Lögreglulög

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 16:25:09 (5250)

1998-03-30 16:25:09# 122. lþ. 98.11 fundur 442. mál: #A lögreglulög# (samstarf lögregluliða, valnefnd Lögregluskólans o.fl.) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[16:25]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. hv. allshn. með fyrirvara og vil gera grein fyrir honum nú.

Ég byrja á því að taka fram að ég er hlynnt því fyrirkomulagi sem lagt er til í 1. gr. frv. um að ríkislögreglustjóri geti ákveðið að höfðu samráði við lögreglustjóra að lögreglulið í einu umdæmi skuli tímabundið gegna lögreglustörfum í öðru umdæmi og að ríkislögreglustjóri skuli þá ákveða jafnframt hver skuli fara með stjórn þess. Ég held að þessi breyting sé þörf og einnig það sem líka er gert ráð fyrir í 1. gr. að dómsmrh. geti samkvæmt tillögu ríkislögreglustjóra kveðið á um skipulagt samstarf lögregluliða við framkvæmd og stjórnun ákveðinna löggæsluverkefna og miðlun mannafla milli lögregluliða á tilteknu svæði til að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu.

Í 1. gr. er líka kveðið á um að ráðherra geti samkvæmt tillögu ríkislögreglustjóra falið lögreglustjórum tímabundið tiltekin löggæsluverkefni utan umdæmis síns ef hagfellt þykir vegna staðhátta.

Þessar breytingar geta t.d. lotið að samnýtingu tækjabúnaðar, samræmingu löggæslustarfa, t.d. á sviði fíkniefna- og umferðarlöggæslu eða leitar- og björgunarstarfa og þjálfunar lögreglumanna. Ég held að þetta sé því mjög þörf breyting.

Eins og tekið er fram í athugasemdum með frv. er æskilegt að geta skipulagt hvernig haga skuli miðlun mannafla milli lögregluliða um lengri tíma til þess að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, t.d. við ýmsar samkomur og útihátíðar. Þessi breyting hefur í för með sér að þá muni ekki í hverju einasta tilviki þurfa að leita samþykkis eða fyrirmæla ríkislögreglustjóra um miðlun mannafla milli lögregluumdæma. Ég held að þarna sé mjög þörf breyting á ferðinni og styð hana. Fyrirvari minn lýtur því ekki að þeirri breytingu en hann lýtur að þeirri breytingu sem kemur fram í 4. gr. frv. Þar er kveðið á um að ríkislögreglustjóri skuli skipa aðra lögreglumenn en yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna en dómsmrh. hefur skipað alla lögreglumenn hingað til.

Eins og fram kom hjá framsögumanni nefndarinnar, hv. þm. Árna R. Árnasyni, þá hefur hv. allshn. nú þegar brugðist við þeirri gagnrýni sem kom fram á þetta ákvæði frv. með því að leggja til að kæru á hendur lögreglumanni fyrir meint refsivert brot skuli beina til ríkissaksóknara og tel ég þá breytingu til bóta. Hins vegar hefur verið á það bent að ekki sé rétt að hafa tvenns konar lögreglumenn: Annars vegar þá sem eru ráðherraskipaðir og hins vegar þá sem eru skipaðir af ríkislögreglustjóra. Það eru rök fyrir því að færa skipunarvaldið frá ráðherra en þau rök eiga við um alla lögreglumenn en ekki bara suma. Ég get nefnt þau rök að það séu í raun og veru meiri líkur á að það verði um faglegt mat að ræða við ráðningar en ella þannig að ríkislögreglustjóri muni frekar en ráðherra geta metið hverjir eigi að vera lögreglumenn og hverjir ekki. Þannig eru meiri líkur á að fagleg sjónarmið ráði við skipun í þessi störf í stað t.d. pólitískra en þetta á að sjálfsögðu við um alla lögreglumenn að mínu mati en ekki bara suma. Því get ég ekki stutt þessa breytingu eins og hún kemur fyrir.

Ég vil líka vekja athygli á því að í umsögn fjmrn. kemur fram það mat að breytingin sem kemur fram í þessu frv. muni ekki hafa kostnaðarauka í för með sér. Ég efast stórlega um að þetta mat geri verið rétt, herra forseti, hvað varðar 1. gr. frv. og þær breytingar sem hún hefur í för með sér, þ.e. breytingin sem snýr að samstarfi og samnýtingu lögreglunnar. Það lítur út fyrir að breytingin muni hafa það í för með sér að oft verði um að ræða að sérhæfðar lögreglusveitir af þéttbýlissvæðum verði nýttar úti í dreifbýlinu og ég sé ekki betur en það hljóti að hafa í för með sér ákveðinn kostnaðarauka, t.d. í formi dagpeninga og annarra hluta sem fylgja því þegar skipt er um starfsvettvang, þegar lögreglumaður fer af sínum venjulega og almenna starfsvettvangi út fyrir umdæmi sitt. Þessi atriði eru að því er ég best veit bundin í kjarasamninga lögreglumanna og munu því óneitanlega fela í sér kostnaðarauka.

[16:30]

Úr því að hæstv. dómsmrh. er hér á staðnum vil ég nota tækifærið og beina því til hans, hvort þessi þáttur hafi ekki verið tekinn með þegar kostnaðarmatið er gert á þessu frv. eða öllu heldur hvort hann telji ekki að þennan þátt vanti inn í mat fjárlagaskrifstofunnar. Því að líklega er það svo að ekki er hægt að fara fram hjá ákvæðum í almennum kjarasamningum um dagpeninga og aðrar greiðslur sem fylgja því þegar menn eru fluttir á milli umdæma.