Loftferðir

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 15:14:06 (5316)

1998-03-31 15:14:06# 122. lþ. 99.9 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv., GÁS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[15:14]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hér er gerð tillaga um það að breyta skipan flugráðs frá því sem gert var ráð fyrir í frv. hæstv. samgrh. og raunar gerðar gjörbreytingar á þeirri ætlan sem hann hafði uppi við framlagningu frv. Hins vegar verður ekki hægt að horfa fram hjá því að sú skipan meiri hluta samgn. sem hér er gerð tillaga um er allsérkennileg. Þar er gert ráð fyrir því að hæstv. samgrh. skipi formann og varaformann ráðsins en Alþingi skipi þrjá aðra ráðsmenn. Enn fremur er kastað til þess höndum að skilgreina á fullnægjandi hátt það hlutverk sem flugráð eigi að gegna í þessari stjórnsýslu allri saman. Hlutverk þess hangir enn í lausu lofti og við málið er auðvitað ekki hægt að skilja þannig. Ég greiði því ekki atkvæði.