Lögreglulög

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 16:22:46 (5249)

1998-03-30 16:22:46# 122. lþ. 98.11 fundur 442. mál: #A lögreglulög# (samstarf lögregluliða, valnefnd Lögregluskólans o.fl.) frv., Frsm. ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[16:22]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. á þskj. 1019 um frv. til laga um breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason og Þórhall Ólafsson frá dómsmálaráðuneyti og Jónas Magnússon og Gylfa Thorlacius hrl. frá Landssambandi lögreglumanna. Þá hafa nefndinni borist nokkrar umsagnir um málið.

Frumvarpið felur í sér breytingar á nokkrum ákvæðum lögreglulaga. Helstu breytingar eru þessar. Í fyrsta lagi er lagt til að dómsmálaráðherra verði heimilað, að fengnum tillögum ríkislögreglustjóra, að kveða á um samstarf lögregluliða um lengri tíma í tilteknum landshluta eða héraði. Þá er lagt til að valnefnd Lögregluskólans verði til ársloka 1998 heimilt að víkja frá aldursskilyrði lögreglulaga við val nema úr hópi umsækjenda. Einnig er lögð til sú breyting að ríkislögreglustjóri en ekki dómsmálaráðherra skipi lögreglumenn aðra en yfirlögregluþjón og aðstoðaryfirlögregluþjón.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu.

Er einkum um þær að segja varðandi 1. og 3. tölul. brtt. sem birtast á þskj. 1020 að:

Ábendingar bárust um að fyrirkomulag það sem mælt er fyrir um í fyrri efnismálsgrein 4. gr. frumvarpsins væri andstætt meginreglum stjórnsýsluréttar, þar sem með því væri sama aðila, þ.e. ríkislögreglustjóra, falið vald til að veita lausn frá embætti um stundarsakir vegna meintra brota í starfi og sjá um rannsókn á kærum á hendur lögreglumönnum um slík brot í starfi. Því leggur nefndin til að gerðar verði breytingar á 5. og 35. gr. lögreglulaga þess efnis að kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir meint refsivert brot við framkvæmd starfa hans skuli beina til ríkissaksóknara og fari hann með rannsókn málsins. Lagt er til að við meðferð slíkra mála geti ríkissaksóknari beitt þeim heimildum sem lögregla hefur endranær og ber lögreglu að veita ríkissaksóknara aðstoð við rannsókn slíkra mála. Þá eru í 2. tölulið breytingartillagnanna lagðar til breytingar til leiðréttingar á villum sem voru í frumvarpstextanum.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir í nefndu þingskjali og skrifa allir nefndarmenn undir álitið en Bryndís Hlöðvarsdóttir með fyrirvara.