Meðferð opinberra mála

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 16:16:25 (5248)

1998-03-30 16:16:25# 122. lþ. 98.10 fundur 441. mál: #A meðferð opinberra mála# (sektarinnheimta) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[16:16]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá framsögumanni nefndarinnar hef ég skrifað undir þetta nál. með fyrirvara.

Frv. sjálft fjallar um að gera meðferð minni háttar sakamála markvissari og ná bættum árangri í sektarinnheimtu og við það út af fyrir sig geri ég ekki athugasemdir. En ég hef efasemdir um að lögreglan eigi að hafa á sinni hendi innheimtu sekta. Þó að frv. fjalli ekki sérstaklega um hver hafi innheimtuna með höndum er ástæða til að vekja athygli á þessu við umræðuna málið. Ég vil einnig benda á að fulltrúi frá lögreglustjóraembættinu tók undir þessa skoðun að óheppilegt væri að rekstrarafkoma embættisins væri tengd innheimtu sekta. Upplýsti fulltrúi lögreglustjóra m.a. að verið væri að kanna aðrar leiðir varðandi innheimtu á sektunum.

Innheimtuhlutfall sekta hefur verið mjög lágt hér á landi eða um 20--25% en innheimtuhlutfall annars staðar á Norðurlöndum er um 90% en þar annast lögreglan ekki innheimtu sekta og er það mat mitt að það eigi ekki að vera í verkahring hennar en fyrir jólin voru á fjárlögum fyrir þetta ár skornar niður fjárveitingar til lögreglustjórans í Reykjavík um 30 millj. og embættinu ætlað að ná þeim tekjum með bættri innheimtu sekta.

Herra forseti. Ég tel að óeðlilegt að rekstrarafkoma embættisins sé undir því komin hvernig lögreglunni tekst að ná til lögbrjóta og að innheimta sektir vegna þeirra. Út af fyrir sig fjallar 1. gr. frv. ekki um það hver hefur innheimtuna með höndum heldur að gera meðferð sektarmála skilvirkari og þar kom fram að ef tekin yrði ákvörðun um að flytja innheimtuna frá lögreglustjóraembættinu hefði þessi grein sem hér er verið að breyta á meðferð opinberra mála ekki áhrif á það. Engu að síður tel ég ástæðu til að vekja athygli á þessu við umræðu og umfjöllun um frv.

Það sem ég geri athugasemd við, og gerði reyndar við 1. umr. líka, er 2. gr. frv. Hún fjallar um gildistöku greinarinnar og segir að lög þessi öðlist þegar gildi. Síðan er ekki sagt meira um það í sjálfri frumvarpsgreininni. Síðan segir í skýringartexta um þessa grein, með leyfi forseta:

,,Verði frumvarpið að lögum er lagt til að þau öðlist þegar gildi. Við gildistöku laganna geta þau mál sem þegar eru til meðferðar hjá lögreglustjóra sætt þeirri meðferð sem lögð er til með frumvarpinu þótt brot hafi verið framið fyrir það tímamark.``

Ég vil í fyrsta lagi geta þess að í einni umsögninni kom fram ábending um að ef frv. ætti að gilda um brot sem voru framin fyrir það tímamark hefði verið ástæða til að geta þess í lagatextanum sjálfum en það er ekki gert af hálfu nefndarinnar.

Út af fyrir sig geri ég ekki athugasemdir við það heldur að þau mál sem þegar eru til meðferðar hjá lögreglustjóra sæti þeirri meðferð sem lögð er til með frv. þótt brot hafi verið framið fyrir það tímamark. Ég tel að það ákvæði og túlkun þess orki mjög tvímælis að ógreiddar sektir í kerfinu eigi að sæta meðferð samkvæmt þessu frv. þar sem hert er á sektarinnheimtu þó um sé að ræða brot sem framin eru áður en lögin taka gildi. Vissulega er búið að ákveða refsinguna en sektarinnheimtunni sjálfri er breytt. Ef maður lítur til stjórnarskrárinnar þá segir þar:

,,Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Viðurlög mega ekki verða þyngri en heimiluð voru í lögum þá er háttsemin átti sér stað.``

Á þetta hef ég bent. Sektir eru viðurlög og það er verið að breyta fullnustunni frá því sem var þegar brotin voru framin. Það er það sem ég tel orka mjög tvímælis, að láta þetta gilda um sektir og brot sem framin voru áður en þessi lög tóku gildi. Ég mun því ekki greiða þessari grein atkvæði mitt.

Þar sem 1. gr. breytir ekki því hver hafi innheimtuna með höndum sem ég tel að þurfi að gera þá geri ég ráð fyrir að ég muni styðja hana.