Frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 13:34:41 (5294)

1998-03-31 13:34:41# 122. lþ. 99.92 fundur 288#B frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna# (aths. um störf þingsins), JónK
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[13:34]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Í gær var utandagskrárumræða um vistun ungra afbrotamanna og til svara voru hæstv. dómsmrh. og hæstv. félmrh. Þau gögn sem við þingmenn fengum um þessa umræðu voru á þann veg að félmrh. mundi verða viðstaddur umræðuna og dómsmrh. sæti fyrir svörum.

Nú gerist það í umræðunni að hv. formaður heilbr.- og trn. ber hæstv. heilbrrh. sökum um áhugaleysi á þessu máli og sökum um að vera ekki viðstaddan umræðuna. Þessi ræða hans hefur greinilega haft þau áhrif á fréttaskrif um þetta mál að í DV í morgun kemur grein um að þetta hafi vakið sérstaka athygli og er dregin sú ályktun af umræðunni að þetta hafi verið niðurstaðan, að það sem athygli vakti var að hæstv. heilbrrh. var ekki viðstaddur. Ég spyr því: Undir hvaða formerkjum var þessi umræða háð? Ég tel nauðsynlegt að það komi fram. Var heilbrrh. boðaður til þessarar umræðu? Fékk hann þau gögn sem til þurfti? Ég tel að það sé alveg nauðsynlegt að þetta sé upplýst.

Mér er fullljóst að hv. þingmenn eiga að sitja þingfundi en hins vegar hefur aldrei verið gerð athugasemd við það, ekki upp á síðkastið svo ég muni, að ráðherra sem ekki er boðaður til utandagskrárumræðu sé borinn sökum á þennan hátt af hv. formanni heilbr.- og trn. fyrir að sitja ekki undir umræðum.