Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 17:30:42 (5333)

1998-03-31 17:30:42# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[17:30]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins upplýsa hæstv. utanrrh. um að á vegum sumra þeirra ráðuneyta sem alþýðuflokksmenn fóru með í síðustu ríkisstjórn var hafinn undirbúningur að skoðun á kostum og göllum Evrópusambandsaðildar, m.a. á vegum viðskrn. og iðnrn. sem óskuðu eftir tilteknum upplýsingum og vinnu þar að lútandi frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Einnig minnist ég þess þó ég hafi það ekki undir höndum að utanrrn. hafi beitt sér fyrir sams konar athugunum og úttektum á öðrum sviðum, en eins og ég sagði var þetta allt saman stöðvað við stjórnarskiptin.

Auðvitað er alltaf hægt að gagnrýna samninga þegar þeir eru gerðir. En það er reynslan sem sker úr. Hæstv. utanrrh. var ekki fylgjandi EES-samningnum þegar hann var gerður en hans dómur, persónulegi dómur í ljósi þeirrar reynslu sem hann hefur fengið er sá að sá samningur hafi reynst vel þótt hann hafi ekki stutt hann á sinni tíð. Það er hins vegar áhugavert að fá á einum stað að sjá saman komið gagnrýnisatriðin á þennan samning sem fram voru sett í samningagerðinni og niðurstöður um það hvort sú gagnrýni hafi átt rétt á sér eða ekki, og það voru engin smáorð sem höfð voru uppi í því sambandi úr þessum ræðustól. Það er líka forvitnilegt fyrir okkur Íslendinga að fá það staðfest að upphefð okkar í neytendamálum, frjálsri samkeppni, ýmsum félagslegum réttindum hefur komið á síðustu árum fyrir tilverknað þessa samnings.