til Fiskistofu. Síðan er mjög þunglamalegt kerfi í því hvernig slík beiðni er endurnýjuð eða afturkölluð eða slíkt. Nú getur það að sjálfsögðu verið að sölutilboð standi í viðskiptakerfi Kvótaþingsins um töluverðan tíma og þannig sé ástatt að sölutilboði sé ekki tekið og þess vegna þurfi að endurnýja það nokkuð oft. Þessu fylgir mikið umstang bæði hjá Fiskistofu og ekki síður hjá viðkomandi aðila sem þarf að gera þetta á þennan hátt. Þess vegna lagði ég til að fyrirkomulagið yrði það að Kvótaþingið sjálft sæi um uppgjör viðskiptanna gagnvart skráningu hjá Fiskistofu og uppgjör að öðru leyti, að Kvótaþingið gæti kannað kvótareikninginn hjá Fiskistofu, bæði á hverjum morgni og eins áður en viðskiptin væru látin mætast, til þess að kanna hvort innstæða væri til á kvótareikningnum fyrir þessum flutningi. En það er eins og frumvarpshöfundarnir hafi einungis einblínt á það hvort viðkomandi ætti aflamark inni á sínum kvótareikningi þegar hann var að selja. Það er algjörlega litið fram hjá því í frv. að ýmsar viðskiptalegar ástæður eða forsendur geta verið fyrir því að seljandi aflamarks geti ekki staðið við sölutilboðið, að hann hafi gert einhvers konar viðskiptasamninga út og suður við þriðja aðila sem þýðir að hann geti ekki í rauninni selt, ekki vegna þess að ekki sé til fyrir því á kvótareikningnum heldur af allt öðrum viðskiptalegum ástæðum. Ekki er gert ráð fyrir slíku í frv. og ekki heldur gert ráð fyrir því að slíkur aðili selji samt aflamark, án þess í rauninni að geta efnt sölutilboðið, því þá var hins vegar mjög stíft refsiákvæði sett fram í upphafi þess efnis að sekta ætti viðkomandi með upphæð sem næmi tvöföldu andvirði selds aflamarks. Þessu hefur nú verið breytt og er rétt að þakka fyrir það sem lítið er. Því er breytt þannig að það sem seljandi aflamarks sem getur ekki efnt sölutilboðið þarf að gera er í fyrsta lagi að bæta það tjón sem hann hefur valdið og setja nægar tryggingar fyrir því að geta staðið við sitt tilboð.

Síðan lagði ég líka til að tryggja betur en er í frv. að viðskiptin gætu átt sér stað gagnvart tryggingum og öðru því að það getur líka gerst að kaupandi geti ekki efnt sitt kauptilboð. Þá er spurningin: Hvað gerist á þessu Kvótaþingi ef annaðhvort seljandi getur ekki efnt sölutilboðið eða kaupandi ekki kauptilboðið? Þá skulum við hafa í huga að þessi markaður er svokallaður blindur markaður. Fjölmargir geta átt viðskipti, 50 aðilar að selja, 50 aðilar að kaupa. Þetta fer allt saman í einn pott og enginn veit hver selur hverjum. En þá þýðir það hins vegar að ef einhver af þessum aðilum getur ekki staðið við sínar skuldbindingar af einhverjum ástæðum sem geta verið slys, mistök eða eitthvað slíkt, og upp kemur sú staða að ekki er hægt að efna viðskiptin á markaðnum þannig að sá viðskiptadagur dettur niður dauður.

Ég lagt fram þá tillögu að Kvótaþinginu væri heimilt að eiga ákveðinn varasjóð af aflamarki til þess að geta séð til þess að viðskipti á markaðnum væru alltaf efnd en féllu ekki niður. Hugsaðu þér, hæstv. forseti, ef upp kæmi sú staða t.d. á Verðbréfaþingi Íslands að fjögurra milljarða viðskipti hafi átt sér stað á einum degi og fyrirkomulagið væri þannig að ef einn af þessum viðskiptaaðilum gæti ekki efnt sitt tilboð að þá ógiltust öll viðskipti þann dag. Þannig er fyrirkomulagið sett upp á Kvótaþingi. Ef einn aðili af mjög mörgum, kannski hundrað, getur ekki efnt viðskiptin að þá eyðileggst allur dagurinn. Ég hafði lagt til að reynt yrði að bæta úr þessu þannig að þessi markaður yrði þjálli en á það var ekki hlustað.

Ef við horfum á fyrirkomulagið eins og það er á Verðbréfaþingi Íslands (Gripið fram í.) þá eru ákveðnir þingaðilar aðilar að þeim markaði. Þingaðilarnir setja ákveðnar tryggingar gagnvart Verðbréfaþinginu og mjög lítil áhætta er á því að ekki séu efndir á viðskiptum þingaðilanna hver við annan sem skipta við Verðbréfaþingið. Hins vegar gerist það oft að þeir sem þingaðilarnir eru að versla fyrir geta ekki staðið við sínar skuldbindingar og þá er það þannig að þingaðilarnir hafa birgðir af hlutabréfum eða skuldabréfum eða einhverjum slíkum pappírum eða önnur úrræði, sem þeir hafa verslað sjálfir fyrir eiginn reikning, til þess að sjá til þess að viðskiptin séu efnd.

Þessu er ekki til að dreifa á Kvótaþinginu vegna þess að þar eru ekki slíkir milliliðir sem hafa tök á því að geta séð til þess að viðskipti verði efnd, heldur þarf það að gerast inni á þinginu sjálfu vegna þess að fyrirkomulag viðskiptanna er þetta. Á þetta allt saman benti ég í umræðum um þetta mál og lagði til ákveðnar breytingar á frv. til þess að tryggja að hægt væri að efna viðskiptin. En félagar mínir í meiri hlutanum hlustuðu ekkert á þessar breytingar frekar en svo margt annað sem þarna var.

Ég ætla ekki að rekja í smáatriðum þær tillögur sem ég lagði fram. Ég held að þetta sé nokkuð nóg til þess að skýra það af hverju, hæstv. forseti, ég vil ekki leggja nafn mitt við þetta frv. eins og það lítur út og lái mér hver sem á mig hlýðir. Ég tel að forkastanlegt sé að leggja upp með málið í þessum búningi. Þetta gerir ekkert annað en að grafa undan trausti á þessu Kvótaþingi. Menn munu þurfa að koma í haust og staga í þessar reglur eins og þær eru settar upp og það verður trúi ég mikil sneypuför fyrir þá félaga mína í þessari hv. þingnefnd sem ekki vildu fyrir nokkurn mun taka þátt í að breyta frv. og Kvótaþingið sem ég í prinsippinu var tilbúinn til þess að styðja mun verða þvílíkur óskapnaður þegar það fer af stað að það mun bara tæpast virka fyrr en búið er að breyta þessum hlutum sem ég hef rakið hér.