Loftferðir

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 18:34:02 (5276)

1998-03-30 18:34:02# 122. lþ. 98.7 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[18:34]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Eins og frsm. meiri hluta samgn. og formaður hennar, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, 1. þm. Vestf., vék að áðan er greinilegt að álit Samkeppnisstofnunar er nokkuð á misskilningi byggt og hefur ekki komið til orðs svo mér sé kunnugt að Flugmálastjórn ætli sér að eignast hlut í flugrekstraraðila. Það held ég að sé á misskilningi byggt og hefði verið auðvelt fyrir Samkeppnisstofnun að ganga úr skugga um það með því að skrifa samgrn. um þau efni og spyrjast fyrir um þau.

Það sem lýtur hins vegar að því sem hv. 9. þm. Reykn., Guðmundur Árni Stefánsson, sagði áðan er það spurningin um hver eigi að hafa eftirlit með rekstri flugvalla og flugmálum yfirleitt, að loftför séu í góðu lagi o.s.frv. Þessari spurningu hefur oft verið varpað fram og þess vegna er það að loftferðaeftirliti er hagað með ýmsum hætti hjá hinum ýmsu þjóðum. Hér hefur ekki verið valin sú leið að loftferðaeftirlitið sé gert að sjálfstæðri stofnun heldur reiknað með því að það sé áfram undir flugmálastjóra þó svo að flugvellir, flugumsjón og aðrir þættir flugmála heyri jafnframt undir embætti flugmálastjóra. Vel má vera að hv. þm. finnist rök til þess og það er alls ekki út í hött að velta því upp hvort rétt sé að íhuga það alveg hreint án tillits til þess hvernig rekstri einstakra flugvalla verður hagað með því fororði að rekstur þeirra sé á valdi flugmálastjóra, hvort við eigum að styrkja loftferðaeftirlitið og gera það að óháðri stofnun Flugmálastjórnar. Ég held að spurningin hljóti þá að snúast um það en ekki 7. gr. eins og hún er orðuð.