Loftferðir

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 19:06:43 (5282)

1998-03-30 19:06:43# 122. lþ. 98.7 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[19:06]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það eru einungis þrjú atriði. Í fyrsta lagi vil ég nefna skipan flugráðs eins og það liggur nú fyrir samkvæmt frv. Í gildandi lögum segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Flugráð, skipað fimm mönnum, hefur á hendi stjórn flugmála undir yfirstjórn ráðherra. Þrír þeirra skulu kosnir hlutfallskosningu í sameinuðu Alþingi til fjögurra ára. Ráðherra skipar í ráðið tvo menn með sérþekkingu á flugmálum, annan til 8 ára og hinn til 4 ára, og sé hinn fyrrtaldi formaður ráðsins.``

Þessari skipan er því haldið að vísu með þeirri breytingu að gert er ráð fyrir því að þeir sem ráðherra skipar skuli halda umboði sínu jafnlengi ráðherra, en hér er gert ráð fyrir að þeir haldi umboði sínu í átta ár og fjögur ár sem er auðvitað óeðlilegt og algerlega óvenjulegt.

Ég hygg að það sé líka alveg ljóst að það sé óeðlilegt og úrelt orðalag að komast svo að orði: ,,Flugráð, skipað fimm mönnum, hefur á hendi stjórn flugmála undir yfirstjórn ráðherra.`` Ég er þess vegna sammála því sem hv. 4. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds sagði áðan, að ef menn á annað borð hafa flugráð er eðlilegt að það skuli hafa eftirlitshlutverk og vera til ráðuneytis fremur en að flugráð eigi að hafa daglega yfirstjórn flugmálastjóra með höndum. Það var jafnvel svo að flugráð fjallaði um það hvaða menn væru ráðnir til snjómoksturs eða annars slíks á flugvöllum landsins sem auðvitað getur ekki verið á hendi flugráðsmanna og er eðlilegt að falli undir verksvið flugmálastjóra og starfsmanna hans.

Ég vil í öðru lagi ítreka það sem ég sagði áður að auðvitað er ekki um það að tefla að Flugmálastjórn eignist hlut í flugrekstraraðila. Það gefur auga leið. Hv. 9. þm. Reykn., Guðmundur Árni Stefánsson, sagði áðan að til þess gæti komið að fyrirtæki sem stofnað væri t.d. um rekstur flugvallar með hlutdeild Flugmálastjórnar færi að reka flugvélar í samkeppni við önnur flugfélög. Ég held að engar heimildir séu til slíks í frv. eins og það eru orðað.

Að síðustu vil ég að sá skilningur minn komi fram að auðvitað er Flugmálastjórn annars vegar bundinn af fjárlögum og hins vegar af flugmálaáætlun um ráðstöfun á þeim fjármunum sem hún hefur yfir að ráða.