Loftferðir

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 18:40:48 (5279)

1998-03-30 18:40:48# 122. lþ. 98.7 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[18:40]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Ég fagna þrátt fyrir allt, herra forseti, þeim vilja hæstv. ráðherra til þess að skoða það mjög alvarlega að skilja þarna á milli eftirlitsaðila og framkvæmdaraðila og vonast til þess að það mál geti gengið skynsamlega fram.

Hvað varðar þessar orðskýringar sem við höfum verið að tala um skulum við bara nota einfalt dæmi. Um það er tekin pólitísk ákvörðun að stofna hlutafélag um rekstur flugstöðvarinnar í Reykjavík og Reykjavíkurflugvallar. Flugmálastjórn tekur ákvörðun um það að taka upp samstarf við Flugfélag Íslands og um þetta er stofnað dótturfyrirtæki, Reykjavíkurflugvöllur hf. Það gefur auðvitað auga leið að komin eru á hagsmunatengsl milli Flugmálastjórnar Íslands og Flugfélags Íslands í þessu sameiginlega dótturfyrirtæki og ekki er heldur girt fyrir það, virðulegi forseti, að þetta nýja fyrirtæki, Reykjavíkurflugvöllur hf., gæti tekið um það ákvörðun að hefja áætlunarflug hingað og þangað. Það gefur því auga leið að Samkeppnisstofnun er algerlega á réttu róli þegar hún drepur á það að ekki sé girt fyrir það í 7. gr. að Flugmálastjórn geti þess vegna orðið flugrekstraraðili á morgun kjósi hún það. Þó hæstv. ráðherra segi núna að ekki séu áform uppi um það veitir frv. heimild til þess. Það er kjarni málsins og á þeim nótum ræðum við málið.

Ég fagna hins vegar þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra og hv. formanns samgn. að engin áform séu uppi um það að einkavæða þannig flugvelli landsins og flugstöðvar í landinu og taka upp samstarf við flugrekstraraðila því að ég held að það sé ekki skynsamlegt og það mundi skapa þá tortryggni sem Samkeppnisstofnun hefur ótta af. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni. En það er ekkert í lögum og ekkert í frv. sjálfu sem girðir fyrir það, þau opna allar heimildir upp á gátt.