Orð formanns þingflokks framsóknarmanna um formann heilbr.- og trn.

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 14:03:56 (5309)

1998-03-31 14:03:56# 122. lþ. 99.93 fundur 289#B orð formanns þingflokks framsóknarmanna um formann heilbr.- og trn.# (um fundarstjórn), SighB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[14:03]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eitt af verkefnum þingforseta er að stjórna störfum þingsins og hafa eftirlit með starfsemi þingsins og þingnefnda. Hér hefur formaður þingnefndar verið borinn sökum um óheilindi í störfum sínum sem formaður og óheilindin eiga þá væntanlega að felast í því, eða það verður ekki öðruvísi skilið en svo að óheilindi séu í störfum formanns þingnefndar að vera ekki sammála ráðherra eða gera athugasemdir við störf ráðherra. Síðan er því hótað af formanni þingflokks Framsfl. að rifta samkomulagi um störf þingsins sem gert var við upphaf þessa kjörtímabils.

Ég tek undir ósk hv. þm. Svavars Gestssonar um að gert verði hlé á fundum þingsins og þessi alvarlegu mál rædd því að á morgun verður haldinn fundur til þess að reyna að ná samkomulagi þingflokka um lok þinghaldsins. (Gripið fram í: Í dag.) Í dag á að gera það, og það er algerlega fráleitt við þessar aðstæður að ætla sér að fara að taka upp einhverjar samkomulagsviðræður við stjórnarandstöðuna um hvernig haldið skuli á málum til loka þingsins þegar yfirlýsingar eins og hér hafa verið gefnar hafa ekki verið skoðaðar betur. Það þarf t.d. að fá það upplýst sem ekki er hægt: Er sú beiðni um að formaður heilbr.- og trn. sé settur af borin fram í samráði við þann ráðherra sem ekki er mættur? Er það sá ráðherra sem er ekki mættur sem er að biðja sér miskunnar með þessum hætti? Er þessi hótun studd af formanni Framsfl.? Talar hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir í nafni þingflokksins þegar hún tilkynnir þessa hótun? Er þetta í samráði við þingflokksformann Sjálfstfl. og forsrh. sem stóð að samkomulaginu við stjórnarandstöðuna í upphafi þessa kjörtímabils?

Virðulegi forseti. Það er skylda forsætisnefndar að taka svona alvarlegar ásakanir upp til skoðunar og afgreiðslu því að hún á að stýra störfum þingsins og þeirra þingnefnda sem kjörnar eru og það er alvarlegt mál þegar forustumaður þingflokks ásakar formann þingnefndar fyrir óheilindi í störfum sínum sem þingnefndarformaður. Það er ekki hægt að láta það fara inn um annað eyrað og út um hitt. Forsetum ber skylda til þess að ganga strax í þetta mál áður en lengra er haldið og það er út í hött að ætla sér að fara að ræða við stjórnarandstöðu um eitthvert allsherjarsamkomulag í þinginu um afgreiðslu mála í skugga svona ásökunar.

(Forseti (StB): Forseti hefur ákveðið að gera stutt hlé á fundinum og gefur 20 mínútna fundarhlé.)