Loftferðir

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 18:31:59 (5275)

1998-03-30 18:31:59# 122. lþ. 98.7 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[18:31]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég árétta það að ég hef verið og er til viðræðu um það að gera skynsamlegar breytingar á rekstri flugstöðva eða hvaða þætti sem er í flugrekstri almennt og hlutdeild ríkissjóðs frá einum tíma til annars í þeim efnum. Enn þá kemur hv. þm. sér undan því að svara kjarnaatriði málsins sem er þetta og Samkeppnisstofnun kemur réttilega inn á þegar hún bendir á hlutverk Flugmálastjórnar sem sé m.a. að veita leyfi til flugrekstrar og hafa eftirlit með flugrekstraraðilum. Enn þá stendur þessi spurning skýr og klár: Hvernig getur það farið saman að þessi leyfisveitingarhafi, þessi eftirlitsaðili, sé fyrir hádegi í því að hafa eftirlit með hlutum og veita flugrekstrarleyfi en eftir hádegi snúi sú hlið upp þegar þeir taka upp samstarf við þá aðila sem þeir veita leyfin og eiga að hafa eftirlit með? Það er þessi kjarni máls sem hv. þm. kemur sér undan að svara. Því þarf að fara fyrst áður en menn geta farið í skynsamlega efnisumræðu um það hvort, hvernig og í hversu miklum mæli er skynsamlegt að gefa Flugmálastjórn Íslands kost á því að tengjast rannsóknarstarfi annarra aðila eða með hvaða hætti hún á og getur nýtt sér ,,know how`` og þekkingu annarra aðila.

Þessu verður að svara og ég þykist vita, virðulegi forseti, að hæstv. samgrh. sé að búa sig undir andsvar. Kannski hann geti gert betur þó að ég efist um það.