Lögreglulög

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 16:53:47 (5256)

1998-03-30 16:53:47# 122. lþ. 98.11 fundur 442. mál: #A lögreglulög# (samstarf lögregluliða, valnefnd Lögregluskólans o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[16:53]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt eins og sakir standa að við fáum hreinlega úr þessu skorið og ég lýsi því þess vegna yfir að ég mun leggja fram fyrirspurn seinna í dag þar sem óskað er skriflegra upplýsinga um allar embættisveitingar ráðherrans á þeim umliðnu sjö árum sem hann hefur setið í embætti þannig að hver og einn geti þá horft á það og metið það nákvæmlega hvort um dylgjur sé að ræða eða hvort það fari ekki ansi nærri veruleikanum og sannleikanum sem ég sagði áðan. Við þurfum þá ekki að deila um það meira á þessum vettvangi.

Hvað varðar hinn þátt málsins. (Gripið fram í.) Það kann vel að vera að okkur greini á um það hvar eigi að draga þessa línu, hvar eigi að draga þá línu hvenær ráðherra skipi og hvenær æðsti yfirmaður stofnunar eigi að skipa. Það er hins vegar þannig, hvað sem áhrærir þessum skilgreiningum á embættismönnum annars vegar og öðrum starfsmönnum ríkisins hins vegar, að meginstefnumörkunin hefur verið sú og var sú í almennri umræðu um þau mál að það væri yfirmaður viðkomandi stofnunar sem hefði skipunar- og ráðningarvaldið á eigin hendi. Hins vegar hafa orðið undantekningar á þessu og þess er skemmst að minnast í samgn. að hæstv. samgrh. hefur stundum verið að reyna að breyta þessari línu. Í umræðu á eftir um frv. til laga um loftferðir eru m.a. tilraunir af hálfu hans til þess að hafa skipunarvald áfram á hendi hvað varðar næstu undirmenn flugmálastjóra. Sú almenna stefnumörkun sem hæstv. fjmrh. fór fram með með miklum látum og miklum gusti fyrr á þessu kjörtímabili er að brotna upp hér og þar. En skoðun mín er óbreytt í því. Ég held að það sé óskynsamlegt að skilja þetta vald eftir hjá hinum pólitíska hæstv. dómsmrh.