Frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 13:45:21 (5300)

1998-03-31 13:45:21# 122. lþ. 99.92 fundur 288#B frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[13:45]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er ótrúleg uppákoma í upphafi þingfundar. Það voru mjög sterkar ábendingar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom með í utandagskrárumræðunni í gær. Og að koma hér og gefa það til kynna að þegar rætt er um unga afbrotamenn þurfi ekki að tala um geðhjálp í fangelsunum. Skyldi það ekki vera að ungir afbrotamenn þyrftu á geðhjálp að halda og jafnvel miklu meiri hjálp að halda en þeir sem eldri eru?

Virðulegi forseti. Það hefur aldeilis oft gerst að ráðherra sem ekki hefur verið kallaður til umræðu í utandagskrárumræðu hafi mætt hér til leiks. Ég ætla sérstaklega að gefnu þessu tilefni að nefna hæstv. félmrh. vegna þess að ég held að það hafi verið á síðasta vetri sem hann sat hér utandagskrárumræðu og tók þátt í henni þótt hún beindist að öðrum ráðherra, og ég hældi honum feikilega mikið fyrir það. Og það er ástæða til að nefna það því ég er ekki alltaf að hæla hæstv. félmrh.

Virðulegi forseti. Hitt málið er öllu alvarlegra sem hér kom fram þegar þess er getið og eiginlega hótað að víkja eigi formanni heilbrn. úr formennsku í heilbr.- og trn. fyrir að hann hefur skoðun á heilbrigðismálum. Skyldi það vera að formaður heilbr.- og trn. hefði ef til vill mesta þekkingu á heilbrigðismálunum? Skyldi það vera að sá einstaklingur hefði mesta þekkingu og kæmi sem fyrirliði stjórnarandstöðunnar í þeim málaflokki og gerði athugasemdir?

Og er það svo, virðulegi forseti, að í tilboði til stjórnarandstöðunnar um að fá þrjá formenn í nefndum hafi falist að múlbinda ætti þingmann? Átti með því að múlbinda þennan sterka þingmann jafnaðarmanna, Össur Skarphéðinsson, með formennsku í heilbr.- og trn.? Ég geri alvarlega athugasemd við þetta.