Frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 13:38:44 (5297)

1998-03-31 13:38:44# 122. lþ. 99.92 fundur 288#B frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[13:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér þykir nú Framsfl. vera orðinn ærið hörundsár. Menn þurfa að gera sér grein fyrir því að sú umræða sem hér var háð utan dagskrár í gær var háð í skugga ráðstefnu, í skugga málþings sem haldið hafði verið að frumkvæði Verndar í Norræna húsinu, þar sem fram komu mjög alvarlegar upplýsingar um stöðu heilbrigðismála sem einnig vörðuðu unga fanga. Það kom fram hjá sálfræðingi fangelsisins á Litla-Hrauni að víða væri pottur brotinn að því er varðaði geðheilbrigðismálin og kom fram að fram að áramótum hefði einn geðlæknir komið einu sinni til tvisvar í mánuði í fangelsið. Hann hefði ekki getað sinnt þeim verkefnum sem þar voru.

Það kom líka fram í máli sálfræðingsins á ráðstefnunni að eftir áramótin hefði engin geðheilbrigðisþjónusta verið í fangelsinu. Dettur einhverjum manni í hug að þegar menn eru að ræða utan dagskrár málefni fanga sem þarna vistast, í ljósi þeirra atburða sem þar hafa gerst og í ljósi þessara upplýsinga sem þarna komu fram, að ekki yrði spurt eftir því hvað hæstv. heilbrrh. ætlaði að gera í málinu? Það mátti að sjálfsögðu hverjum manni vera það ljóst að það hlaut að koma upp í umræðunni, að sjálfsögðu. Þess vegna var í hæsta máta eðlilegt að ég innti eftir því hvers vegna hæstv. ráðherra var ekki viðstaddur þessa umræðu. Ég hefði talið það miklu betra. En ef það er svo að hv. þm. Jón Kristjánsson er þeirrar skoðunar að það þurfi sérstaka utandagskrárumræðu um heilbrigðismálin í fangelsunum, er sjálfsagt að íhuga hvort ekki sé rétt að verða við þeirri bón.