Vistun ungra afbrotamanna

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 15:43:17 (5239)

1998-03-30 15:43:17# 122. lþ. 98.92 fundur 286#B vistun ungra afbrotamanna# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[15:43]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég var einnig á þeirri ráðstefnu með foreldrum fíkniefnaneytenda sem hv. 5. þm. Suðurl. nefndi áðan og frásagnir foreldra nokkurra ungmenna sem hafa lent í þeim hildarleik voru vissulega ógnvekjandi. Það er heldur ekki eins og þarna sé um að ræða örfáa unglinga sem eiga engan að. Þetta vandamál getur komið upp á hverju heimili á Íslandi í dag, hversu gott sem það er, heimili þar sem foreldrar eru af öllum mætti að gera allt fyrir unglingana sína. En áhrifin frá umhverfinu eru gríðarsterk og eitthvað veldur því, t.d. búferlaflutningar, að unglingar missa fótfestuna, fá ekki viðurkenningu frá umhverfinu í þeim mæli sem þeir þurfa og grípa þá til örþrifaráða til að gera sig gildandi. Það sem gerir meðferð unglinga erfiðari en annarra er að þeir eru sjálfir ekki reiðubúnir til að horfast í augu við eigin vanda fyrr en allt er komið í óefni. Þeim finnst oftar en ekki að foreldrar eða kennarar séu að gera úlfalda úr mýflugu þegar reynt er að tala um fyrir þeim.

Afbrot unglinga eru einnig oftar en ekki tengd tilraunum þeirra til að verða sér úti um fjármuni til að geta haldið sér í vímu. Á vegum Barnaverndarstofu var haldinn fyrirlestur nýlega um sænska endurhæfingarstofnun, Hassela, sem tekur í þriggja ára enduruppeldi ungmenni á aldrinum 16--20 ára sem eiga í alvarlegum vímuefnavanda en einnig geta komist á stofnunina þeir sem hafa hlotið dóma vegna afbrota, en eins og við þekkjum eru þeir gjarnan í vímuefnum líka. En þeir verða að undirrita samning til að undirgangast það sem meðferðin krefst af þeim, þar á meðal að stunda nám. Enginn er útskrifaður frá þessari stofnun nema með bréf upp á réttindi í einhverri starfsgrein sem þau geta sjálf valið um. Síðasta meðferðarárið stunda þau almenna vinnu eða skólanám undir eftirliti skilorðsmanna. Þessi meðferð hefur gefið gríðarlega góðan árangur og leiddi rannsókn sem gerð var af hlutlausri stofnun á lífi þeirra sem höfðu lokið meðferð fimm árum áður að yfir 70% þeirra stunduðu nám eða vinnu og voru lausir við alla vímugjafa og höfðu ekki lent í afbrotum. Slíkur árangur er svo góður þegar litið er til þess hve alvarleg vandamál þeirra voru sem þarna áttu í hlut er þeir komu til meðferðar að við hljótum að staldra við og athuga hvort hér séu skilyrði til að setja á stofn álíka stofnun.

Á það má einnig minna að á þessari stofnun er lögð mikil áhersla á að vinna með forráðamönnum ungmennanna eftir því sem kostur er á en fjölskyldur þessara ungmenna verða oft ótrúlega illa úti eftir það hörmungartímabil sem þær hafa lifað á þeim tíma sem líf barna þeirra var á ystu nöf og ekki réðist við neitt. Þá má ekki gleymast að samstæð og sterk fjölskylda er það sem gefur besta og þjóðfélagslega hagkvæmasta stuðninginn eftir að meðferð er lokið.