Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 20:38:01 (5227)

1998-03-27 20:38:01# 122. lþ. 96.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, EKG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 122. lþ.

[20:38]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þau frv. sem við greiðum atkvæði um nú verður að skoða í samhengi og í einni heild. Forsenda þess að við göngum til hins erfiða og umdeilanlega verks að setja lög er banna verkfall er vitaskuld sú að því fylgir niðurstaða um það sem tekist var á um í vinnudeilu sjómanna og útgerðarmanna. Þau þrjú frv. sem liggja fyrir um stjórn fiskveiða, Verðlagsstofu skiptaverðs og Kvótaþing eru flutt af ríkisstjórninni til þess að tryggja að lausn fáist í harvítugri, sársaukafullri og stórhættulegri kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Það var þjóðarnauðsyn að ljúka þessari kjaradeilu og vinnustöðvun. Slíkt var ekki hægt að gera með einhliða lagasetningu sem bannaði verkfall. Þess vegna er niðurstaðan sú sem við stöndum nú frammi fyrir. Þó ég sé fráleitt sáttur við allt í þeirri lagasetningu lít ég svo á að í ljósi þeirrar stöðu sem við erum nú í beri að ljúka kjaradeilunni með efnislegri niðurstöðu. Sú niðurstaða birtist okkur í þessum lagafrumvörpum og því styð ég þau.