Vistun ungra afbrotamanna

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 15:39:32 (5238)

1998-03-30 15:39:32# 122. lþ. 98.92 fundur 286#B vistun ungra afbrotamanna# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[15:39]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hreyfa þessu alvarlega máli. Ein afleiðing þess að ungt fólk missir fótanna í samfélaginu er að það leiðist inn á afbrotaferil. Vandamálið hefur farið vaxandi í okkar þjóðfélagi og þrátt fyrir vaxandi umræðu og tilraunir stjórnvalda til að bregðast við hefur ekki tekist að snúa þróuninni við í þessum efnum.

Það er vissulega svo að fíkniefnanotkun á drýgstan þátt í að auka afbrot hérlendis einkum hjá ungu fólki og brýnt er að berjast gegn þeim vágesti með öllum ráðum. Hins vegar er umræðuefnið í dag vistun ungs fólks eftir að skaðinn er skeður og skerða verður frelsi þess vegna afbrota.

Það hefur komið fram í máli hæstv. dómsmrh. og félmrh. að ýmsar aðgerðir hafa verið uppi til þess að bæta meðferð þessara mála. Einnig er ljóst að enn vantar upp á að nægileg úrræði séu í boði ef bjóða á upp á meðferðarúrræði t.d. í stað fangavistar. Hækkun lögræðisaldursins virðist hafa dregið fram í dagsljósið vandamál sem áður var erfitt að taka á sem koma m.a. fram í því að nú eru um 25 manns á biðlista eftir meðferð í því kerfi.

Á vegum Barnaverndarstofu er unnið að undirbúningi úrbóta í þessu efni og kostnaðartölur hafa verið nefndar upp á 90 millj. kr., þ.e. kostnaður þessu samfara en á síðustu fjárlögum voru aðeins veittar 20 millj. kr. til að mæta þessum vanda og ljóst er að vinna þarf áfram að þessum málum og úrbætur í þessu efni kosta fjármuni.

Það er ljóst að hækkun sjálfræðisaldursins jók úrræði til að grípa inn í þegar illa fer hjá unglingum frá 16--18 ára aldri og er það vel. Æskilegt væri að hægt væri að grípa inn í sem mest á þessum vettvangi. Venjuleg fangavist er óyndisúrræði fyrir fólk á þessum aldri þó að til hennar sé gripið þegar allt um þrýtur og dómar eru fallnir. Ungt fólk sem vistað er í fangelsum á þessum aldri á því miður oft langan afbrotaferil að baki þrátt fyrir ungan aldur því reglan hefur verið sú að dómar fyrir fyrstu afbrot, ef þau eru ekki því alvarlegri, eru skilorðsbundnir.

Ég tel farsælast að yfirvöld dómsmála, félagsmála og heilbrigðismála vinni saman að því að gera áætlanir um heppileg úrræði í þessu alvarlega máli sem hér er rætt um. Ljóst er að aðgerða er þörf og breyttar aðstæður sem skapast af hækkun sjálfræðisaldursins auka möguleika til þess að taka snemma á málum og þá með úrræðum í félagslega kerfinu sem mér finnst afar brýnt að stefna að að verði aðalreglan.