Lögreglulög

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 17:18:19 (5263)

1998-03-30 17:18:19# 122. lþ. 98.11 fundur 442. mál: #A lögreglulög# (samstarf lögregluliða, valnefnd Lögregluskólans o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[17:18]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að hæstv. dómsmrh. sagði áðan að sú úttekt sem fram hefur farið hefði leitt í ljós þá staðreynd að tiltekið magn fíkniefna vanti í geymslur lögreglunnar, þ.e. ekki er um að ræða grun, heldur er hér á ferðinni staðreynd. Ég hlýt því að spyrja og ítreka spurninguna og kalla eftir frekari rökstuðningi. Er ekki alveg kristaltært hver ber ábyrgð á lögreglustjóraembættinu í Reykjavík? Er það ekki lögreglustjórinn í Reykjavík? Ég hlýt því að spyrja sem svo þegar þessi staðreynd liggur fyrir, það er verið að rannsaka þetta frekar, hvort ekki sé rétt á meðan á þessari rannsókn stendur að viðkomandi, í þessu tilviki lögreglustjórinn í Reykjavík sem ég tel að beri ábyrgð á þessu, víki tímabundið úr starfi því það er dálítið óþægilegt fyrir settan ríkislögreglustjóra að rannsaka embætti og þá hugsanlega starfsábyrgð lögreglustjórans og hann skuli sitja áfram í starfi. Þetta er voðalega óeðlileg staða. Hér er ekki verið að fella neina dóma, hér liggur aðeins fyrir í fyrsta lagi sú staðreynd að þetta er horfið, og meðan verið er að rannsaka ástæður þess hljótum við að spyrja hvers vegna lögreglustjórinn í Reykjavík sitji enn þá. Mér finnst þetta vera mjög óeðlileg staða sem uppi er í þessu máli án þess að hér sé verið að sakfella nokkurn mann. Viðkomandi er hins vegar yfirmaður í þessari stofnun og hlýtur að bera ábyrgð sem slíkur, sem yfirmaður. Það hlýtur eitthvað að felast í yfirmannaábyrgð, þess vegna fá menn hærri laun, þess vegna hafa menn betri stöðu af því menn bera ábyrgð og eiga að gera það.