Frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 13:51:35 (5303)

1998-03-31 13:51:35# 122. lþ. 99.92 fundur 288#B frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[13:51]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er hin einkennilegasta umræða. Það lá í hlutarins eðli að hv. þm. gátu reiknað með því að þegar á að taka fyrir vistun ungra afbrotamanna þá hljóta að koma fram á því máli allar þær hliðar sem því tengjast, þó að vegna þeirrar takmörkunar sem var við umræðuna, þ.e. einn klukkutími, veldi ég að kalla aðeins til svara tvo ráðherra en lýsti því jafnframt yfir að það þyrfti að ræða fleiri hliðar og það yrði gert í framhaldinu.

Það hefðu verið eðlilegri vinnubrögð af hálfu Framsfl. að biðja um frestun á umræðunni á meðan hæstv. heilbrrh. var sótt til þess að svara þegar máli var beint til hennar. Það er alls ekkert óeðlilegra að hv. þm. Össur Skarphéðinsson beini spurningum eða umræðu sinni að þessari hlið, vistun ungra afbrotamanna, en að hv. þm. Framsfl. komi hér fram við þessa umræðu að hæstv. ráðherra heilbrigðismála fjarstaddri.

Það er líka einkennilegt að segja það að þó valinn hafi verið formaður úr stjórnarandstöðu fyrir heilbr.- ogt trn., þar sem vinnan hefur verið með ágætum og enginn undan því kvartað, að ekki hafi þar verið staðið eðlilega að afgreiðslu mála, þó að hann sem þingmaður sem hefur mikið vit á heilbrigðismálum gagnrýni störf hæstv. heilbrrh. Við þurfum auðvitað að ræða það ef í því á að felast að okkur sé úthlutað fyrir náð og miskunn einhverjum embættum af hálfu meiri hlutans, að við undirgöngumst það að gagnrýna ekki þessa stjórn eða störf hennar. Þetta er alveg með ólíkindum að okkur sé boðið upp á slíka framkomu af hálfu formanns þingflokks Framsfl.