Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 17:34:55 (5267)

1998-03-30 17:34:55# 122. lþ. 98.8 fundur 209. mál: #A stjórn fiskveiða# (hámark aflahlutdeildar) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[17:34]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að málið sé komið að lokum. Málið hefur fengið talsverða umfjöllun, var töluverðan tíma í undirbúningi í nefnd þar sem reynt var að skoða helstu hliðar málsins. Ég held að það sé mjög eðlilegt að frv. eins og þetta líti dagsins ljós og sé síðan bundið í löggjöf. Auðvitað má deila um það hver séu veigamestu rökin fyrir því að binda það í lög að setja eitthvert hámark á heildarkvótaeign. Ég tók eftir því að hæstv. sjútvn. kaus að nefna það í nál. sínu að helstu rökin fyrir frv. sé ekki að finna í nefndarálitinu eða greinargerðinni frá þeirri nefnd sem vann að því að undirbúa þessi lög. Nú verð ég að játa að ég hef ekki undir höndum skýrslu þá sem lögð var til grundvallar af nefndinni eða nefndin sendi frá sér, því miður láðist mér að hafa það með mér til þingsins í dag. En ég held að ég muni það rétt, af því ég sat í þessari nefnd, að þau mál sem hæstv. sjútvn. vekur athygli á voru mjög til umfjöllunar í nefndinni, þ.e. einmitt þau rök að það geti verið mjög hættulegt, vegna þess að afkoma íslensks þjóðfélags byggir svo mjög á sjávarútvegi ef öll aflahlutdeildin væri komin í hendurnar á einum aðila. Hvort sem þessi setning rataði inn í sjálft nefndarálitið eður ei man ég ekki á þessari stundu en þessi mál voru a.m.k. rædd mikið í nefndinni því að þetta eru augljós rök fyrir því að setja eitthvert hámark á heildarkvótaeign einstakra aðila, lögaðila eða einstaklinga.

Ég tel að vísu að meginrökin fyrir opinberri íhlutun af þessu tagi hljóti að vera þau hvað sjávarútveginn áhrærir, vegna eðlis þeirrar starfsemi, að það verði að takmarka aðganginn að greininni. Það verður að takmarka aðganginn að greininni og það er einmitt vegna þess að þessi aðgangur að greininni sjálfri er ekki frjáls sem það er svo mikil hætta á að það geti safnast upp óeðlilegt efnahagslegt vald sem geti síðan leitt til þess að þessi þýðingarmikla auðlind okkar sé komin í hendurnar á fáeinum aðilum. Ég held að um þær hljóti að vera pólitísk sátt í þjóðfélaginu að það sé í alla staði óeðlilegt.

Þetta tel ég að séu helstu rökin fyrir því og þess vegna taldi ég á sínum tíma þegar menn voru að ræða þetta og bera eignarhlutdeild einstakra fyrirtækja í þessari grein saman við eignarhlutdeildina í ýmsum öðrum greinum og komast að þeirri niðurstöðu að það hefði orðið minni efnhagsleg samþjöppun í sjávarútvegi en ýmsum öðrum greinum, sem er út af fyrir sig rétt, þá held ég að málið sé ekki svona einfalt. Ég held að málið hljóti að snúast um það að þar sem við erum með atvinnugrein þar sem aðgangurinn er ekki frjáls, þar sem menn geta ekki brotist inn til þess að taka þátt í samkeppninni hljóti að gilda um það önnur lögmál en í atvinnugreinum þar sem inngripið er frjálst og menn geta haslað sér völl eðlilega og hafið samkeppni. Þetta taldi ég sjálfur að væru helstu rökin fyrir því að við gripum inn í þetta eins og lagt er til í frv. og er væntanlega verið að gera að lögum núna. Ég tel að út af fyrir sig megi síðan deila um það og það sé svona deila sem fái aldrei neinn endi hvort þetta séu meginrökin. Það eru meginrökin í mínum huga en það er algjört aukaatriði í málinu.

Aðalatriðið er það að þingið er væntanlega að komast að þeirri niðurstöðu að það sé skynsamlegt að grípa inn í löggjöfina og tryggja tiltekna efnahagslega dreifingu, valdadreifingu í þessari mikilvægu atvinnugrein. Það held ég að skipti mjög miklu máli og muni hafa farsæl áhrif fyrir sjávarútveginn í heild og fyrir þjóðarbú okkar.