Afturköllun þingmáls (frv. um lágmarkslaun)

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 14:01:05 (5307)

1998-03-31 14:01:05# 122. lþ. 99.95 fundur 290#B afturköllun þingmáls (frv. um lágmarkslaun)# (aths. um störf þingsins), GE
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[14:01]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki undir þessum lið að ræða slík alvarlegheit sem hafa verið á vörum manna en kannski væri ástæða til þess að efna til umræðu um störf þingsins í einar tvær til þrjár klukkustundir til þess að menn gætu hreinsað andrúmsloftið.

Ég ætla aðeins, herra forseti, að gera grein fyrir því að mál nr. 307, frv. til laga um lágmarkslaun, væri dregið til baka vegna þess að náðst hefur samkomulag milli mín og hæstv. forsrh. um að það mál fengi sérstaka skoðun með því samkomulagi sem við höfum gert núna fram til haustsins og kæmi þá aftur til umræðu. Hefði mér verið ljóst hvernig sú umræða sem hér hefur verið mundi fara hefði ég dokað örlítið við fram eftir degi með að ræða um þetta mál en ég held að rétt sé að gera grein fyrir því. Menn geta þá kannski hugsað sér að það mál hafi dramatísk áhrif einhvern tíma seinna meir. En ég legg það til, hæstv. forseti, að tekinn verði tími í það að ræða almennt um störf þingsins og þau brigslyrði og ásakanir sem hafa komið fram, sérstaklega á hendur hv. formanni heilbr.- og trn.