Frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 13:55:48 (5305)

1998-03-31 13:55:48# 122. lþ. 99.92 fundur 288#B frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[13:55]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það vill nú svo til að formaður heilbr.- og trn. er annálaður geðprýðismaður. Annars hefði hann kannski leyft sér þann munað að segja nokkur vel valin orð við þennan hv., og mér þykir miður að ég þurfi að taka mér það orð í munn, þennan hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur yfir því síðasta sem hún sagði. Mér er alveg sama þó að menn hafi aðrar skoðanir en ég, það kann vel að vera að þeir telji að ég sé vondur formaður. En að koma hingað og segja að ég hafi ekki sýnt heilindi í starfi mínu, formaður þingflokks Framsfl., sem aldrei sl. þrjú ár, aldrei hefur komið til mín og kvartað undan störfum mínum og það hefur enginn þingmaður Framsfl. kvartað undan störfum mínum.

Herra forseti. Ef þingmenn Framsfl. halda að formaður heilbrn. sé slík lufsa að hægt sé að kaupa hann með vegtyllum þá ættu þeir að skoða þetta mál betur. Ef Framsfl. heldur að það sé hægt að kaupa mig fyrir einhver metorð þá fer hann villur vegar í þessu eins og svo mörgu öðru. Ég hef leyft mér þann munað, herra forseti, að hafa skoðanir og standa fast á þeim og fylgja því ákvæði stjórnarskrárinnar sem segir að ég eigi að fylgja sannfæringu minni. Og það getur vel verið að einhverjum ráðherra í einhverju ráðuneyti þyki það miður og það getur vel verið að ég hafi komið við kvikuna á henni stundum. En ég hef aldrei gert annað en að fara málefnalega í umræður um þau mál. Ég held að ég hafi afgreitt hvert og eitt einasta frv. sem til nefndarinnar hefur komið frá ráðherranum, en þau eru að vísu firna fá. Kynni það að eiga sér einhverjar ástæður í verklagi ráðuneytisins?

Herra forseti. Það er einungis vegna þeirra atburða sem urðu á síðustu vikum að ég skora ekki á hæstv. heilbrrh. að mæta mér í þessum sal í umræðunni um geðheilbrigðismálin í fangelsunum. En af virðingu við þá sem eiga aðild að því máli vil ég ekki gera það, vegna þess að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Herra forseti. Hér situr einn maður, hæstv. kirkjumrh., sem þegir. En hver var það sem fyrstur tók upp (Forseti hringir.) heilbrigðismál í fangelsunum í gær? Og hver var það sem benti sérstaklega á að frá (Forseti hringir.) síðustu áramótunum, eftir að allt komst í óefni í fangelsunum varðandi geðheilbrigðismálin, að það hefði verið eftir að hæstv. heilbrrh. tók við málinu? (Forseti hringir.) Það var ráðherra í ríkisstjórninni sem hóf þá umræðu en ekki ég.