Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 21:08:10 (5231)

1998-03-27 21:08:10# 122. lþ. 97.2 fundur 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, ÁJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 122. lþ.

[21:08]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það er ástæðulaust að pukrast með þá staðreynd að það er mikil þjáning að þurfa að samþykkja þau frv. sem hér eru til afgreiðslu í kvöld, eins vitlaus og þau eru í mörgum þáttum. (Gripið fram í.) Eins og málið hefur vaxið í algjörri sjálfheldu og svelti má segja að hyggilegast sé að taka eitt skref í einu og samþykkja það bögglauppboð sem hér er um að ræða svo unnt sé að höggva á hnútinn og hefja nýja samningagerð og lagasmíð því ekki mun af veita í sameiginlegum hagsmunum sjómanna og útgerðarmanna þar sem sérstaklega hallar á einstaklingsútgerðina í landinu, þá útgerð sem hefur verið til fyrirmyndar á Íslandi. Ég vil í því sambandi vekja athygli á ákvæði til bráðabirgða í brtt. meiri hluta sjútvn. þar sem segir: ,,Sjávarútvegsráðherra skal fyrir lok fiskveiðiársins 1998/1999 láta kanna hvaða áhrif lögin hafi haft á íslenskan sjávarútveg, sérstaklega stöðu og möguleika einstaklingsútgerðarinnar. Skal ráðherra fyrir árslok 1999 leggja fyrir Alþingi skýrslu þar sem niðurstöður könnunarinnar verði birtar.`` Ég segi já.