Vistun ungra afbrotamanna

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 15:12:54 (5234)

1998-03-30 15:12:54# 122. lþ. 98.92 fundur 286#B vistun ungra afbrotamanna# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[15:12]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég byrja á því að þakka hv. 5. þm. Suðurl. fyrir að taka þetta mál til umfjöllunar. Málefni sem þessi eru mjög mikilvæg og sérstök ástæða er til þess að ræða þau á Alþingi.

Varðandi þær fyrirspurnir sem hv. þm. hefur sett fram vil ég segja það varðandi fyrstu spurninguna sem lýtur að því hvort áformað sé að koma á fót sérstöku unglingafangelsi eða sérstöku fangelsi fyrir ungt fólk að engar slíkar ákvarðanir hafa verið teknar. Þar kemur margt til. Ég vil fyrst vekja á því athygli að fjöldi þeirra sem afplána fangavist á þessum aldri er auðvitað nokkuð mismunandi frá einu ári til annars en á árinu 1996 luku 317 afplánun. Þar af voru 72 á aldrinum 21--25 ára, 29 á aldrinum 18--20 ára og fjórir sem voru yngri en 18 ára. Á síðasta ári luku 223 afplánun, 62 voru á aldrinum 21--25 ára, 17 á aldrinum 18--20 ára og tveir yngri en 18 ára.

Fangelsismálastofnun og sérfræðingar hennar hafa fram til þessa ekki talið þörf á að koma á fót sérstöku unglingafangelsi, m.a. með tilliti til þess takmarkaða fjölda sem lýkur afplánun á hverju ári, en einnig hafa þar á bæ verið settar fram efasemdir um að það sé öllum tilvikum besta aðferðin að setja þetta unga fólk allt í einn hóp. Reynslan hafi sýnt að það sé oft og tíðum erfiðara að fást við þennan vanda þegar þessir unglingar koma saman og í ýmsum tilvikum auðveldara þegar þeim hefur verið dreift á fleiri staði.

[15:15]

Það sjónarmið hefur líka verið sett fram að fangelsi af þessu tagi gæti dregið úr því að dómar yrðu skilorðsbundnir. Nú hafa dómstólar ákveðið að skilyrða eða ákveða sérstaklega að skilorðsbundnum dómum skuli fylgt ákveðið eftir og slíkir dómar leggja skyldur á Fangelsismálastofnun um eftirlit og má vænta þess að á komandi árum verði í ríkara mæli kveðið á um slíkt eftirlit og jafnvel bann við áfengis- og vímuefnanotkun af hálfu dómstólanna. Þetta kallar á nýtt hlutverk Fangelsismálastofnunar varðandi eftirlit með skilyrði. Það er rétt sem fram kom af hálfu hv. málshefjanda að í dag eru ekki aðstæður til þess að takast á við slíkt eftirlit sem má telja fullnægjandi og í ljósi nýrrar dómareynslu á þessu sviði er það mat mitt að á komandi árum þurfi að gefa þessum viðfangsefnum enn meiri gaum því að ég er sannfærður um að með virku eftirliti á þessu sviði þegar dómar hafa verið skilyrtir megi taka á ýmsum þeim vandamálum sem hv. þm. vék að.

Varðandi aðra spurninguna sem laut að því hvort rétt væri að flýta sérstaklega málsmeðferð eða koma á fót unglingadómstóli vil ég segja að ég tel almennt að sakamál fái mjög fljóta og góða rannsókn og meðferð í dómstólakerfinu og af þeirri ástæðu einni sé ekki ástæða til að taka upp sérstaka flýtimeðferð fyrir brot ungmenna. Auk þess ber að hafa í huga að ef sérstakir brotaflokkar eða mál einstakra brotamanna eiga að fá sérmeðferð hefur það áhrif á framgang annarra mála. Í þeirri endurskoðun opinbers réttarfars og dómstólakerfisins sem hefur farið fram á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á skjóta, samræmda og vandaða málsmeðferð. Í því felst m.a. að við höfum horfið frá sérstökum sérdómstólum vegna einstakra málaflokka eða hópa afbrotamanna og ég tel að það væri ekki til bóta að taka þá gömlu skipan upp á nýjan leik. Gildandi refsiákvæði veita mikið svigrúm þegar komið er að spurningu um val á viðurlögum. Þegar skilorðsbundnum refsingum er beitt er heimilt að setja sérstök skilyrði, m.a. varðandi það að hlíta fyrirmælum eftirlitsaðila um dvalarstaði, menntun, vinnu, umgengni við aðra menn, tómstundir, um það að viðkomandi neyti ekki áfengis eða deyfilyfja á skilorðstímanum, að viðkomandi undirgangist dvöl á hæli eða stofnun ef nauðsyn þykir í allt að 18 mánuði ef venja þarf hann af notkun áfengis eða deyfilyja en ella í allt að einu ári. Þegar um óskilorðsbundnar refsingar er að ræða eru ýmis úrræði til staðar fyrir ungmenni. Fyrir utan það val sem er á milli einstakra fangelsa er heimilt að þeir afpláni refsingu á sérstökum stofnunum utan fangelsa og það hefur verið gert að hluta eða í heild, t.d. hjá SÁÁ á Tindum meðan þeir voru reknir og á heimilum barnaverndaryfirvalda. En það er rétt að taka fram að forstöðumaður Fangelsismálastofnunar hefur tjáð mér að ástæðan fyrir því að meðferðarúrræðum er ekki beitt strax í upphafi fangavistar eigi fyrst og fremst rætur að rekja til þess að sérfræðingar varðandi meðferðarúrræði hafi talið að þau nýttust betur undir lok fangavistar en í upphafi og að sjónarmið fangelsisyfirvalda hafi fyrst og fremst byggst á þeim sjónarmiðum en þau er auðvitað sjálfsagt að taka til stöðugrar endurskoðunar og endurmats í ljósi þeirra viðhorfa sem eru uppi um árangursríka meðferð á hverjum tíma. Vitaskuld ræður það úrslitum um árangur meðferðar hvort heldur um er að ræða dæmda menn eða frjálsa að vilji þeirra sjálfra til meðferðar skiptir vitaskuld höfuðmáli.

Þá spyr hv. þm. að því hvort í deiglunni sé að auka við starfslið fangelsanna, sérstaklega á heilbrigðissviðinu. Á þessu sambandi minni ég á að nú hafa gengið í gildi lög þar sem heilbrrn. tekur yfir og hefur tekið yfir heilbrigðisþjónustu í fangelsum. Almennt hygg ég að hún sé fullnægjandi en Fangelsismálastofnun leggur þó höfuðáherslu á það í þessu sambandi að sem allra fyrst verði komið á fullnægjandi skipulagi um geðheilbrigðisþjónustu í fangelsunum en af forgangsverkefnum í fangelsunum sjálfum á vegum Fangelsismálastofnunar yrði lögð áhersla á að ráða hjúkrunarfræðing til starfa á Litla-Hrauni.

Varðandi fjórðu og síðustu spurninguna er það að segja að ráðuneytið hefur yfirfarið skýrslur sem vitnað hefur verið til um þessi efni og hefur ákveðið að setja á fót vinnuhóp til að skoða þessi álitaefni og vinna úr þeim hugmyndum sem settar hafa verið fram.