Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 16:10:23 (5320)

1998-03-31 16:10:23# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[16:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins koma inn á nokkur af þeim málum sem hv. þm. fjallaði um í ræðu sinni án þess að ég geti það að fullu og mun þá gera það í síðari ræðu minni í dag. Að því er varðar Eystrasaltsríkin og aðild þeirra að Atlantshafsbandalaginu vísa ég til þeirrar umræðu sem átti sér stað á Alþingi fyrir stuttu um þau mál. Þar gerði ég þessu máli ítarleg skil og það er nú svo í máli sem þessu að þegar aðeins er tiltölulega stuttur tími til að hafa framsögu er ekki hægt að gera öllum málum jafngóð skil. Við reynum því að velja fremur þau mál sem ekki hefur verið komið inn á áður en það dregur á engan hátt úr stuðningi Íslands við Eystrasaltsríkin í þessu máli. Ég vil ekki að ræða mín sé skilin þannig. Það er hins vegar jafnljóst að það er mikilvægt að eiga góða samvinnu við Rússland og þróunin í Rússlandi skiptir afar miklu máli fyrir öryggi Evrópu. Þar með talið öryggi Eystrasaltsríkjanna. Það er mjög mikilvægt að það samstarf verði með eðlilegt en við höfum ávallt ítrekað það að Rússar hafa að sjálfsögðu ekkert neitunarvald í þessum efnum, það hefur verið mjög skýr afstaða Íslands.

Að því er varðar Evrópumyntina vil ég minna á að ríkisstjórnin skipaði nefnd til að fara yfir það mál og væntanlega mun nefndin skila áliti sínu fljótlega. Það er von mín að það verði vönduð og góð yfirferð um þýðingu þess máls fyrir Ísland og við getum þá tekið frekari ákvarðanir í því máli í framhaldi af því en ég minni á að við eigum ekki aðild, getum ekki átt aðild að því samstarfi eins og er, nema ganga í Evrópusambandið en vel má vera að það breytist einhvern tímann.