Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 18:17:25 (5342)

1998-03-31 18:17:25# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[18:17]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu minnar vil ég koma inn á þá gagnrýni sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom með á málflutning jafnaðarmanna, þá félaga mína Össur Skarphéðinsson og Sighvat Björgvinsson. Hann hafði á orði m.a. að ræða formanns Alþfl. hefði verið einn samfelldur áróður fyrir aðild að Evrópusambandinu. Um þetta vil ég aðeins segja að við eigum að þora að ræða þessi mál og með opnum huga ræða hvað er í spilunum fyrir okkur, hafna því sem ekki er gott en skoða ef á þarf að halda hvað hugsanlega er fram undan fyrir okkur. Spurt var: ,,Hvað með EES-samninginn? Við hvað á að bera saman?`` Það er alveg ljóst að ný tækifæri opnuðust fyrir Ísland með EES-samstarfinu og eðlilegt er að spyrja hvað það hafi gefið okkur og sú könnun á að vera fordómalaus. Enginn vafi í mínum huga er um að að samningurinn sem þá var gerður á sinn stóra þátt í hve við réttum úr kútnum á árunum sem fylgdu. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur notið þess sem þessi ágæti samningur gaf okkur og þeirra tækifæra sem hann bauð upp á.

Hæstv. utanrrh. lét í ljós áhyggjur um að Alþb. og Alþfl. næðu ekki saman vegna ólíkra áherslna þessara flokka og þingmanna þeirra í Evrópumálum. Ráðherra þekkir hins vegar sjálfur mætavel breidd í skoðunum innan flokks. Ég þarf ekki annað en að minna hæstv. utanrrh. á það þegar helmingur af þingflokki framsóknarmanna sat hjá í atkvæðagreiðslu um EES-samninginn undir forustu núv. hæstv. utanrrh. á meðan formaður flokksins þá greiddi atkvæði á móti ásamt helmingi þingflokks. Þannig virkar lýðræðið líka í Framsfl. og þannig mun það virka í röðum okkar.

Virðulegi forseti. Þótt ræða utanrrh. væri fremur upptalning en beinlínis ítarleg umfjöllun, er drepið í henni á flesta þætti utanríkissamstarfs okkar. Þó tíminn leyfi ekki ítarlega umfjöllun um hvern og einn einstakan þátt ræðunnar er mjög mikilvægt að við komum inn á ólíka þætti hennar. Áhugasvið okkar þingmanna eru líka á margan hátt misjöfn og því gerist það að umræðan flyst inn á ólík svið og verður e.t.v. ekki sú samfella sem hún gæti verið ef við héldum okkur við fáa afmarkaða þætti.

Mig langar í upphafi máls míns að koma inn á mannréttindamálin. Ég hef mjög oft gert það við utanríkismálaumræður. Að þessu sinni ætla ég að koma inn á og bera fram spurningar um þrjú atriði fyrir hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi vil ég nefna að Ísland hefur fullgilt flótamannasamninginn frá 1951, flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, ekki lögleitt hann. Ég spyr enn á ný: Hvers vegna? Ég hef verið með fyrirspurnir til dómsmrh. og ávallt hefur það verið á döfinni að breyta lögum. Lögin um eftirlit með útlendingum eru orðin gömul og þau uppfylla í mörgum tilvikum ekki skilyrði flóttamannasamningsins varðandi útlendinga og landgöngu og hvenær heimilt er að vísa útlendingi úr landi og nýja skilgreiningu á pólitískum flóttamanni. Í umræðunni um Schengen-samstarfið kom líka fram að það þyrfti að breyta mjög mörgum lögum. Farið var yfir það í skýrslunni og nefnt að breyta þyrfti lögum um eftirlit með útlendingum, um framsal sakamanna, um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma og að breyta þyrfti lögum og reglugerðum um lögregluskrár ásamt ýmsu öðru. Það eina sem búið er að gera af því sem þarna var talið upp er að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um ávana- og fíkniefni. Ég spyr utanrrh.: Veit hann hvernig stendur á að það dregst að taka á þessum málum sem eru mjög mikilvæg varðandi alþjóðasamninga sem við höfum gert?

Í öðru lagi langar mig að koma inn á stríðsglæpadómstól um Rúanda. Settir hafa verið á laggirnar tveir dómstólar af Sameinuðu þjóðunum, annar í febrúar 1993 þegar öryggisráðið setti á stofn stríðsglæpadómstól um brot í gömlu Júgóslavíu eftir styrjöldina sem braust þar út 1991. Ísland er eitt þeirra landa sem breytt hafa sinni löggjöf í samræmi við starfsaðferðir dómstólsins og því hefur verið fagnað af mannréttindasamtökum. Í árslok 1994 setti öryggisráðið líka á stofn stríðsglæpadómstól vegna þjóðarmorðs í Rúanda. Hann hefur ekki hlotið nægilegan stuðning aðildarríkja. Þarna gerðust hroðalegir atburðir og verið er að reyna að ná til þeirra sem báru ábyrgð á þeim. Af hverju höfum við ekki tekið inn í okkar löggjöf ákvæði um stríðsglæpadómstólinn í Rúanda eins og Júgóslavíu, þótt ekki væri nema til sýna jafnræði og vilja okkar í verki?

Í þriðja lagi vil ég koma inn á réttindi kvenna. Í umræðunni um stöðu kvenna í Afganistan 8. mars sl. sem Bryndís Hlöðversdóttir hóf á Alþingi var vikið að því af hálfu utanrrh. að kvennafundur væri í New York um þær mundir en ekki ljóst um þátttöku okkar þar. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum á að setja inn kæruleið. Þetta er afar brýnt. En orðalagið sem var sett fram á kvennafundinum er mjög veikt og kvennasamtök stöðvuðu að þetta veika orðalag færi inn í sáttmálann. Það er nefnilega mjög þýðingarmikið að inn í kæruleiðina komi réttur félagasamtaka til að leggja fram kæru fyrir hönd skjólstæðinga og þetta er mjög mikilvægt fyrir konur. Sum lönd sem staðfest hafa sáttmálann brjóta á konum. Konur leita réttar síns en fá ekki réttarbót þrátt fyrir aðild landa sinna að sáttmálanum. Kæruleiðin getur verið þeirra björg. Þetta getur átt við um konur í Afganistan og Pakistan. Í mörgum af þeim löndum sem í hlut eiga er oft um ólæsar konur að ræða og mikilvægt fyrir þær að geta leitað liðsinnis félagasamtaka. Þess vegna er ekki bara mikilvægt að einstaklingar geti kært, heldur líka félagasamtök. Þess vegna spyr ég: Styðjum við á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að þessi leið verði farin?

Virðulegi forseti. Þetta eru þrjú atriði sem eru mjög mikilvæg og sem í flestum tilfellum hafa áður komið fyrir Alþingi. Ég hef sagt það aftur og aftur hversu mikilvægt er að Ísland sé rödd frelsis og mannréttinda á erlendum vettvangi og utanrrh. hefur tekið undir það í umræðu hér og ég met það við hann en spyr: Hvað verður gert í þessum þremur þáttum sem ég vel að nefna hér?

Virðulegi forseti. Í skýrslunni er að finna kafla um norrænt samstarf. Þetta er ekki langur kafli. Þar er vísað til skýrslu ráðherranefndarinnar og væntanlega í aðra skýrslu um norræna samstarfið sem var hér á dagskrá þingsins ekki alls fyrir löngu. Ég verð að segja að mér finnst slæmt að það hefur gerst æ ofan í æ á liðnum árum að skýrslurnar um þetta mikilvæga alþjóðasamband eru á dagskrá í lok fundar. Það er eins og þetta sé afgangsverkefni Alþingis og engir eru orðnir eftir til að fjalla um þetta þýðingarmikla samstarf nema örfáir þingmenn sem í hlut eiga í samstarfinu. Ég vil leggja mitt af mörkum til að þessu verði breytt því í umræðunni í Norðurlandaráði um þær breytingar sem gerðar hafa verið kemur stöðugt einn þáttur aftur og aftur fyrir og það er fótfestan í þjóðlöndunum og það að fara með málin þangað inn og fá hljómgrunn þar um það sem verið er að gera. Ég vil taka undir það sem kemur fram í skýrslunni að Norðurlandasamstarfið hefur alltaf verið hið þýðingarmesta af okkar erlenda samstarfi.

Nýverið hélt forsætisnefnd Norðurlandaráðs málþing um árangur breytinganna sem gerðar voru á samstarfinu á þingmannavængnum. Þetta voru miklar breytingar frá því við vorum land á móti landi, eins og kölluðum það, í samstarfinu þar sem fulltrúar Íslands stóðu saman eins og einn lítill flokkur sem samt var metinn í fullkomnu jafnrétti við hinar stærri sendinefndir sem komu frá nágrannalöndunum. Nú er búið að gera þær breytingar að við erum ekki lengur að starfa land á móti landi. Við erum búin að fylkja okkur inn í pólitísku flokkahópana í Norðurlandaráði og störfum þar. Þess vegna er starfið búið að fá á sig annað yfirbragð. Það er pólitískara og að mörgu leyti verðum við að viðurkenna að það er öflugra og sterkara. Þetta segi ég hér sérstaklega vegna þess að ég er ein þeirra sem börðust mjög lengi gegn því að við færum inn í pólitísku flokkahópana með starfið.

Auk þessa hefur Norðurlandasamstarfið verið sett í þrjá stólpa, Norðurlandanefndina, grannsvæðanefndina og Evrópunefndina. Þótt ekki eigi að vera nauðsynlegt að fara yfir hlutverk þessara nefnda hér ætla ég þó að nefna að nú eru næstum öll verkefni sem voru hinn norræni vettvangur á sínum tíma samankomin í einni nefnd, Norðurlandanefndinni, en áður voru nefndir Norðurlandaráðs fjölmargar. Ég hef haft áhyggjur af því að með þessu skorti okkur yfirsýn yfir þau mál sem þar eru og sum verði út undan. En á hinn bóginn er líka talað um að mikilvægt sé að sjálfstæði nefndanna sem mynda þessa þrjá stólpa samstarfsins verði sem mest. Við hljótum því að spyrja okkur: Hvað gerist við það að þessir þrír stólpar verða svo sjálfstæðir innan samstarfsins og hvernig mun okkur ganga að finna fótfestu heima í þjóðlöndunum og í samstarfinu í þjóðþingunum miðað við það?

Það er mjög mikill áhugi í Norðurlandaráði á grannsvæðunum og við Íslendingar gagnrýnum það að Vestur-Norðurlönd sem eru Ísland, Færeyjar og Grænland, séu orðin eins konar jaðarsvæði. Það vil ég nefna við ráðherrann og spyrja hvernig umræðan um Vestur-Norðurlönd sé í ráðherranefndinni vegna þess að mér finnst að áherslan í þingmannasamstarfinu hafi færst mjög í suður og austurátt, yfir á Eystrasaltslöndin og Rússland.

[18:30]

Annað sem hefur komið til og er nýtt í umræðunni og ráðherrann drap á í sinni ræðu, er tillaga Finna um það sem þeir kalla ,,den nordlige dimension`` og sem við höfum kallað hinu norrænu vídd. Það þýðir að það á að styrkja á hlutverk Evrópusambandsins á norðursvæðum Evrópu sem hluta af utanríkissviði Evrópusambandsins, að það sé grundvallaratriði að styrkja og skerpa Evrópusambandspólitíkina sem tengist þessu mikilvæga svæði og skilgreina forgangsröð Evrópusambandsins. Ríkisstjórnir allra Norðurlandanna hafa lýst stuðningi við tillögu um þessa norrænu vídd. Bent hefur verið á að stækkun eða útvíkkun Evrópusambandsins yfir á Eystrasaltssvæðið undirstriki mjög vægi tengslanna milli Rússlands og Evrópusambandsins. Það dregur einnig fram þýðingu Rússlands sem nágranna Evrópusambandsins og að norræna víddin sé heildarsvæði sem ásamt Eystrasaltssamstarfinu nái til Barents- og heimskautasvæðisins. Sumir telja að þarna eigi að taka á öllu grannsvæðasamstarfi utan hefðbundinna öryggismála og í raun og veru öllu því sem hefur verið í samstarfi Evrópusambandsins, norrænu landanna og grannsvæðanna.

Ég tek það fram að forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefur lýst stuðningi við áherslurnar. En það er svo erfitt að átta sig á hvernig norræna víddin snýr að okkur. Mikil áhersla virðist lögð á að þessi norræna vídd verði brú á milli Evrópusambandsins og Rússlands. Áherslan er lögð á að gas frá þessu svæði geti orðið þýðingarmikið fyrir Evrópu. Við hljótum að spyrja: Ef rússneskt gas getur dugað Vestur-Evrópu í hundrað ár, hvar á hugsanlegt framlag okkar til orkumála í Evrópu, ef við mundum kjósa það að flytja út rafmagn, að koma fram í þessari umræðu?

Virðulegi forseti. Í Norðurlandasamstarfinu hafa vangaveltur um hvernig hægt sé að tengja það sem þar er á döfinni þjóðþingunum, gengið eins og rauður þráður gegnum umræðuna. Varðandi Evrópumálin var hugsunin sú að Evrópunefndin mundi tengja okkur saman. Auðvitað er Evrópunefndin með fleiri málaflokka en hins vegar hefur það verið yfirlýst stefna að þar væri hægt að samræma áherslur landanna innan Evrópusambandsins og landanna sem standa utan við. Þetta er enn ein spurning mín til ráðherrans. Ég veit að það er erfitt að svara mörgum spurningum í ræðu hvers þingmanns en það er líka eiginlega eina leiðin fyrir ráðherrann að eiga við okkur skoðanaskipti um utanríkismálin. Hann þarf að geta brugðist við mismunandi spurningum hvers og eins okkar.