Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 17:56:52 (5339)

1998-03-31 17:56:52# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[17:56]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega grundvallarspurning hvort Ísland geti og eigi að vera varnarlaust. Ég er þeirrar skoðunar að svo geti ekki verið og við getum ekki leyst þau mál nema í samstarfi við aðrar þjóðir, á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og á vettvangi varnarsamstarfsins milli Bandaríkjanna og Íslands. Hvernig því er síðan nákvæmlega fyrirkomið er atriði sem við þurfum að svara og ég tel að það komi til greina að gera ýmsar breytingar. Menn spyrja gjarnan: Hver er óvinurinn, hvar er hættan? Er nokkur hætta? Það má vel vera að engin hætta sé á innrás annars ríkis til Íslands en ég minni á að það eru líka hryðjuverkamenn starfandi í þessum heimi, því miður. Það eru glæpamenn starfandi í þessum heimi og það er kannski mesta hættan sem mannkynið býr við í dag að sveitir slíkra manna komist yfir tortímingarvopn og geti tekið til þess að hafa í frammi ýmsa tilburði þannig að við þurfum líka að taka tillit til þess. Ég deili þeirri framtíðarsýn hv. þm. að við getum verið laus við öll vopn og her í þessum heimi en því miður er ég hræddur um að við fáum því ekki einir ráðið, jafnvel þótt Alþb. og Framsfl. legðu saman í þeim málum, sem ég hef ekki mikla trú á miðað við málflutning okkar hér frekar en að Alþfl. og Alþb. leggi saman í þessum málum.