Lögreglulög

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 16:31:55 (5252)

1998-03-30 16:31:55# 122. lþ. 98.11 fundur 442. mál: #A lögreglulög# (samstarf lögregluliða, valnefnd Lögregluskólans o.fl.) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[16:31]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt við umræðu um breytingar á lögreglulögum að fara nokkrum orðum um einn þann þátt sem hér er gerð tillaga um að breyta en það varðar skipan lögreglumanna og þá ekki síst skipan yfirmanna lögreglu. Hér er að vísu eingöngu talað um yfirlögregluþjón og aðstoðaryfirlögregluþjón en ég held að það sé ástæða til við þessa umræðu að fara nokkrum orðum um skipunarvaldið almennt á þessum vettvangi.

Það er auðvitað veruleiki sem menn hafa horfst í augu við nú um langt árabil að núverandi ríkisstjórnarflokkar, Sjálfstfl. og Framsfl., hafa um áratuga skeið skipt dómskerfinu á milli sín og þá ekki síst löggæslunni þegar kemur að skipan æðstu yfirmanna lögreglunnar. Það sama á við um sýslumenn og úttektir fjölmiðla í gegnum árin hafa sýnt svo ekki verður um villst að nær undantekningarlaust eru sýslumenn hringinn í kringum landið, yfirmenn lögreglu hringinn í kringum landið flokkshollir sjálfstæðis- eða framsóknarmenn. Á því eru vafalaust góðar undantekningar en á þeim vettvangi hefur helmingaskiptareglan milli þessara stjórnmálaflokka ekki síst verið staðfest og verið gerð bersýnileg. Nýleg tíðindi og nýlegar skipanir hæstv. dómsmrh. í þeim efnum taka auðvitað af allan vafa í því að flokksskírteinið ræður þar meiru um en hæfi manna, reynsla, menntun og þekking.

Skemmst er að minnast skipan ríkislögreglustjóra fyrir ekki mörgum vikum síðan sem sannarlega hefur leitt af sér almenna opinbera umræðu um það hvernig hæstv. dómsmrh. fer með skipunarvaldið og hafa aðrir umsækjendur með réttu og með sanngjörnum rökum farið þess á leit að það yrði rökstutt. Það var reynt að gera en rökstuðningurinn varð harla léttur í vasa þegar til kom. Mér er reyndar ekki kunnugt um hvar mál annarra umsækjenda eru á vegi stödd. Ég vil þó rifja upp að einn umsækjanda hafði á orði að hann mundi leita réttar síns á öðrum vettvangi, hvort það var á vettvangi Jafnréttisráðs eða annars staðar skal ég ekki um segja.

En þetta var aðeins toppurinn á ísjakanum því að eftirtektarvert er að ekki eingöngu þegar rætt er um þetta valdamikla embætti ríkislögreglustjóra verður hæstv. dómsmrh. og Sjálfstfl. hált á svellinu, heldur hafa líka nýlegar ráðningar yfirmanna lögreglunnar í Reykjavík vakið menn til umhugsunar um það hvað það er í raun og sanni sem ráði úrslitum þegar valið er í þessar mikilvægu stöður hjá hinu opinbera. Þess vegna hef ég skilning á því þegar hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir gerir sérstakan fyrirvara um að það skuli vera á valdi hæstv. dómsmrh. til framtíðar að hann hafi skipunarvald þegar kemur að skipan yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna. Reynslan hræðir í þeim efnum, sporin hræða, og nóg er nú samt. Eðli máls samkvæmt er auðvitað skynsamlegt og í anda þeirra stefnumörkunar sem ríkisstjórnin hefur farið fram með hvað varðar ríkisstofnanir að það verði á hendi yfirmanns hverrar stofnunar fyrir sig að velja sér nánustu samstarfsmenn og þeir hafi um það sjálfdæmi en þurfi ekki að leita til æðra yfirvalds, ráðuneyta eða ráðherra í þeim efnum.

Þess vegna tel ég það óskynsamlega niðurstöðu í frv. að menn skuli fara þá leið að setja það skipunarvald áfram á hendur hinu pólitíska valdi, hæstv. dómsmrh., að skipa í þessar mikilvægu stöður.

Ég held að ég sé ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli og auðvitað hafa almennar umræður og opinberar umræður á síðustu mánuðum og raunar missirum sýnt fram á ákveðnar alvarlegar brotalamir í samskiptum yfirstjórnar lögreglu og undirmanna. Þar virðist eins og annaðhvort séu boðskipti ekki með þeim hætti sem æskilegt er ellegar að stjórnun sé ekki sú sem ástæða er til að gera kröfur um, eða þá að trúnaðarbrestur er hreinlega á milli almennra lögreglumanna og yfirstjórnar lögreglu. Ég er hér að tala um lögreglustjóraembættið í Reykjavík. Það væri dálítið hjákátlegt að við ræddum einmitt um þetta skipurit lögreglu og breytingar á lögreglulögum án þess að við nefndum einu einasta orði við umræðuna þau alvarlegu tíðindi sem okkur hafa verið birt í fjölmiðlum á síðustu dögum og lúta að umsýslu með fíkniefni og hvarf fíkniefna úr vörslu lögreglunnar. Ég hef eins og aðrir hv. þm. og þjóðin öll fylgst með þeirri umræðu í gegnum fjölmiðla, fylgst með svörum yfirmanna lögreglu og raunar hæstv. dómsmrh. líka þar sem þessir einstaklingar hafa lýst yfir miklum áhyggjum sínum yfir því að svona hlutir geti gerst innan herbúða lögreglunnar.

Svo langt hefur þessi umræða gengið að þeir lögreglumenn sem hafa starfað í fíkniefnadeildinni á síðustu árum og raunar allt aftur til ársins 1981 hafa eðlilega látið sér til hugar koma samkvæmt fjölmiðlafréttum að óska eftir lausn frá embætti til þess að allur vafi verði af tekinn að þeir séu ekki meintir sökunautar í máli þessu. Mér dettur ekki í hug eitt aukatekið andartak að ætla að einhverjir vafasamir hlutir séu í þeim efnum hjá almennum lögreglumönnum í Reykjavík eða hringinn í kringum landið.

Ég geri hins vegar þá kröfu til þeirra pólitísku ábyrgðarmanna í þessum málum, hæstv. dómsmrh., sem hefur setið í sínu embætti í heil sjö ár, að þeir axli nú ábyrgð. Að þeir axli ábyrgð en komi ekki hér aftur og aftur fram fyrir alþjóð og tali um að það séu brotalamir og það séu alvarlegir hlutir að gerast hjá íslenskum lögreglumönnum. Eftir höfðinu dansa limirnir og við hljótum auðvitað að gera kröfu til þess að hæstv. ráðherra og lögreglustjórinn í Reykjavík taki á sig ábyrgð í þessum efnum, en að ábyrgðinni sé ekki sýknt og heilagt, aftur og aftur vísað í neðri lög, vísað á hendur almennum lögreglumönnum sem eru hér að púla daginn út og inn --- fyrirgefðu orðbragðið, virðulegi forseti, en öðruvísi verður það ekki nefnt, fyrir skítalaun og eiga erfitt með að láta enda ná saman. Eru að vinna oft á tíðum við vonlausar aðstæður með lélegan tækjabúnað. Nú síðast var í helgarblöðunum, eða í nýlegu tímariti Lögregluskólans birt viðtal við einn reyndan lögreglumann sem sagðist hafa sagt það um langt árabil að það væri brandari hvernig lögregluyfirvöld stæðu að verki þegar kæmi að því að velja tækjabúnað, til að mynda lögreglubifreiðar, fyrir íslenska lögreglumenn. Hann orðaði það þannig ef ég man rétt að valdir væru eins konar fjölskyldubílar, og þegar meintir brotamenn væru staðnir að verki þá settust þeir upp í sínar hraðskreiðu bifreiðar og vinkuðu þeim bless. Þessi gagnrýni er ekki ný af nálinni. Ég minnist þess að hún var uppi á borðum fyrir einum tveimur áratugum þegar ég á mínum skólaárum starfaði sem slíkur hjá lögreglunni í Reykjavík.

Ég er satt að segja orðinn leiður á því, virðulegi forseti, að þjóðinni sé boðið upp á það aftur og aftur, þinginu sé boðið upp á það aftur og aftur að þegar upp koma mál sem sannarlega þarf að skoða og eru gagnrýni verð, þá sé þeim málum bara sópað svona út til hinna almennu lögreglumanna og það sagt --- af þeim sem hina raunverulegu ábyrgð bera --- þetta eru alvarlegir hlutir, á þessu þarf að taka. Við hljótum að fara að gera kröfu til þess að þeir sem hafa stjórnina með höndum fari nú senn að taka sína ábyrgð. Mér er ekki grunlaust um það, af því mér dvelst hér eilítið við lögregluna í Reykjavík, að þar sé orðin dálítil vík á milli vina þegar kemur að yfirstjórn hennar annars vegar og almennum lögreglumönnum hins vegar. Þetta merki ég af samtölum við lögreglumenn sem finnst vanta mikið upp á það í fyrsta lagi að boðskiptaleiðir séu skýrar og klárar, að yfirstjórn lögreglunnar láti sig varða það sem lögreglumennirnir, sem vinna úti á akrinum, eru að gera. Og í þriðja lagi, sem er kannski ekki hvað síst í þessum efnum, að þeir finni til þess að þeir njóti trúnaðar og stuðnings hjá yfirmönnum sínum þegar á bjátar, en að þessir yfirmenn, og ég staldra enn og aftur við þá tvo sem ég hef nefnt hér sérstaklega, lögreglustjórann í Reykjavík og hæstv. dómsmrh., sýni þann nauðsynlega stuðning en afgreiði ekki málin út um opinn gluggann með almennum yfirlýsingum á borð við þær að hér sé um alvarlega mál að ræða. Ég geri með öðrum orðum eðlilega kröfu til þess að menn beri pólitíska og faglega ábyrgð á því sem gerist í starfsemi lögreglunnar hjá þeim aðilum sem hana bera.

Ég vil láta það koma fram, virðulegi forseti, við þessa umræðu að sumar þær breytingar sem hér er að finna eru skynsamlegar og eru til bóta. Sérstaklega tel ég það skynsamlegt að ríkislögreglustjóri geti ákveðið, að höfðu samráði við lögreglustjóra, að lögreglulið í einu umdæmi, skuli geta gegnt störfum í öðru umdæmi. Þar sé um ákveðna skörun að ræða, samstarf og samhæfingu sem er auðvitað svo mikilvæg í þessum efnum, því að eins og oft hefur komið fram upp á síðkastið í umræðum um fíkniefnamál, að þá virða þessir brotamenn engin landamæri í þessum efnum. Hæstv. dómsmrh. svaraði fyrirspurn minni ekki fyrir margt löngu einmitt um þessi efni, þar sem ég spurði um tiltekin dæmi, um fíkniefnalögreglumenn sem voru ráðnir á síðasta ári með sérstakri fjárveitingu að tillögu ríkisstjórnar, að þeim yrði gert kleift að sinna sínu starfi með þeim hætti að umdæmi þeirra væri ekki einn tiltekinn kaupstaður, þ.e. dvalarstaður þeirra eða vinnustaður, heldur svæðið allt, fjórðungurinn allur. Og hæstv. dómsmrh. lét þess getið að hann ætlaði að beita sér fyrir því og hefði beitt sér fyrir því að þessir lögreglumenn væru í góðu sambandi við höfuðstöðvar fíkniefnalögreglunnar í Reykjavík, þar sem hiti og þungi dagsins hefur kannski ekki síst hvílt á í þessum efnum.

[16:45]

Enginn má skilja orð mín þannig að ég sé að fordæma frv. í heild og breidd en ég tel auðvitað ekki unnt að snerta á umræðunni öðruvísi en að rifja það upp sem við höfum rætt af miklum hita og þunga á síðustu vikum og mánuðum, þann vanda sem er sannarlega við að etja í fíkniefnamálum og það hversu lögreglan hér á landi hefur átt erfitt uppdráttar af mörgum orsökum til þess að takast á við vandann. Ég undirstrika að auðvitað gerir lögreglan ein og sér ekki nein kraftaverk þegar kemur að baráttunni gegn fíkniefnum eða dómsmrh. Enn þá erum við í þeim sporum, því er verr og miður, að þrátt fyrir ágætan vilja og almennt tal um samhæfingu allra þeirra ráðuneyta sem koma að þessum fíkniefnamálum vantar svo mikið upp á að samstarfið gangi fram snurðulaust og virkt eins og vera ætti. Þar vantar enn þá mikið upp á. Ég kalla enn þá eftir því að menn bretti upp ermar og láti ganga fram samstarf heilbrigðismála, félagsmála, dómsmála og forsrn. svo ég nefni fjögur ráðuneyti af vafalaust fleirum sem inn tengjast í þennan alvarlega málaflokk af einum eða öðrum toga.

Að lyktum segi ég þetta, virðulegi forseti. Ég leggst gegn því að taka áhættu af því að hæstv. dómsmrh. hafi þetta skipunarvald í hendi. Hann hefur því miður sýnt það og forverar hans í embætti líka. Þá er ég að tala um flokksbræður hans, forvera hans í samstarfsflokknum í núv. ríkisstjórn. Það er engin tilviljun að helmingaskiptin hjá þessari helmingaskiptastjórn hafa birst mjög skýrt þegar kemur að skipun yfirmanna í löggæslu, skipun sýslumanna hringinn í kringum landið. Þar talar reynslan sínu máli. Hún er ólygnust eins og alltaf.