Vistun ungra afbrotamanna

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 15:52:40 (5242)

1998-03-30 15:52:40# 122. lþ. 98.92 fundur 286#B vistun ungra afbrotamanna# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[15:52]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakkir hv. þm. til hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um að hafa frumkvæði að þessu máli.

Við þingmenn höfum orðið varir við það undanfarin ár að vaxandi þrýstingur er frá almenningi vegna ótta og óöryggis vegna glæpa að þyngja refsingar og gera þær harðari. Það vekur upp spurninguna um það, herra forseti, til hvers refsingar séu. Sumir telja að refsing sé hefnd samfélagsins. Stundum er hún til viðvörunar, til að vara fólk við að ef það gerir þetta, þá gerir samfélagið þetta. Stundum er það hugsað til að geyma menn, forða almenningi frá þessu hættulega fólki. En endrum og eins, og það er væntanlega okkar viðhorf, er það til að endurhæfa, til að gera fólk betra. Það ætti að vera grunnhugsun okkar í fangelsismálum. Fangelsi ættu að heita betrunarhús.

Herra forseti. Hér hafa brot tengd fíkniefnum nokkuð verið nefnd og þau eru þess eðlis að við stöndum eiginlega dálítið úrræðalaus gagnvart þeim. Þetta er ný reynsla fyrir löggjafann, dómskerfið, lögregluna og fyrir fangelsisyfirvöld. Komið hefur fram að við erum að tala um sjúkt fólk og það tekur maður ekki sömu tökum og þá sem eru heilbrigðir.

Herra forseti. Þegar ungur maður kemur inn í fangelsi byrjar ákveðið niðurbrot á siðferði. Það er nefnilega þannig að maðurinn sem var dæmur fyrir virðisaukaskattsbrot reynir að réttlæta brot sitt fyrir sér. Að hann hafi verið að halda fyrirtækinu gangandi. Þetta hafi ekki verið neitt brot í sjálfu sér. Maður sem er dæmdur fyrir ástríðuglæp, hvort sem það er ofbeldi eða jafnvel morð vegna afbrýðisemi, hann réttlætir fyrir sér að hann hafi ekki verið með sjálfum sér þegar hann framdi glæpinn og þetta sé kannski allt í lagi og skiljanlegt. Þannig gerist það að fangi sem kemur inn lærir að skilja orsakir og afsakanir allra hinna fanganna á glæpum sínum og þekking hans á réttu og röngu fer hríðhrakandi meðan hann situr inni. Þeir sem höfðu lélegt siðferðisþrek áður hafa því enn þá verra siðferðisþrek þegar þeir eru búnir að sitja inni dálítinn tíma.

Að bæta siðferðisþrekið er mjög erfitt verkefni en þetta er verðugt verkefni og við verðum að hafa trú á því góða í hverjum manni þegar við ráðumst á þetta verkefni sem felst í því að bæta menn, að gera hinum seka grein fyrir því að hann hafi brotið reglu samfélagsins og sætta hann við afleiðingarnar. Við þurfum að byggja upp sjálfsímynd fangans og gera honum grein fyrir gildi boða og reglna, hvers vegna við eigum ekki að stela, ljúga og myrða. Við þurfum að kenna honum, jafnvel upp á nýtt eða kannski í fyrsta skipti, muninn á réttu og röngu.